Fullar hendur smjörs?

Þórólfur Matthíasson svarar Smára Geirssyni og Þorvaldi Jóhannssyni:

 

Ritstjóri Austurgluggans hafði samband við mig fyrir nokkru og bað mig um að útskýra (mína skoðun á (innsk.ritstj.)) aðdraganda yfirstandandi kreppu og efnahagshruns fyrir lesendum blaðsins.  Frásögn mín birtist í 47. tölublaði 7. árgangs Austurgluggans.  Ég rakti þá flóknu og á stundum þversagnakenndu atburðarás sem var undanfari hrunsins í stuttu máli.  Eðli máls samkvæmt var stiklað mjög á stóru enda líklegt að skrifaðar verði bækur og jafnvel bókasöfn um aðdraganda kreppunnar, kreppuna sjálfa og afleiðingar hennar.  Ekki er ástæða til að endursegja grein mína hér.

Eitthvað hefur grein mín farið fyrir brjóstið á Smára Geirssyni og Þorvaldi Jóhannssyni því þeir senda mér tóninn í næsta tölublaði Austurgluggans.  Þeir beita margoft margfrægri smjörklípuaðferð, telja mig pólitískan úlf í fræðilegri sauðagæru.  Til sannindamerkis um að ég babli pólitík en ekki hagfræði nefna þeir að ekki sé að finna neinar tölur í grein minni og klykkja út með því að láta að því liggja að mér hefði verið nær að draga úr framkvæmdagleði á höfuðborgarsvæðinu en að agnúast út í jarðvegsflutninga á Austurlandi.

Klípa eitt

Fyrsta smjörklípan snýst um meinta pólitíska misnotkun á fræðapósti mínum við Háskóla Íslands.  Forsendur og inntak hafa valdið mér heilabrotum.  Í fyrsta lagi veit ég ekki betur en annar höfundanna að minnsta kosti hafi valið sér það hlutskipti í lífinu að vera pólitíkus.  Samt sýnist mér að orðið pólitík sé skammaryrði í hans munni.  Þó pólitíkusar standi ekki hátt í kúrs þessa dagana þá finnst mér þetta nú heldur langt gengið af hálfu pólitíkusins Smára Geirssonar. Í öðru lagi nefna þeir félagar ekki nein dæmi um í hverju meint pólitísk afstaða mín komi fram.  Ég veit ekki betur en að efasemdamenn um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé að finna innan allra pólitískra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi og raunar einnig þeirra sem ekki komu mönnum inn á þing.  Framsókn er helst undantekning.   Ég á því bágt með að sjá að efasemdir um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar teljist taumdráttur fyrir ákveðna stjórnmálahreyfingu.  Nema það teljist til glæpa í Austfirðingafjórðungi að vera ósammála Framsókn!  Ég byrjaði að efast um arðsemi Kárahnjúkadæmisins í kjölfar þess að Landvernd bað mig um að fara yfir matsskýrslur Nýsis og Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri vegna samfélagsáhrifa framkvæmdanna á Austurlandi.  Það vakti athygli mína að engin tæmandi umfjöllun var um þjóðhagslega arðsemi verkefnisins í matsskýrslunum.  Ég auglýsti eftir alvöru þjóðhagslegri kostnaðar-ábatagreiningu.  Svörin sem ég og Landvernd fengum voru sambland skætings og tómlætis.  Það vakti mér grunsemdir um að Landsvirkjun og aðrir undirbúningsaðilar teldu það setja framvindu verkefnisins í hættu að upplýsa um þjóðhagslega arðsemi verkefnisins.  Sú grunsemd varð að vissu þegar úrskurður Skipulagsstofnunar lá fyrir.  Í þriðja lagi þá hélt ég að krafan um að fræðimenn tækju ekki afstöðu til málefna líðandi stundar hafi verið sprengd í tætlur yfir borgunum Nagasaki og Hirosima árið 1945.  Þetta átti allavega við vestan járntjalds og fremstur í flokki fóru þeir vísinda- og fræðimenn sem komu að hönnun kjarnorkusprengjunnar.  Ég tel mér skylt, meðal annars með hliðsjón af starfsskyldum mínum hjá Háskóla Íslands að upplýsa almenning um hvernig standa megi betur að undirbúningi stórra ákvarðana.  Ákvörðunin um virkjun við Kárahnjúka er dæmi um stóra ákvörðun sem ekki bara var tekin var á pólitískum grundvelli heldur líka á grundvelli ónógra upplýsinga.

