Áhugavert tækifæri fyrir fólk til sveita

Vaxtarsprotar á Austurlandi er áhugavert verkefni á vegum Impru og markmið þess að hjálpa fólki til sveita til að skapa sér nýja eða aukna atvinnu í heimabyggð.

 Á námskeiðum fram til vors verður fólki á Austurlandi hjálpað að þróa hugmyndir að tekjuskapandi verkefnum og er kennsla og ráðgjöf því að kostnaðarlausu.

vaxtarsproti1vefur.jpg

Elín Aradóttir, verkefnisstjóri hjá Impru, sagði á kynningarfundum sem haldnir voru á Austurlandi síðustu viku, að verkefnið væri unnið í samstarfi við Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Búnaðarsambandið,  Þekkingarnetið og Þróunarfélagið koma að verkefninu á Austurlandi. Það hefur þegar verið unnið á svæðinu í kringum Húnaflóann, á Suðurlandi, í Þingeyjarsýslum, Reykhólahreppi og Dalabyggð undanfarin tvö ár og reynst vel. Aðsóknin hefur verið góð og um 110 einstaklingar lokið námskeiðum og unnið að samtals 83 verkefnum. Um þriðjungur  verkefna hafa verið ný og er ýmist búið að hrinda í framkvæmd eða komast á laggirnar á næsta hálfa ári. 38% verkefna voru hjá starfandi fyrirtækjum og framþróun eða nýsköpun á því sem fyrir var. Um fimmtungur  verkefna var skammt á veg kominn eða þau hafa verið lögð á hilluna.

 Ekkert of smátt 

,,Lykilatriði í þessu er að þátttakendur vinna að þróun og undirbúningi eigin viðskiptahugmynda. Eina inntökuskilyrðið er að hafa hugmynd til að vinna með,“ sagði Elín. ,,Engrar sérstakrar menntunar eða reynslu er krafist en þetta er alvöruverkefni og við gerum þá kröfu að fólk gangi til verks af metnaði og taki virkan þátt.“ Hún segir þátttakendur fram til þessa bæði hafa verið fólk með nýjar hugmyndir og einnig aðila sem þegar voru í atvinnurekstri og vildu þróa hann áfram. Hugmyndir megi vera á algjöru frumstigi. ,,Það er ekkert verkefni of lítið. Verkefni sem felur í sér áform um að skapa hálft ársverk á jafnmikinn rétt á sér og áform um að skapa fleiri. Þetta er mikilvægt því oft vill fólk til sveita reyna að auka tekjur meðfram hefðbundnum búskap.“

Meðal fyrirtækja sem sprottið hafa upp úr Vaxtarsprotaverkefninu má nefna hangikjot.is við Mývatn, Theme Travel Iceland á Hólmavík, Lækjarbotnableikju á Hellu, Gistiheimilið Álftaland við Reykhóla, Ísaum á Skagaströnd, Sælusápur í Kelduhverfi og Náttúran í ull á Hvammstanga.

Skráningarfrestur er hjá Impru til 20. janúar 2009.

Frá fundi um Vaxtarsprota á mánudagskvöld.

 

Mynd/SÁ

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.