Jónína Rós gefur kost á sér í fyrsta eða annað sæti í NA-kjördæmi

Jónína Rós Guðmundsdóttir, framhalsskólakennari og formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1. – 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.

jnna_rs_vefur.jpg

Áhersla á fjölbreytt atvinnulíf og skiljanlega pólitíska umræðu

„Ég býð fram krafta mína og þor við að endurreisa íslenskt samfélag. Ég legg sérstaka áherslu á nýsköpun í atvinnulífi, velferð fjölskyldna og skiljanlega umfjöllun um pólitík. Byggðamál eru mér hugleikin. Fjölbreytt menntunarframboð um allt land, samgöngur og fjarskipti eru þar mikilvægustu málaflokkarnir. Margbreytileg reynsla úr nærsamfélaginu mun nýtast mér vel í eftirfylgni við mín baráttumál.” segir Jónína Rós.

Jónína Rós er fimmtug, þriggja barna móðir og býr á Egilsstöðum með tveimur yngri börnum sínum þeim Guðmundi Þorsteini, 21 árs og Berglindi Rós, 14 ára.  Elsta dóttirin Guðbjörg Anna, 24 ára, leggur stund á lögfræði við HR. Guðbjörg Anna á þriggja ára dóttur, Karen Rós.

Jónína Rós er fædd og uppalin í Hafnarfirði, lauk kennaranámi við KHÍ vorið 1982 og flutti þá um haustið á Hallormsstað og  hóf kennslu við Hallormsstaðaskóla. Þar starfaði hún til ársins 2001 er hún flutti til Egilsstaða og hefur síðan kennt síðan við Menntaskólann á Egilsstöðum. 

Jónína Rós hefur lokið BA prófi í sérkennslufræðum og er nú í mastersnámi í þeirri grein.

Hún situr í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs og hefur gegnt formennsku í Skipulags- og byggingarnefnd og verið formaður bæjarráðs frá áramótum 2007.  Áður hafði hún setið í fræðslunefnd og er nú stjórnarformaður Vísindagarðsins á Egilsstöðum og nýsköpunarsjóðsins Fjárafls sem styrkir nýsköpunarstarf í dreifbýli Fljótsdalshéraðs, auk þess er hún formaður Svæðisráðs um málefni fatlaðra á Austurlandi, situr í Umferðarráði og Samgöngunefnd sambands sveitafélaga á Austurlandi.

Jónína Rós á sæti í flokkstjórn Samfylkingarinnar og í varastjórn kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.