Hugleiðingar um tækifæri

BRÉF TIL BLAÐSINS
Elísabet Kristjánsdóttir skrifar

Stjórn Ferðafélags Fljótsdalshéraðs (FFF) leggur til sölu á fimm skálum félagsins til Ferðafélags Íslands og hefur FFF fengið kauptilboð uppá 45 milljónir króna.

skalar_snaefellsskali_fff.jpg

Sigurðarskáli í Kverkfjöllum
Snæfellsskáli
Lindasel í Hvannalindum
Egilssel við Kollumúlavatn
Geldingafellsskáli
 + aðrar eignir, fylgihlutir og aðstaða á svæðinu


Ég fór á kynningarfund sem Ferðafélag Fljótsdalshéraðs (FFF) boðaði á laugardag um þetta mál og vil ég þakka félaginu fyrir það framtak. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar  greint var frá því að það hafi verið að frumkvæði stjórnar FFF að selja ofangreinda skála þar sem stjórnin væri búin að gefast upp á að reyna að fá félagsmenn í sjálfboðaliðavinnu til að sinna skálunum og rekstrarstaðan væri ekki þannig að gróði hlytist af. Á þeim tíma sem þetta var ákveðið og Ferðafélagi Íslands (FÍ) var boðið að gera kauptilboð í skálana lá ekkert fyrir um þjónustusamninga þá er Vatnajökulsþjóðgarður hefur nú gert við FFF um leigu á aðstöðu í skálunum. Engu að síður hefur söluhugmyndinni verið haldið til streitu.

Sorgleg tilhugsun
Ég hef starfað sem skálavörður fyrir FFF í Sigurðarskála þrjú sumur, er í Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs og kem gjarnan í þessa skála í einkaferðum eða með ferðamenn. En það er ekki eingöngu þess vegna sem ég læt mig málið varða heldur vegna þess að ég er íbúi hér á svæðinu. Þó ekki sé langt síðan ég settist hér að ber ég hag svæðisins fyrir brjósti og finnst sorgleg tilhugsun og algjör synd að missa skálana úr eigu heimafólks einmitt þegar þjónustusamningar við þjóðgarðinn koma til með að styrkja rekstrargrundvöllinn. Mér finnst jafnframt ómögulegt að missa skálana úr höndum okkar hér eystra í hendur á bákni fyrir sunnan. Með því höfum við einnig misst ítök á þessu svæði sem mér finnst grafalvarlegt mál og ekki í takt við það sem er að gerast með okkar þátttöku í Vatnajökulsþjóðgarði. Einmitt nú er mikil áhersla á að heimafólk  hafi frumkvæði í  þjóðgarðsmálum sem og atvinnusköpun og bæði nýti sér og skapi sér sín eigin tækifæri. Einnig er mikil vakning í ferðaþjónustu á svæðinu og því virðist þessi hugmynd vera á skjön við allt.

Er eina leiðin að selja reksturinn til Reykjavíkur?
Ég tel að þetta geti verið okkar stóra ferðaþjónustutækifæri ef rétt væri að málum staðið með markaðssetningu og tilheyrandi samstarfi við erlendar sem innlendar ferðaskrifstofur í auknum mæli, en skálarnir og nærliggjandi svæði hafa lítið verið markaðssett hingað til.
Ég trúi því vel að skálarnir og umsýsla þeirra séu orðið of stórt verkefni til að reka í sjálfboðavinnu örfárra aðila sem eiga mikinn heiður skilinn fyrir ómælda vinnu sína. En er þá eina leiðin að selja reksturinn til Reykjavíkur? Er  ekki nær að breyta um rekstrarform? Þannig getum við einmitt varðveitt og nýtt í þágu svæðisins þá sjálfboðavinnu  sem lögð hefur verið í skálabyggingarnar og nærliggjandi svæði. Ég tel að það sé um margar leiðir að ræða aðrar en þær að selja skálana úr höndum okkar heimafólks. Miðað við þau svör sem fengust á kynningarfundinum finnst mér ekki nógu margt hafa verið reynt til að halda skálunum áfram hjá heimamönnum og alger vilji hjá meirihluta stjórnar að losna við skálana til móðurfélagsins FÍ. Mér finnst söluhugmyndin til FÍ ekki góður kostur í stöðunni og því síður finnst mér kauptilboðið vera í  samræmi við verðmæti skálanna, hvað þá ef meta ætti tækifæri svæðana sem þeir standa á að verðleikum. Gert er ráð fyrir 45 milj í kauptilboðinu sem stjórn FFF virtist sætta sig vel við. Ferðafélag Húsavíkur fær 10 milj. fyrir sinn hlut í Sigurðarskála í Kverkfjöllum og eftir standa 35 milj. sem FFF fær í sinn vasa. Það er hægt að fá sæmilega gott einbýlishús með bílskúr á Egilsstöðum fyrir svipaða upphæð! Hvað um þessar náttúruperlur sem skálarnir standa við?  Mér finnst að fleiri aðilar eigi að láta sig málið varða en Ferðafélagið (FFF) sjálft, t.d. svæðisráð þjóðgarðsins, sveitastjórnir, 4x4 klúbburinn, ferðaþjónustuaðilar og Markaðsstofan svo eitthvað sé nefnt. 
Auðveldasta  leiðin út er að gefast upp með þessum hætti, en viljum við fara hana?
Eflaust væri gott að skilgreina betur hvað það er sem uppá vantar peningalega svo skálarnir verði ekki byrði á félaginu. Af hverju ekki að gera góða rekstraráætlun fyrir þessa skála svo auðveldara sé að átta sig á því um hvað málið snýst (Impra nýsköpunarmiðstöð veitir m.a. góða slíka aðstoð, Þekkingarmiðlun o.fl.) og þá er greiðari leið að fjármagni og styrkjum ef með þarf til að greiða starfsfólki laun í stað sjálfboðaliða. Með rekstraráætlun er einnig auðveldara að leigja út reksturinn eða selja hann fyrirtækjum eða félagasamtökum sem eru í héraðinu ef það er eindreginn vilji félagsmanna að selja á annað borð.

Stjórn fresti atkvæðagreiðslu
Með sölunni er hætt við að við látum frá okkur tækifæri í atvinnusköpun, tækifæri til að hafa meiri ítök í þjóðgarðinum og jafnvel spurning um sjálfstæði að einhverju leiti á heimaslóð. Fyrirhuguð sala er stór ákvörðun fyrir svæðið í heild til framtíðar og mér finnst málið ekki hafa fengið næga umræðu þrátt fyrir ágætis kynningarfund sem því miður var fámennur. Aðalfundur FFF verður haldinn í maí og fá félagsmenn þá tækifæri til að greiða atkvæði með eða á móti þessari tillögu stjórnarinnar. Ég hvet því alla íbúa sem og ferðafélagsmenn til að velta þessu vandlega fyrir sér. Ég vil einnig hvetja stjórn félagsins til að fresta þessari atkvæðagreiðslu meðan kannaðir yrðu fleiri möguleikar á rekstrarformi skálanna og leitað yrði aðstoðar við gerð rekstraráætlunar ef með þarf. Einnig gæti verið sterkur leikur að kalla saman Markaðsstofuna, ferðaþjónustuaðila á svæðinu, sveitastjórn, svæðisráð þjóðgarðsins, 4x4 klúbbinn  svo einhverjir hagsmunaaðilar séu nefndir og ræða þeirra væntingar og hugmyndir um málið.
Ég hef þetta ekki lengra að sinni en eins og lesa má hugnast mér þetta afar illa   Langaði aðeins að vekja athygli á þessu máli út frá mínu sjónarhorni. Hvað finnst ykkur kæru íbúar?

Vinnum saman að lausnum fyrir hagsmuni svæðisins!
Með kærri kveðju,
Elísabet Kristjánsdóttir,
Fjalladýrð – Möðrudal

Myndatexti: Snæfellsskáli er einn þeirra fimm skála í eigu Ferðafélags Austurlands sem stjórn þess leggur til að seldir verði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.