Hljóð og mynd fara ekki saman

Sæl öll í sveitarstjórn Múlaþings og heimastjórn Seyðisfjarðar

Nú er búið að halda þrjá kynningarfundi um Strandsvæðaskipulag Austfjarða. Skipulagstillagan er hraðsoðin, illa unnin og röng. Þar er átt við að helgunarsvæði eru röng við alla sæstrengi á svæðinu. Litlar rannsóknir liggja á bakvið marga hluti, t.d. liggur ekki fyrir áhættumat vegna siglinga. Það virðist ekki neitt stoppa svæðisráðið í að vinna framtíðar strandsvæðaskipulag Austfjarða fyrir eitt fyrirtæki.

Einn ágætur Seyðfirðingur orðaði það svona: „Ég hef það á tilfinningunni að í djúpneti íslenskra stjórnmála sé búið að ákveða að sjókvíaeldi verði á Seyðisfirði.“

Í kynningu Skipulagsstofnunar kemur fram að: „Skipulagsstofnun eða aðliggjandi sveitarfélög geta óskað eftir því við ráðherra að gerð verði breyting á skipulagi, svæðisráð gerir tillögu að breytingum ef talin er þörf á“. Samkvæmt þessu getur sveitarstjórnarfólk ekki sagt að málið sé því óviðkomandi. Eða eins og sagt hefur verið: Við ráðum engu.

Seyðisfjörður er þröngur fjörður með Farice-1 strenginn, sem á helgunarsvæði upp á 926 m og netalög með helgunarsvæði upp á 230 m. Þar mega engar akkerisfestingar vera. Þegar helgunarsvæði strengsins verður leiðrétt, eftir ljót slæm mistök svæðisráðsins, sem hafa verið viðurkennd, verða allir þrír nýtingarreitirnir í firðinum komnir langt yfir helgunarsvæðið. Landhelgisgæslan vaktar alla sæstrengi allan sólarhringinn.

SN1 svæðið í Sörlastaðavík getur aldrei orðið að veruleika fyrir sjókvíaeldi nema að brjóta vitalög, siglingalög og fjarskiptalög.

SN2 svæðið í Selsstaðavík getur aldrei orðið að veruleika fyrir sjókvíaeldi nema að brjóta ofanflóðalög, siglingalög og fjarskiptalög, svæðið er á C svæði. Þar hafa snjóflóð farið í sjó fram og engar kvíar standast högg- og flóðbylgjur sem fylgja snjóflóðum. Í snjóflóðinu, sem féll á Vestdalsmjöl 1995 og hreinsaði það í sjó fram , skilaði flóðbylgjan sér yfir að SR-mjöli handan fjarðar. Múlaþing á minnisvarða um þetta flóð neðan við Fjörð. Í snjóflóðinu á Flateyri 14. janúar 2020 lentu bátar á hvolfi í flóðbylgjunni. Í snjóflóðinu á Súgandafirði 15. janúar 2020 skilaði flóðbylgjan sér yfir fjörðinn og upp á land í þorpinu. Engar kvíar standast svona snjóflóð og flóðbylgjur og slysaslepping yrði mikil. Hlustum á vísindafólk Veðurstofunnar og virðum þeirra orð. Þau hafa sagt: „Ef litið er á kvíarnar sem atvinnusvæði þurfa þær að vera innan A-svæðis. Kvíarnar í Selstaðavík standast ekki þetta viðmið“.

Þarna leggur Svæðisráðið til að ofanflóðalög séu brotin, sem er óskiljanlegt og alrangt, á sama tíma og verið er að færa aðra atvinnustarfssemi í Seyðisfirði af C-svæði eftir ofanflóðin í desember 2020.

Já, því miður hafa mörg snjóflóð og aurskriður leikið Seyðisfjörð grátt. Nýlega er búið að kortleggja 26 neðansjávarflóð í Seyðisfirði og hluti þeirra er á nýtingarsvæðunum. Þetta er eitt af því sem litlar rannsóknir eru á bakvið. Svæðisráð, virðum vísindafólkið og náttúruna.

