Ísland er land tækifæranna
Síðustu tíu ár, eða allt frá því að ég var 18 ára, hef ég ítrekað verið spurður: "Af hverju kýst þú Sjálfstæðisflokkinn? Eru þeir ekki flokkurinn sem vinnur bara fyrir ríka fólkið?"
Það er auðvelt að halda slíku fram, en staðreyndin er sú að stuðningur minn byggist ekki á slíku. Ég er vissulega ekki ríkur í peningum, en ég er ríkur á annan hátt – ég á góða vinnu, heimili og fjölskyldu sem skipta mig miklu máli. Einfaldasta svarið er að ég kýs einstaklingsfrelsi.
Þrátt fyrir að ég sé ekki fjárhagslega ríkur, tel ég að samfélag með öflugu einstaklingsfrelsi skapi meira jafnvægi. Hægri flokkar styðja við einstaklinga sem vilja leggja á sig vinnu og framkvæmdir til að bæta sína eigin stöðu og hafa trú á því að fólk geti vaxið og náð árangri án þess að ríkisvaldið þurfi alltaf að grípa inn í. Þessi hugsun um sjálfbjargarviðleitni og það að treysta á eigin getu talar til mín og hefur áhrif á hvernig ég lít á samfélagið.
Ísland er land tækifæranna, og hér er einstaklingsfrelsið mikið. Í þessu landi er engin hindrun á því að ná árangri nema mín eigin viðhorf og vilji. Þetta frelsi hefur gert mér kleift að velja mína eigin leið og skapa mitt eigið líf, og ég vil tryggja að það sama gildi fyrir komandi kynslóðir. En þó að ég kjósi Ísland sem land frelsis og möguleika, er margt sem þarf að bæta – og þar koma orkumálin sérstaklega við sögu.
Við Íslendingar erum rík af náttúruauðlindum, ekki síst grænni orku, sem er orka sem hefur reynst okkur og fyrirtækjum landsins vel. Nú á seinni árum höfum við hins vegar orðið fyrir orkuskerðingum vegna skorts á rafmagni, ekki vegna skorts á auðlindum, heldur vegna þess að við höfum ekki nýtt tækifærin til fulls. Það er kaldhæðnislegt að tala um framtíð og orkuskipti á meðan við erum að dragast aftur úr miðað við þau lönd sem við oft miðum okkur við. Sumir eru ef til vill ósammála, en fegurðin við frelsið er einmitt að það rúmar fjölbreyttar skoðanir. En um eitt ætti að ríkja samstaða: það er engum til hagsbóta að brenna olíu til rafmagnsframleiðslu – hvorki fyrirtækjum, samfélaginu né umhverfinu.
Við í Fjarðabyggð reiðum okkur þungt á rafmagn, þar sem engin hitaveita er til staðar nema á Eskifirði. Rafmagn er öryggismál fyrir okkur, ekki aðeins fyrir heimilin, heldur líka vegna atvinnulífsins. Fjöldi fólks vinnur í álverinu á Reyðarfirði og í stórútgerðinni á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Norðfirði, sem öll þurfa stöðugt rafmagn. Við þurfum að nýta þau orkutækifæri sem landið okkar býður upp á, tryggja orkuöryggi til framtíðar og skapa örugga afkomu fyrir samfélagið í heild. Með því að virkja náttúruauðlindir okkar af ábyrgð getum við lagt grunn að sjálfbærari framtíð og tryggt öfluga afkomu fyrir þjóðina. Þannig verður Ísland áfram land tækifæranna.
Höfundur er Viktor Klimaszewski, álversstarfmaður og stjórnarmaður Hávarr, félags ungra sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð.