Hóflegar gjaldskrárbreytingar leikskóla Fjarðabyggðar og áfram sterkur stuðningur við barnafjölskyldur
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 07. desember 2024
Undanfarin ár hafa breytingar kjarasamninga haft veruleg áhrif á starfsemi leikskóla um allt land, þar með talið í Fjarðabyggð. Fjölgun orlofsdaga í 30 daga, fjölgun undirbúningstíma leikskólakennara og stytting vinnuviku starfsmanna í 36 klukkustundir valda auknu álagi í starfsumhverfi leikskóla. Það leiðir til mönnunarvanda og óstöðugleika sem m.a. hefur orsakað tímabundnar lokanir deilda, þjónustuskerðingu og tilheyrandi tekjutap foreldra.
Brugðist við álagi og mönnunarvanda
Pólitísk samstaða er nauðsyn þess að bregðast við áskorunum í leikskólastarfi Fjarðabyggðar varðandi álag og mönnunarvanda og að tryggja vellíðan og velferð barna og starfsfólks. Það hefur kallað á breytt skipulag og breytta gjaldskrá leikskóla.
Skapa þarf traust skipulag og betra starfsumhverfi í leikskólum sveitarfélagsins. Draga úr álagi starfsfólks, tryggja faglegt starf og kalla eftir meiri stöðugleika í mönnun leikskóla til hagsbóta fyrir börn, foreldra og starfsfólk.
Vinna við breytingar á gjaldskrá leikskólagjalda í Fjarðabyggð hefur staðið yfir frá því í september á þessu ári hjá starfshópi um breytingar leikskólamála. Þar hafa átt sæti pólitísk kjörnir fulltrúar flokka í sveitarstjórn, ásamt leikskólastjórum og embættismönnum sveitarfélagsins. Samstaða hefur verið um um nauðsyn þess að bregðast við áskorunum í leikskólastarfi Fjarðabyggðar er varðar álag og mönnunarvanda.
Mörg sveitarfélög hafa að undanförnu unnið í sambærilegum breytingum og var fundað með þeim til að fá innsýn í hvernig til hefur tekist. Var meðal annars rætt við Skagafjörð, Ísafjarðarbæ og Hafnarfjörð varðandi þessa vinnu.
Samstaða um breyttar reglur um vistunartíma barna
Á fundi starfshópsins þann 16. október síðastliðinn var bókað mikilvægi þess að „búa til ákveðnar reglur um vistunartíma barna til að koma til móts við þætti eins og undirbúning stafsmanna og styttingu vinnuvikunnar. T.d. að hafa 30 tíma gjaldfrjálsa vistun, sem yrði sveigjanleg fyrir foreldra. Tímar umfram það yrðu skv. gjaldskrá hærri. Í núverandi kerfi eru skráningardagar alls ekki rétt verðlagðir. Skoða þyrfti að hafa yngstu börnin að hámarki í 6 tíma vistun. Setja reglur varðandi að tveir yngstu árgangarnir séu að hámarki 6 -7 tíma.“ Að þessari bókun stóðu allir flokkar í bæjarstjórn og á endanum vorum við sammála um að skerða ekki opnunartíma og því var það lendingin að auka valfrelsið frekar en lokun og skerðingar.
Hóflegri hækkanir en annars staðar
Samstaða hefur verið um hóflegar gjaldskrárbreytingar gagnvart barnafjölskyldum sem þó hafa verið almennt lægri en hjá öðrum sveitarfélögum. Meirihluti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar hefur því lagt til að gjaldskrár sem snúa að barnafjölskyldum muni almennt hækka um 2,5 prósent. Það er lægra en önnur sveitarfélög leggja til og boða að minnsta kosti 3,5 prósent gjaldskrárhækkun.
Vilji og framkvæmd skýr
Allir sem fylgst hafa með störfum bæjarstjórnar Fjarðabyggðar vita af áherslu meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins í að styrkja leikskólastarf í sveitarfélaginu, með hagsmuni barna, foreldra og starfsfólks að leiðarljósi. Með þetta í huga er lögð áhersla á eftirfarandi:
• Almenn vistunargjöld fyrir 6 tíma vistun lækka umtalsvert, eða um 30 prósent. Það er gert til að hvetja til styttri viðveru barna og minnka álag á þau.
• Tekjutengdur afsláttur verði hækkaður verulega og reiknast af dvalargjöldum, það er almennu vistunargjaldi, viðbótar vistunargjaldi og gjaldi vegna skráningardaga. Þetta er mikilvæg breyting frá fyrri gjaldskrá.
• Systkinaafslættir af dvalargjöldum yrðu áfram.
• Skráningardagar gefa foreldrum sveigjanleika til að spara gjöld og gæfu starfsfólki svigrúm til að nýta styttingu vinnuviku og taka út uppsafnaða orlofsdaga.
• Frístundastyrkur barna hækkar 80 prósent eða úr 10.000 kr. í 18.000 kr.
• Álagningarhlutfall fasteignagjalda lækkað með hagsmuni barnafjölskyldna í huga.
Áfram öflugir leikskólar í Fjarðabyggð
Leikskólastigið er fyrsta skólastigið og gegnir lykilhlutverki í menntun barna. Með þessum breytingum sem taka gildi 1.mars 2025 yrðu leikskólar Fjarðabyggðar áfram öflugir og faglegir menntastaðir og stuðla að jákvæðri upplifun og þroska barna.
Jóhanna Sigfúsdóttir er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og Elís Pétur Elísson er bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.