Hrein orka til eldri borgara
Toyota á Austurlandi og Austfjarðaleið buðu eldri borgurum á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð í heimsókn í gærdag. Haldið var fræðsluerindi um útblástursmengun á heimsvísu og framtíðarlausnir í bílaiðnaði til að lágmarka eldsneytisnotkun úr óendurnýjanlegum auðlindum. Toyota er með vistvænan bíl á sínum snærum, Toyota Prius, og býður starfsmönnum sínum hann til afnota í eina viku hverjum, svo þeir megi kynnast því af eigin raun að aka slíku farartæki.
Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku, kynnti fyrirtækið og fór í framsögu sinni yfir eldsneytisnotkun í heiminum, koltvísýrlingsmengun og tilraunaverkefni í notkun vetnis. Þar hefur Íslensk nýorka verið hvað fremst í flokki, enda stefna fyrirtækisins að auðvelda og undirbúa notkun vetnis fyrir samgöngur á Íslandi. Reyna á að gera tilraunir með að nota vetni sem orkubera fyrir allar samgöngur og fiskiflotann og markið sett á að Ísland verði vetnisvætt fyrir árið 2050.
Hann rifjaði upp að Toyota hefði verið fyrst til að framleiða svokallaða tvinnbíla, sem nota bæði rafmagn og bensín. Verið er að gera tilraun hjá Íslenskri nýorku með bifreið sem notar bæði rafmagn og vetni. Næsta skref í bílaiðnaðinum sé tengil-tvinnbíll sem keyri fyrst á rafmagninu og skipti svo yfir í bensín þegar rafmagnið þrýtur. Í framhaldinu muni notkun rafbíla mjög aukast, einkum fyrir styttri vegalengdir. Drægi sé um 200 km og hleðslutími 6-8 klukkustundir. 30% til 40% bílaflota landsmanna verði vonandi og raunar líklega rafbílar þegar fram í sæki. Afgangurinn yrði sambland af bensín- og rafmagnsbílum og svo rafmagns- og vetnisbílum í framtíðinni.