Klípa tvö

Önnur smjörklípa sem þeir félagar klína á mig snýr að því að ég nefni ekki tölur til að styðja mál mitt.  Ég vona að þessi talnaást þeirra tvímenninga hafi verið uppvakin þegar gagnrýnendur Kárahnjúkaverkefnisins báðu um alvöru þjóðhagslegt arðsemismat og að það hafi verið ákvörðun annarra er að undirbúningnum komu að leggjast gegn slíku mati.  Hafi sú verið raunin á ég erfitt með að skilja hitann í málflutningi þeirra á undirbúningsstiginu.  Hvað um það.  Hagfræðistofnun hefur nýlega skilað útreikningum til iðnaðarráðherra um þáttatekjur vegna álframkvæmda á undangengnum árum.  Iðnaðarráðherra hefur birt í þingskjali.  Hæst fer þáttatekjuframlagið í 12% af landsframleiðslu á árinu 2006.  Stór hluti þess er væntanlega vegna framkvæmdanna á Austfjörðum.  Þetta er meira en framlag alls sjávarútvegs til landsframleiðslunnar á sama tíma, jafnvel meira en framlag fjármálastarfsemi til landsframleiðslu þegar mest var.  Þetta er svipað að stærðargráðu og ætlaður samdráttur landsframleiðslu milli áranna 2008 og 2009.  Það má því kannski með sanni segja að heildaráhrifin af framkvæmdinni séu lítil svona þegar litið er til meðaltals nokkurra ára!  En það er eins og að segja manninum sem stendur með annan fótinn ofan í sjóðandi hver og hinn fótinn í djúpum skafli að hann sé í þægilegum heitum potti!  Þá er og til þess að taka að í ríki hagfræðinnar þarf að umgangast tölur með varúð.  „Litlar“ tölur geta haft mikil áhrif.  Þetta gerist ef þessar „litlu“ tölurnar hafa mótandi áhrif á væntingar margra aðila um framtíðarþróun.  Það var nákvæmlega það sem gerðist í sambandi við Kárahnjúkadæmið.  Það urðu margir til þess að benda á það á undirbúningsstiginu að umfang framkvæmdanna myndi ýta upp stýrivöxtum Seðlabankans og í kjölfarið þrýsta upp gengi krónunnar og valda búsifjum hjá stórum hluta útfluningsgreinanna.  Þetta gekk allt eftir, reyndar í meira mæli en nokkurn gat grunað vegna hagstjórnarmistaka sem í kjölfarið sigldu.  Talnameðferð þeirra félaga fellur því illa að nýlegum niðurstöðum í hagfræðirannsóknum.

