Fjarðalistinn býður fram í sjöunda sinn

Fjarðabyggð varð til árið 1998 þegar Eskifjarðarkaupstaður, Neskaupstaður og Reyðarfjarðarhreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag. Þegar sameiningin stóð fyrir dyrum kom félagshyggjufólk úr sveitarfélögunum þremur saman og ákvað að stilla saman strengi sína.

Þetta fólk hafði áður starfað fyrir ýmis framboð en átti það sameiginlegt að aðhyllast félagshyggjuviðhorf. Jafnframt vildi það leggja áhersla á nauðsyn kröftugrar atvinnuuppbyggingar því traust atvinnulíf hefur ávallt verið mikilvægasta kjölfesta hvers sveitarfélags og forsenda þess að unnt sé að bjóða íbúunum upp á góða þjónustu.

Margir urðu til þess að spá illa fyrir Fjarðalistanum. Talið var útilokað að félagshyggjufólk sem kom úr ýmsum áttum gæti unnið saman til langframa og eins var álitið að framboð, sem ekki hefði bein tengsl við stjórnmálaflokk sem starfaði á landsvísu, myndi eiga langt líf fyrir höndum. Bent var á að framboð sem ekki tengdist landsflokkunum gæti illa haft samskipti við þingmenn og ráðherra og því yrðu fulltrúar þess máttlausir þegar þrýsta þyrfti á ríkisvaldið.

Ekkert af þessu rausi hefur ræst. Félagshyggjufólk í Fjarðabyggð hefur náð að vinna afar vel saman undir merkjum Fjarðalistans. Það hefur alls ekki háð framboðinu að vera laust við bein tengsl við einhvern landsflokkanna og samskipti við þingmenn og ráðherra hafa vart verið síðri en annarra framboða í sveitarfélaginu. Bæjarfulltrúar Fjarðalistans hafa hins vegar þá sérstöðu að samskipti þeirra við fulltrúa ríkisvaldsins hafa verið á málefnalegum forsendum en ekki flokkspólitískum.

Fjarðabyggð hefur breyst mikið frá upphafi, stækkað og eflst. Byggðakjörnum sveitarfélagsins hefur fjölgað og Breiðdælingar, Fáskrúðsfirðingar, Mjófirðingar og Stöðfirðingar komið til liðs. Fjarðalistinn hefur átt drjúgan þátt í eflingu sveitarfélagsins og ætlar að halda því áfram af festu og ákveðni.

Í kosningunum 14. maí næstkomandi er boðið upp á fjóra lista til að velja á milli í Fjarðabyggð. Auk Fjarðalistans bjóða ríkisstjórnarflokkarnir þrír fram í sveitarfélaginu. Þeir sem fylgjast með kosningabaráttunni sjá að þar sker Fjarðalistinn sig úr eins og hann hefur ávallt gert. Fjarðalistafólk háir sína kosningabaráttu á eigin forsendum á meðan ríkisstjórnarflokkarnir kalla gjarnan til liðs ráðherra og þingmenn. Það kemur undirrituðum á óvart að þetta skuli gerast fyrir þessar kosningar. Ríkisstjórnin á í miklum vanda, ekki síst vegna bankasölunnar, og skoðanakannanir sýna að stjórnin nýtur sífellt minna trausts. Jafnframt sýna kannanir að fylgið hrynur af stjórnarflokkunum. Þrátt fyrir þetta er kallað á ráðherrana og ætlast til að þeir geri lukku hér eystra. Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Framboðslisti Fjarðalistans fyrir þessar kosningar er glæsilegur. Það er mikil endurnýjun á listanum og efstu sætin skipa ungt og kraftmikið fólk sem ætlar að hafa félagshyggju að leiðarljósi við störf sín. Undirritaður óskar Fjarðalistanum velgengni í kosningunum og vonar að hann muni njóta ríkulegs stuðnings. Fjarðalistinn, sem ýmsir spáðu ekki langlífii, býður nú fram í sjöunda sinn og sýnir engin merki hrörnunar.

Að lokum er full ástæða til að hvetja Fjarðabyggðarbúa til að mæta vel á kjörstað og nýta þann dýrmæta rétt sem kosningarétturinn er. Ég mun allavega mæta galvaskur og kátur og setja stórt X við L.

Höfundur er fyrrverandi bæjarfulltrúi Fjarðalistans


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.