Skip to main content

Fínu skoteldaveðri spáð um áramót

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.29. desember 2008

Útlit er fyrir að ágætt veður verði til að kveðja gamla árið með brennum og flugeldaskotum og fagna nýju. Besta veðrinu er spáð á Austurlandi. Veðurstofa Íslands spáir því að um miðjan dag á gamlársdag verði hæg austanátt með éljagangi sunnanlands, nokkuð samfelldri slyddu eða snjókomu. Á miðnætti er reiknað með stöku éljum með austanáttinni. Spáð er úrkomulausu norðaustanlands.

11_07_68---fireworks_web.jpg

Norska veðurstofan, www.yr.no, sem oft hefur reynst sannspá um veður á Austurlandi, segir að á gamlársdagsmorgun verði í Neskaupstað skýjað, 3 m/sek af norð-norðaustri, úrkomulaust og tveggja stiga frost. Að deginum er spáð sama frosti, hægum vindi af suðaustri og 0,8 mm snjókomu. Úrkomulaust verður samkvæmt spánni á gamlárskvöld, tveggja stiga frost og hægur vindur af suð-suðaustri.

Á Egilsstöðum er að sama skapi spáð skýjuðu að morgni gamlársdags, 1,8 m/sek af aust-suðaustri, 4 stiga frosti og úrkomulausu. Yfir daginn skýjað, hæg gola úr suð-suðaustri og úrkomulaust, frost þrjár gráður. Á gamlárskvöld gerir spá norsku veðurstofunnar svo ráð fyrir suðlægri átt, 2,8 m/sek, úrkomulausu og fimm stiga frosti.

 Svo er bara að vona að veðurstofurnar hafi rétt fyrir sér, en útlitið er gott hvað varðar flugeldaveður á Austurlandi um áramót.