Klípa þrjú

Síðasta smjörklípan sem ég ætla að gera að umtalsefni snýst um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu.  Þeir nefna þúsundir ófullgerðra íbúða og þrjúþúsund fullgerðra en ónýttra íbúða á höfuðborgarsvæðinu.  Þeir nefna mikið vannýtt verslunarhúsnæði.  Þetta eru orsakir þenslu og hruns að þeirra mati.  Hvernig mín persóna tengist ákvörðunum um byggingarframkvæmdir á stór Hafnarfjarðarsvæðinu er mér hulin ráðgáta.  Ekki á ég byggingarfyrirtæki.  Ekki sit ég í sveitarstjórn.  Eina sem ég get játað á mig er að hafa skipt um klósett og vask í baðherbergi! Reyndar varaði ég við mögulegum afleiðingum lánveitingakapphlaups Íbúðalánasjóðs og bankanna í grein í Morgunblaðinu í nóvember 2004.  Og ekki veldur sá er varar, eða hvað?  Það er reyndar mikilvægt að átta sig á því að ákvarðanir um byggingu virkjana og samninga við álframleiðendur eru eðlisólíkar ákvörðunum um byggingu íbúða og verslunarhúsnæðis.  Ákvörðun um virkjun er tekin af pólitískum aðilum.  Umræðan um arðsemi Kárahnjúkavirkjun sýndi að kröfur um arðsemi voru settar til hliðar þegar sú ákvörðun var tekin og meira litið til ætlaðra staðbundinna áhrifa og kosningaloforða.  Álframleiðandi semur við Ríkisstjórn Lýðveldisins Íslands um skattgreiðslur og orkuverð.  Leikurinn gengur út á að lækka orkuverðið niður að sársaukamörkum Landsvirkjunar til að tryggja þátttöku hins erlenda aðila.  Pólitíkusarnir sem standa í þeim samningum eiga enda allt undir því að samningar náist.  Það vegur ekki þungt í þeirra metabók að ná góðu verði fyrir raforkuna.  Þessu er ekki svona varið í byggingarbransanum.  Þó pólitísk fyrirgreiðsla sé þar landlæg er það þó svo að byggingaraðilinn tekur megnið af áhættunni sem framkvæmdinni fylgir.  Fái hann ekki kaupanda þarf hann að bera skellinn.  Byggingaraðilinn getur ekki sent samborgurum sínum reikninginn jafn leikandi létt og gerist þegar samið er um lágt orkuverð til álframleiðslu.

Kárahnjúkar og þjóðarhagur

Þeir félagar nefna í grein sinni að álverið framleiði gjaldeyri í gríð og erg og efli þannig þjóðarhag.  Rétt er að hafa í huga í því samhengi að Þjóðhagsstofnun heitin taldi að álverið myndi auka þjóðartekjur varanlega um 0,5 til 1%.  Nú hefur það gerst að í kjölfar efnahagshrunsins hefur lánshæfismat íslenska ríkisins, ríkisbankanna og orkufyrirtækjanna lækkað meira en dæmi eru til um í hinni vestrænu veröld.  Samtímis hefur skuldsetning ríkisins aukist geigvænlega.  Langtímaskuldir Landsvirkjunar nema 3 milljörðum dollara eða um 350 milljörðum íslenskra króna.  Auknar vaxtagreiðslur Landsvirkjunnar einnar vegna lækkunar lánshæfismats gætu gróft reiknað numið 0,5% af þjóðarframleiðslu einhver næstu 10-20 árin.  Sú upphæð ein fer langt með að éta upp meintan varanlegan ávinning af Kárahnjúkadæminu.  Og þá eigum við enn eftir að reikna aukinn vaxtakostnað vegna nýrra og gamalla skulda annarra opinberra og hálfopinberra aðila.  Það þarf ekki mikið útaf að bregða til þess að varanlegur ávinningur af Kárahnjúkavirkjun verði neikvæður.  Því miður.

Lokaorð

Í Aðventu segir Gunnar Gunnarsson frá tilgangslitlu ferðalagi inn á öræfi Austurlands í vetrarveðrum.  Söguhetja Gunnars setti reyndar engan í hættu nema sjálfan sig.  Aðventuferð þeirra Smára og Þorvaldar um öræfin í kringum Snæfell eru öðru marki brennd.  Bæði skilja þeir félagar eftir óafmáanleg spor í landinu og stuðla að hruni efnahagskerfisins í leiðinni.  Fjalla-Bensa tókst hins vegar ekkert að skemma með vosbúðardýrkun sinni.  Færi betur á að nútímapólitíkusar hefðu það lítilæti hugans að leiðarljósi í bautasteinabyggingarbrambolti sínu.

Höfundur er prófessor í hagfræði við hagfræðideild Háskóla Íslands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.