Hornfirðingar gengnir úr SSA

Sveitarfélagið Hornafjörður er gengið úr Sambandi austfirskra sveitarfélaga (SSA).

 

Tillaga þess efnis var samþykkt með fimm atkvæðum á fundi bæjarstjórnar sveitarfélagsins í sumar. Tveir fulltrúar minnihlutans sátu hjá. Deilurnar í bæjarstjórn Hornafjarðar snérust aðallega um tímasetningu. Formlegt bréf vegna úrsagnarinnar var afhent á stjórnarfundi SSA á Hornafirði skömmu síðar.
Hornfirðingar hafa færst meira í suðurátt eftir breytingu á kjördæmamörkum fyrir þingkosningar árið 2003 þegar þeir voru settir í Suðurkjördæmi. Vilji Hornfirðinga til þess endurspeglaðist í skoðanakönnun sem gerð var.
Í bókun frá fundi SSA er haft eftir Hjalta Þór Vignissyni, sveitarstjóra, að ákvörðunin hafi ekki verið létt eftir fjörutíu ára farsælt samstarf í SSA. Björn Hafþór Guðmundsson, formaður SSA, sagði menn hafa séð hvert stefndi eftir kjördæmabreytinguna en SSA standi vissulega veikara á eftir.
Hornfirðingar segja sig einnig úr Þróunarfélagi Austurlands og Atvinnuþróunarsjóði Austurlands. Bæjarstjórnin lagði á móti áherslu á áframhaldandi gott samstarf við Þekkingarnet Austurlands.
Hornfirðingar ganga formlega úr SSA á aðalfundi samtakanna eftir tvær vikur. Þeir sækja síðan um aðild að Samtökum sveitarfélaga á Suðurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.