Háskólanám fyrir alla
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 25. október 2017
Nú sit ég við tölvuna að skrifa þessar hugleiðingar, ég tek mér smáhlé frá aðferðafræðinni. Ég er að rembast við að klára verkefni sem ég þarf að skila í lotu næsta mánudag. Kannski er ég bara heppin, kemst upp með að mæta aðeins í eina lotu á þessari skólaönn hjá Háskóla Íslands. Hefði reyndar átt að mæta í tvær, en fékk leyfi frá því þar sem ég er með ungabarn. Vinkona mín þurfti að fara í þrjár lotur. Flugið kostaði mig aðeins 35 þúsund krónur og ég fæ að gista hjá bróðir mínum í Reykjavík , heppin!
En er ég heppin? Snýst þetta um heppni? Ég er í námi við Háskóla Íslands, sem á að þjóna öllu Íslandi.
Með þeirri tækni sem til er í dag er hægt að veita sambærilega háskólamenntun hvar sem er á landinu og ríkisvaldið á að skilyrða fjármagn til háskólamenntunar á Íslandi með það fyrir augum að stunda megi námið hvar sem er á landinu.
Það er mikilvægt að við sem búum úti á landi vinnum ötullega í að bæta og þróa samfélagið. Bætt aðgengi að háskólamenntun og rannsóknarstarfsemi er í mínum huga stórmál. Háskólasetur á Austurlandi, sem styður við fjarnám nemenda og rannsóknir í fjórðungnum, er bráðnauðsynlegt og ríkisvaldið á að koma á myndarlegan hátt að rekstri þess. Það væri stórt skref í áttina að því markmiði að allir sitji við sama borð og fái jöfn tækifæri hvar sem þeir búa.
Fjölbreytt og góð menntun á hvaða skólastigi sem er á ekki að ráðast af heppni. Sköpum umgerð sem tryggir jafnt aðgengi að háskólanámi og rannsóknarstarfsemi hvar sem við búum á landinu. Fyrir því vil ég berjast og fyrir því viljum við í Vinstri grænum berjast. Gerum betur.
Höfundur er meistaranemi, skipar 10. sæti á lista VG og er varamaður í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.