Grasrót Framsóknar á Austurlandi vill Sigmund Davíð sem leiðtoga

sdg.jpgFramsóknarmenn á Austurlandi skora á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðing og fyrrverandi fréttamann, að gefa kost á sér sem leiðtoga Framsóknarmanna.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðingur og fyrrverandi fréttamaður, er nýjasta nafnið sem nefnt hefur verið í formannskjöri framsóknarmanna á landsþingi flokksins í janúar næstkomandi. Nú binda margir vonir við að Sigmundur Davíð helli sér í formannsbaráttuna.

Í tilkynningu frá nokkrum framsóknarmönnum á Austurlandi segir að undanfarna daga hafi þeir sem tilheyri grasrót Framsóknarflokksins horft út fyrir hinn hefðbundna ramma í leit að trúverðugum leiðtoga sem hefur hugsjón Framsóknarflokksins að leiðarljósi. ,,Við höfum leitað stuðnings víða innan Framsóknarflokksins hjá almennum flokksmönnum, sá stuðningur er auðfenginn.

Sigmundur Davíð hefur mikinn metnað til góðra verka fyrir Framsóknarflokkinn og landsmenn alla. Hann hefur sagt að nú sé mikil þörf á sterkum miðjuflokki og því brýnt að hefja uppbyggingu á okkar gamla góða Framsóknarflokki. Hafa ber í huga að fyrrum forysta flokksins gaf það út að mikilvægt sé að fá nýtt fólk til forystu fyrir flokkinn og í ljósi þeirra sjónarmiða steig eldri forysta með Halldór Ásgrímsson í farabroddi  til hliðar, til að rýma fyrir nýju fólki. Það bar ekki árangur því fylgi flokksins féll og beið flokkurinn afhroð í síðustu  þingkosningum. Nú hefur starfandi formaður Valgerður Sverrisdóttir ákveðið að gefa ekki kost á sér til formanns á komandi flokksþingi.

Í ljósi þessa hlýtur það að vera markmið þeirra sem vilja flokkin aftur í þá stöðu sem honum ber, að styðja nýtt fólk til forystu. Sigmundur Davíð mun geta sameinað krafta grasrótar og forystu flokksins,  og mun óumdeildur pólitískur ferill, hugsjónir og ferskleiki hans hjálpa okkur að ná atkvæðum fyrri kjósenda sem hafa hallað sér að öðrum pólitískum öflum á undanförnum árum vegna óánægju með störf flokksins.

Framsóknarflokkurinn stendur nú á krossgötum og mun komandi formannskjör ráða því hvort flokkurinn nái fyrri styrk aftur eða ekki. Val okkar á verðandi formanni mun lýsa vilja grasrótar í að bregðast við breyttum aðstæðum og sækja fram á ferskum forsendum.

Tökum mark á skoðun fyrri forystu sem vildi nýtt blóð og okkur í grasrótinni sem höfum stutt Framsóknarflokknum og þeim hugsjónum sem hann stendur fyrir. Köllum Sigmund Davíð Gunnlaugsson til forystu. Sinnum kalli nýrra tíma.

Sigmundur stígðu fram – okkur til forystu."

Undir áskorunina rita fyrir hönd áhugamanna um Framsóknarflokkinn og framsóknarstefnuna:

Gunnar Þór Sigbjörnsson, þjónustustjóri á Egilsstöðum.

Einar Birgir Kristjánssson, framkvæmdastjóri á Eskifirði.

Jónas Guðmundsson, bóndi og bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði,

Sigurður Freysson, verslunarstjóri á Eskifirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.