Þá er það Skálanesbót, en þar fer ekki saman hljóð og mynd. Það vantar ekki fagurgalann í tillögu svæðisráðsins, náttúran, fuglalífið, fiskimið sjómanna, nærumhverfið o.fl. o fl.

SN3 svæðið í Skálanesbót getur aldrei orðið að veruleika fyrir sjókvíaeldi nema að brjóta fjarskiptalög.En hvað er í Skálanesbót? SN3 svæðið, nýtingarreitur sem er 650 – 680 m breiður og rúmlega 2.000 m langur. Eini reiturinn, sem passar fyrir það sem sótt er um í Seyðisfirði, 12 kvíar sem eru 100 m x 100 m hver. En þá er líka allt annað horfið, græna svæðið í Skálanesbót þurrkað út, fuglalífið, náttúran og fiskimiðin skipta engu máli. Það þarf að koma fyrir sjókvíaeldi fyrir eitt fyrirtæki sama hvað. Svona vinnubrögð eru engum til sóma.

Seyðisfjarðarhöfn er grunnetshöfn, hvað þýðir það? Þetta kemur upp þegar grunnet er slegið inn: „STÝRIHÓPUR um samgönguáætlun til tólf ára hefur skilgreint tillögu að grunnneti samgöngukerfis landsins. Er þar tiltekið hvaða þættir leggja grunn að samgöngum landsmanna. Segir í skýrslu stýrihópsins að grunnnetið gagnist öllum landsmönnum og sé uppbygging þess í þágu landsins alls fremur en einstakra byggðarlaga. […] Í siglingum er Reykjavíkurhöfn megingátt en alls eru gáttir til útlanda fimm hafnir þaðan sem eru áætlunarsiglingar til Evrópu eða Ameríku með flutningaskipum eða ferju. Að auki eru 28 hafnir sem uppfylla kröfur siglingaverndar um móttöku flutningaskipa og farþegaskipa sem eru í millilandasiglingum.”

Seyðisfjörður er ein af þessum fimm höfnum, ferjuhöfn til tæpra 50 ára og nýtur þess vegna siglingaverndar. Í umhverfismati skipulagstillögunnar segir: „...Valkostur B getur dregið úr greiðfærni og öryggi siglingaleiða ...“ Þarna þarf Múlaþing að gera athugasemd við skipulagstillöguna, og standa þannig dyggan vörð um siglingaleiðina til og frá landinu. Það er lítið gagn að góðri höfn ef það stórslys verður að siglingaleiðin verði þrengd með sjókvíaeldi. Á næsta ári eru þegar bókaðar komur 117 skipa og fer fjölgandi, þar af um 30 skip yfir 232 m sem eru viðmið Kystverket þar sem þarf 1.000 m í helgunarsvæði siglingarleiða, skip yfir 232 m þurfa þar af leiðandi stærra helgunarsvæði.

Samantekt Rúnars Gunnarssonar skipstjóra um siglingar í Seyðisfirði frá desember 2021, sem voru unnar fyrir Skipulagsstofnunar fyrir skipulagsvinnuna, eru aftast í þessu skjali.

Hvað er meirihluti Múlaþings að hugsa með þrjár hafnir og ekki sérstæða hafnarstjórn? Hafnir sveitarfélagsins skila miklum tekjum.

Það er sárt að finna hvað íbúalýðræðið er lítið virt í nýju sveitarfélagi. Hvað þarf prósentutalan að vera há til að tekið sé mark á íbúunum?

Við þökkum VG í Múlaþingi og öðrum í minnihluta sveitarstjórnar fyrir þann stuðning sem þau hafa sýnt meirihluta íbúa á Seyðisfirði. En nú er frestur til að skila inn athugasemdum við Strandsvæðaskipulagið að renna út þann 15. september n.k. Ef sveitarstjórnin ætlar ekki að skila inn neinum athugasemdum við öllum þessum lögbrotum í Seyðisfirði og líka í Berufirði á svæðum SN16 (sæstrengur og ljósgeisli) og SN18(sæstrengur), væri gott að minnihluta flokkarnir eða einstaklingar í sveitarstjórninni gerðu það.

Vinnum Strandsvæðaskipulag Austfjarða af virðingu við allt og alla. Tökum alla vega ekki þátt í því að brjóta lög.

