Flokkarnir og lýðræðið

Pétur Guðvarðsson skrifar:   Stundum er því haldið fram að ríkisstjórnin hafi Alþingi í vasanum, að Alþingi sé ekki annað en afgreiðslustofnun fyrir ríkisstjórnina, hún ráði öllu, af því að Alþingi samþykkir allt sem ríkisstjórnin leggur fyrir það.  

Meira að segja löglærðir menn hafa skrifað greinar í blöð í þessum dúr.  Þó vita allir að ef stjórnarfrumvarp er fellt á þinginu skoðast það sem vantraust  á stjórnina og hún biðst þá lausnar samstundis.  Því er augljóst að engin ríkisstjórn er svo skyni skroppin að leggja frumvarp fyrir þingið án þess að tryggja fyrst stuðning við það hjá meirihluta þingsins í það minnsta.


  Oft heyrast fréttir um að ríksstjórnin hafi lagt frumvarp fyrir þingflokkana til kynningar og ekki aðeins stjórnarflokkana heldur iðulega alla þingflokkana.  Oft eru heitar umræður í þingflokkunum og stundum gerðar gagngerar breytingar á frumvarpinu og fyrir kemur að einstakir þingmenn áskilja sér rétt til að taka sjálfstæða afstöðu þegar málið kemur til formlegrar umræðu á þingfundi.


  Öll meiriháttar lög hafa verið rædd  í þjóðfélaginu áður en Alþingi tekur þau upp, stundum árum saman.  Oft þurfa menn að vinna að því hörðum höndum  að fá sett lög um það sem þeim finnst nauðsynlegt að lögfesta.  Alþingi tregðast við að taka mál upp þar til nokkurnveginn er tryggt að meirihluti sé fyrir því og menn hafi komið sér saman um hvernig á málinu skuli tekið, hvað skuli ákveða í meginatriðum, hvaða ráðstafanir skuli gera til að yfirlýstur tilgangur náist.  Þar má benda á t.d. lög um stjórn fiskveiða, sem búið var að tala um í allt að tíu ár.  Sama er að segja um lögin um framleiðslustjórnun í landbúnaði,  fjármagnstekjuskatt o.m.fl.


  Stjórnmálaflokkarnir eru hinn formlegi vettvangur stjórnmálaumræðunnar í landinu. Allir eru meira en velkomnir í flokkana og geta þó mætt á opnum fundum flokkanna og sagt sína skoðun þótt þeir séu ekki formlegir flokksmenn í viðkomandi flokki og jafnvel þótt þeir séu skráðir í einhvern annan flokk  Auðvitað tala menn saman um hlutina.  Yfirleitt eru málin rædd í flokksfélögunum, á kjördæmisþingum og loks á landsfundum þar sem ályktanir félaganna eru samræmdar og heildarstefna mynduð. Oftast eru heitar umræður í flokkunum um einstök málefni, sumir eru á móti þessu ,aðrir á móti hinu sumir óákveðnir en atkvæðagreiðsla sker úr og menn sætta sig yfirleitt við það.  Fæstir þykjast svo óskeikulir að þeir þykist þurfa að ráða helst öllu sem þeir vilja, þótt fyrir komi að menn fari í fýlu og skelli hurðum.  Þetta gildir um alla flokkana.  Vilji menn "hafa áhrif" þá eru flokkarnir rétti vettvangurinn til þess. 

  Það er of seint að ætla sér að hafa áhrif þegar ákvörðun hefur verið tekin og málið komið fyrir þingið til að lögfesta það.  Það má jafnvel segja að þjóðaratkvæðagreiðsla sé um öll meirháttar löggjafarmálefni á vegum flokkanna og vafasamt hvort fleiri myndu nýta atkvæðisrétt sinn í allsherjar atkvæðagreiðslu. Kjósi menn að nýta ekki atkvæðisrétt sinn er það á þeirra ábyrgð en ekki kerfinu að kenna.  Stjórnmálaflokkarnir eru þannig hornsteinar lýðræðisins.  Þar er samið um málin, allir geta verið með sem vilja og þegar á þing er komið byrja samningar milli flokkanna.  Alltaf ræður meirihlutinn.  Lýðræðið byggist á því að menn komi sér saman um hvað rétt skuli teljast í hverju tilviki svo að sem flestir geti verið ánægðir með niðurstöðuna.  Það verða þó aldrei allir ánægðir samtímis, en sem flestir þó.   Þetta er lýðræðið að verki!  En það eru alltaf einhverjir í minnihluta hvort sem þjóðaratkvæðagreiðsla er viðhöð eða ekki og hvernig sem menn breyta stjórnkerfinu á æðstu stöðum., það verða alltaaf einhverjir í minnihluta.  Minnihlutinn getur andað rólega því lög gilda jafnt fyrir alla.  Allir eru í sama bát þegar upp er staðið.


  Alþingi endurspeglar yfirleitt það sem þjóðin hefur komið sér saman um og því væri það ólýðræðislegt ef einhver einstakur embættismaður eða stofnun gæti breytt því.

                                                                                                                        Pétur Guðvarðsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.