Innanlandsflug: almenningssamgöngur eða munaðarvara?

Verð á innanlandsflugi er farið að bitna á lífsgæðum þeirra sem búa á Austurlandi og víðar. Við þurfum öll að nálgast nauðsynlega þjónustu á höfuðborgarsvæðinu einhverjum tímapunkti á lífsleiðinni. Flug ætti að vera raunverulegur kostur fyrir almenning fremur en að keyra sökum vegalengdar, verðlagning innanlandsflugs kemur þó í veg fyrir að svo sé nema fólk hafi ekki kost á öðru.

Samsetning íbúa á Austurlandi hefur breyst til muna, árið 2002 bjuggu t.a.m. 616 íbúar á Reyðarfirði skv. tölum Hagstofunnar, í dag búa þar 1268 og hefur því íbúafjöldinn þar rúmlega tvöfaldast. Þessi fjölgun er ekki eingöngu tilkomin af náttúrulegum ástæðum. Á árum áður bjuggu á Austurlandi rótgrónir Austfirðingar í meiri mæli, sem betur fer hefur á undanförnum árum fólk flutt á Austurland frá öðrum landshlutum í auknum mæli m.a. sökum atvinnustigsins hér.

Þessi breytta samsetning íbúa, frá því sem áður var, hefur fjölgað ástæðum þess að fólk sækir suður, með flugi eða í bíl. Fjölskylduaðstæður er nú með þeim hætti að fólk vill geta ferðast landshluta á milli í fermingar, afmæli, jarðarfarir o.fl. Stærra hlutfall nú en áður á fjölskyldur í öðrum landshlutum. Þá er eins og áður, heilbrigðisþjónusta mikilvægasti þáttur þess að fólk þarf að sækja nauðsynlega þjónustu suður.

„Skoska leiðin“

Á undanfarið hefur mörgum orðið tíðrætt um „skosku leiðina“ í innanlandsflugi og hvaða áhrif það hefði yrði hún tekin upp hér á landi. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum þrýst mjög á það að málefni innanlandsflugsins séu rædd. Á landsfundi flokksins nýverið var samþykkt ályktun um innanlandsflugið þar segir að „hátt verðlag á innanlandsflugi er farið að bitna á lífsgæðum þeirra sem búa úti á landi. Íbúar landsins verða að geta sótt sér nauðsynlega þjónustu á höfuðborgarsvæðinu með greiðum samgöngum þ.m.t. innanlandsflugi. Nauðsynlegt er að koma til móts við hátt verðlag á innanlandsflugi með því að innleiða „skosku leiðina” sem veitir íbúum með lögheimili á ákveðnum landsvæðum rétt til afsláttar á flugfargjöldum. Með því verður innanlandsflug raunhæfur valkostur fyrir landsmenn og jafnar búsetuskilyrði.“

Við viljum halda áfram að berjast fyrir því að „skoska leiðin“ verði innleidd sem fyrst því við erum sannfærð um að hún muni bæta lífsgæði okkar til muna. Í „skosku leiðinni“ felst að ríkið tekur til helminga þátt í farmiðaverði heimamanna á flugleiðum með það að markmiði að auka lífsgæði þeirra sem þar búa. Engum sem til þekkir dylst að hátt verð á innanlandsflugi hér á landi hamlar því mjög að sá ferðamáti sé valinn af almenningi.

Reynsla Skota er sú að þessi leið hafi jákvæð áhrif á þau samfélög sem geta nýtt sér hana. Skal engan undra enda hefur farþegum fjölgað á öllum leiðum og fólk flýgur oftar en það er ekki raunin í innanlandsflugi hérlendis.

Við undirrituð munum fjalla um verðlagningu innanlandsflugs og leiðir til þess að gera það að raunverulegum almenningssamgöngum á fundi Sjálfstæðisflokksins á Austurlandi í grunnskóla Reyðarfjarðar, laugardaginn 12. maí klukkan 15:00. Það væri gaman að sjá þig á fundinum.

Saman gerum við lífið betra.

Ragnar Sigurðsson
Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð
Berglind Harpa Svavarsdóttir
Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins á Fljótsdalshéraði
Njáll Trausti Friðbertsson
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar