Hugleiðing við áramót

Sigurður Ragnarsson skrifar:

Fyrirgefðu, þetta voru bara viðskipti...  Ég var alinn upp við það að sýna skuli heiðarleika í öllum samskiptum og að orð skulu standa. Eitt sinn þegar ég var búinn að tapa verulegum fjármunum á samstarfi við samstarfsaðila sagði hann við mig: ,,Sorrý, þetta voru bara viðskipti, ert þú ekki vinur minn?“

Þessi orð hafa verið mér hugleikin síðan og eru kannski til marks um þann siðferðisbrest sem vaðið hefur uppi í þjóðfélaginu, allt er leyfilegt í viðskiptum, engin höft, enginn siðferðisstuðull.

Búið er að hamra á því undanfarin ár að almenningur sýni ábyrgð í fjármálum, auki sparnað sinn, leggi fyrir á ,,örugga" reikninga í banka og geri áætlanir fram í tímann, fari í greiðslumat, greiðsludreifingu og hvað þetta heitir allt saman. Fólk fór eftir þessu, stóð við allt sitt, borgaði lánin sín, hitti ráðgjafann sinn og fékk ráðleggingar, m.a. um að það væri mun hagstæðara að leggja aukalega í sparnað frekar en borga upp lánin og var bent á bestu leiðirnar. Nú hefur fólk tapað stórfé á innistæðum sínum og þarf að auki að taka á sig miklar byrgðar fyrir auðmennina sem gamblað hafa með peningana okkar í eiginhagsmunaskyni. Komið hefur á daginn að ráðgjafarnir voru bara lýðskrumarar og greiningardeildirnar bara áróðurstæki bankanna og þá er sagt; þér var nær, þú tókst áhættuna: ,,Sorrý, þetta voru bara viðskipti, ert þú ekki vinur minn?"

 

Fjármögnunarfyrirtæki auglýsir á heimasíðu sinni að það sýni framúrskarandi þjónustu og hafi hagsmuni viðskiptavina ávallt í öndvegi, að fyrirtækið sé nú hluti af daglegu lífi fjölmargra fjölskyldna og fyrirtækja.  Fyrirtækið taki hlutverk sitt alvarlega og starfsmenn séu meðvitaðir um þá ábyrgð sem því fylgir. Svo mörg voru þau orð, en þetta sama fyrirtæki hefur svo farið eins og engisprettufaraldur um landið, hirt atvinnutæki til að selja úr landi á ,,hagstæðu" gengi og ekkert skeytt um slæm afdrif fyrirtækjanna, sem það þó sagðist ætla að hafa í fyrirrúmi.

 

Þetta hafa þeir líka gert gagnvart fyrirtækjum sem alltaf hafa staðið í skilum, en þurfa nú um stundir að fá smá sveigjanleika og að ströngustu kröfur um veðhæfi verði lagðar til hliðar, enda allt slíkt hvort sem er í rugli um stundarsakir vegna ástandsins. Umrætt fjármögnunarfyrirtæki hefur hunsað allar slíkar beiðnir og virðist hugsa um það eitt að tryggja eigin hagsmuni til styttri tíma og sjúga út allt það fjármagn sem þeir geta náð út úr skjólstæðingum sínum með sem skjótustum hætti.  Þetta hafa þeir gert þó það valdi skjólstæðingum þeirra stórskaða eða jafnvel keyri þá í þrot með öllum þeim skelfilegu afleiðingum sem það hefur fyrir starfsmenn og samfélögin sem þeir sinntu. Höfðu fögur fyrirheit um að standa með viðskiptavinum sínum enga þýðingu, verður bara sagt; ,,Sorrý, þetta voru bara viðskipti, ert þú ekki vinur minn?“

 

Við höfum látið hafa okkur að fíflum allt of lengi. Við krefjumst þess að siðferði í íslensku stjórnkerfi og viðskiptalífi batni og þeir menn sem enn standa vörð um og hilma yfir fjárglæpi auðmanna, innherjaviðskipti og óheiðarleg vinnubrögð, verði látnir fara úr embættum sínum og vegurinn ruddur fyrir heiðarlegri viðskptaháttum og bættu siðferði í þjóðfélaginu.

 

Ég er Samfylkingarmaður og hef treyst því að flokkurinn minn bæti ástandið, ég treysti á ykkur Einar Már, Kristján, Ingibjörg og öll hin. En það er ekki nóg að tala um hlutina, það þarf að taka til.  Ég veit að þið hafið haft mikið að gera og ekki sanngjarnt að segja að þeir einu sem gera eitthvað séu Spaugstofan og Agnes Bragadóttir, en nú þarf djörfung og dug, þjóðin kallar eftir því. 

 

Með ósk um farsælt nýtt ár í betra og heilbrigðara samfélagi.

  

Sigurður Ragnarsson, framkvæmdastjóri Egilsstöðum. 

 

 

 

 

 

 

 

04_03_6---shaking-hands_web.jpg

Er handsal samninga og traust manna á millum í viðskiptum úrelt fyrirbæri sem aðeins fylgir liðinni öld?

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.