Fjarðarheiðargöng og aðalskipulag Egilsstaða og Fellabæjar

Nefndir og ráð Múlaþings og sveitarstjórn hafa látið að vilja ríkisvaldsins og samþykkt legu „Suðurleiðar“ frá væntanlegum Fjarðarheiðargöngum og dugar þeim þar samanburður á eplum og appelsínum. Farið hefur verið þar að einu og öllu að vilja Vegagerð ríkisins án nokkurrar skoðunar á því sem betur mætti fara til hagsbóta fyrir byggðaþróun á vegamótum.

Traðkað hefur verið í þessu ferli á andmælarétti einstakra sveitarstjórnarmanna og þaggað niður í þeim með „vanhæfis“ dómum, þó þeir hafi annars sem óvirkir áheyrnar- eða minnihlutafulltrúar ekki átt neina möguleika til að hafa áhrif á afgreiðslu mála.

Það virðist heldur ekki líklegt að þessi niðurstaða sé íbúum þóknanleg m.t.t. skoðunarkönnunar meðal íbúa í póstnúmerum 700/701 nýverið þar sem nær 2/3 þeirra sem svöruðu hefðu viljað Norðurleiðina. Í sömu skoðanakönnun kom einnig fram að meirihluti aðspurðra var óánægður með „…skipulagsmál almennt í sveitarfélaginu“! Það var líka eini málaflokkurinn þar sem aðspurðir í okkar ágæta sveitarfélagi voru óánægðir annars ánægðir eða mjög svo.

Ábyrgð þeirra sem hafa ráðið og ráða nú skipulagsmálum Egilsstaða og Fellabæjar er mikil. Stefnuleysi og smábútasaums-nálgun ráðamanna er viðvarandi. Hvernig ætla menn þessir að byggðin þróist? Hvar verða íbúðabyggðar svæði framtíðarinnar? Hafa þeir einhverja sýn til þess sem æskilegast má vera? Taka þeir mið af því sem orðið er aðkallandi hvað varðar framboð lóða til atvinnuuppbyggingar? Er það byggðaþróuninni hagfellt að þvinga uppbyggingu atvinnusvæða norður að Urriðavatni í stað þess, sem ætlað hefur verið norðan Eyvindarár á mögulegri tengileið á milli flugvallar og fjarða? Veit fólk ekki að það þarf orku til þessarar uppbyggingar og dreifipunktur hennar er, og hefur lengi verið, norðan Eyvindarár. Þjónar það tilgangi byggðarþróunar hér að hafa áfram sem fæstar brýr á Eyvindará? Ráðamenn hafa afþakkað þann möguleika, að fá þar á tvær til viðbótar núverandi og ætla væntanlegu fjárvana sveitarfélagi okkar að standa straum af þegar þörf krefur.

Gjöldum við þess e.t.v. í dag að hafa stigið það gæfuspor að hafa boðið nærliggjandi fyrrum sjálfstæðum sveitarfélögum að verða samfélagsþróun og uppbyggingu okkar samferða?

Vöxtur og viðgangur byggðarinnar við Fljótið dregur vagninn hvað varðar þróun byggðar á Austurlandi. Til þess þarf framsýni, víðsýni og skilning á eðli samfélags okkar á Austurlandi og þeirra miklu möguleika sem fólgnir eru hér.

Höfundur er verkfræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.