Síðast þegar við vissum var engin athugasemd komin frá sveitarstjórn Múlaþings við þessa kolröngu og meingölluðu skipulagstillögu.

Ríki og sveitarfélög standa að strandsvæðaskipulaginu og bera því ábyrgð á tillögum um að ofanflóðalög, siglingalög, vitalög og fjarskiptalög verði brotin.

Ætlar sveitarstjórn Múlaþings virkilega að sitja þegjandi hjá og taka þar með þátt í að brjóta lög?

Við vitum að það var ekki samstaða í Svæðisráðinu um að velja valkost B í Seyðisfirði, og þykir leitt að þurfa setja alla undir sama hatt. Vonandi verður valkostur A í Seyðisfirði ofaná hjá ráðinu þegar upp verður staðið því hann er eina rétta leiðin.

Við bíðum alla vega spennt eftir niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis, sem fékk kvörtun frá VÁ vegna vinnubragða Svæðisráðs og starfsmanna Skipulagsstofnunar við skipulagsvinnuna.

Við tökum að lokum undir orð Ólafs Áka Ragnarssonar í nýlegri blaðagrein: „Megi Múlaþing ávallt vera í fararbroddi sveitarfélaga hvað varðar lýðræðisleg vinnubrögð.“

Bestu kveðjur
F.h. félaga í VÁ

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir, Sigfinnur Mikaelsson, Þóra Bergný Guðmundsdóttir og Magnús Guðmundsson.

--

Punktar fyrir umræðuhóp um siglingar í strandsvæðisskipulagi

Þau atriði sem mikilsvert er að nefna í sambandi við siglingu inn og út Seyðisfjörð eru:
● Hversu þröngur hann er, eða 0,7 sml. þar sem hann er breiðastur (sjá mynd neðst í skjalinu).
● Gífurlega hvasst verður oft í vestanáttum.
● Sumum sem sigla inn Seyðisfjörð finnst þeir sigla í röri og að ekkert megi út af bregða.
● Brimnesvita má ekkert skyggja á s.s. ef væru eldiskvíar í Selstaðavíkinni með ljósabaujum.
● Sæstrengurinn eða ljósleiðarinn sem er í miðjum Seyðisfirði er önnur tveggja tenginga Íslands við umheiminn og mega veiðarfæri ekki koma nær honum en 500 faðma.
● Norræna kemur hér vikulega og á sumaráætlun er tímapressan þvílík að þeir keyra skipið á 19 sml. inn allan fjörðinn og að El Grillo baujunni sem er til móts við bæinn. Þar er beygjan upp að bryggju tekin á 12 sml. ferð. Þetta hefur verið mælt af landhelgisgæslunni (Gæslan benti líka á þetta með Brimnesvita). Það hefur hefur oft verið kvartað yfir þessu bæði af smábátasjómönnum og fólki sem er í allskonar ferðaþjónustu. Þið getið ímyndað ykkur allt sem gengur á, öldugangurinn bæði í fjörunni og úti í firði. En eins og svo oft þá má ekki stugga við hendinni sem gefur pening.
● Hér koma 72 skemmtiferðaskip næsta sumar og er alltaf að fjölga. Sum skipin mjög stór, eða upp í 300 m. löng og yfir 100.000 tonn (sjá meðfylgjandi lista yfir skipin sem þegar hafa bókað komu sína næsta sumar, 2022. Þau stærstu eru merkt með rauðu, þ.e. þau sem eru yfir 270 m. löng). Ekki er skyldulóðs í Seyðisfirði þannig það eru ekki allir sem taka hann svo sum þessara stóru skipa sigla hér inn án þess að vita hvers þarf gæta.

Þessir punktar, sem hér eru taldir eiga einungis við Seyðisfjörð, vegna þess að siglingu í honum þekki ég best. Hins vegar getur sumt sem ég nefni líka átt við í öðrum fjörðum. Þá tel ég mikilvægt að nefna að ég hef staðfestar upplýsingar um að þjónustubátarnir í kringum eldiskvíar í Reyðafirði eru skráðir í Noregi og virðist sem engin skipstjórnaréttindi þurfi til að stjórna þeim.

Kv. Rúnar Laxdal Gunnarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.