Hrafnkell Lárusson sækist eftir 5.-6. sæti hjá VG í Norðausturkjördæmi

Hrafnkell Lárusson býður sig fram í 5-6 sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi sem fer fram 28. febrúar næstkomandi.

hrafnkell_lrusson_vefur.jpg

Hrafnkell hefur reynslu af ýmiskonar félagastarfi, einkum á vettvangi fræða. Hann var einn af stofnendum Háskólalistans, sem bauð fram í kosningum til Stúdentaráðs Háskóla Íslands árin 2003 til 2008, og var í framkvæmdastjórn framboðsins upphafsár þess. Hrafnkell var einnig skorarfulltrúi framhaldsnema í sagnfræði- og fornleifafræðiskor Háskóla Íslands árin 2004-2006.

 

Hrafnkell er með MA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Auk þessa er hann með búfræðipróf frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Hrafnkell starfar nú sem forstöðumaður Héraðskjalasafns Austfirðinga á Egilsstöðum.

 

Hrafnkell hefur unnið margvísleg störf m.a. við fiskvinnslu, blaðamennsku og sem safnvörður við Minjasafn Austurlands. Hann er fæddur og uppalinn í Breiðdal og hefur þar verið virkur þátttakandi í búskapnum með foreldrum sínum. Hin síðari ár hefur Hrafnkell unnið ýmis fræðastörf, m.a. sem sjálfstætt starfandi fræðimaður, og undanfarin ár hefur hann verið ötull við ritstjórn og bókaútgáfu. Hrafnkell er reyndur fyrirlesari og eftir hann liggur töluverður fjöldi greina bæði fræðilegra og almenns eðlis.

 

„Ég legg áherslu á uppbyggingu framhalds- og háskólamenntunar um allt land, en þörfin fyrir slíka uppbyggingu er afar rík við núverandi samfélagsaðstæður. Ég tel mikilvægt að stjórnvöld beiti sér fyrir uppbygging fjölbreytts atvinnulífs sem byggi á þekkingu og hugviti fólksins í landinu og sé í sátt við umhverfi og náttúru. Reynsla undangenginna mánaða hefur undirstrikað mikilvægi fæðuöryggis fyrir landsmenn og í því sambandi álít ég viðhald og styrkingu vistvænnar innlendrar matvælaframleiðslu afar mikilvæga.“

 

„Ég tel að efling jafnréttis kynjanna á öllum sviðum samfélagsins sé forgangsmál sem og áframhaldandi barátta fyrir jöfnum rétti óháð uppruna, kynhneigð, lífsskoðun og litarhætti. Mikilvægt er að efla og þróa lýðræði í landinu með það að markmiði að auka þátttöku og áhrif almennings. Að endingu vil ég nefna mikilvægi áframhaldandi baráttu fyrir friði í heiminum og nauðsyn kröftugrar andspyrnu gegn þeirri hernaðarhyggju sem um of hefur litað alþjóðasamskipti liðinna ára.“

 

Unnusta Hrafnkels er Ingibjörg Jónsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.