Farsæl öldrun í Fjarðabyggð

Íslenskt samfélag tekur miklum breytingum með stærri hóp eldra fólks. Gangi mannfjöldaspár eftir mun hlutfall eldra fólks hækka ört. Samkvæmt miðgildi mannfjöldaspár Hagstofu Íslands mun aldurshópnum 70- 100 ára fjölga um 43 prósent árið 2030. Er það langt umfram aðra aldurshópa. Svipuð saga endurspeglast í Evrópu en að hlutfall eldra fólks þar sé víðast hvar hærra í dag en hér á landi. – Þessi þróun kallar á skýra stefna og aukið fjármagn. Ekki síst á sveitarstjórnarstigi.

Samfélagsleg þátttaka sem lengst


Fjarðabyggð er þátttakandi í verkefninu „Gott að eldast“ sem er samstarfsverkefni ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Landssambands eldri borgara. Á þeim grunni var auglýst eftir samstarfsaðilum og óskuðu 22 sveitarfélög eftir þátttöku þar með talið Fjarðabyggð. Verkefnið snýr að því að flétta saman þá þjónustu sem Heilbrigðisstofnun Austurlands veitir við þjónustu Fjarðabyggðar. Markmið er að tryggja heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu og sveigjanlegri þjónustu á styrkari stoðum. Meginmarkmið verkefnisins snýr að því að tryggja eldra fólki þjónustu sem stuðlar að því að sem flestir þeirra séu þátttakendur í samfélaginu – sem allra lengst.

Eflum þjónustuna til framtíðar


Efling heimaþjónustu, dagþjónustu og heimahjúkrunar gerir eldri borgurum kleift að búa lengur á sínu heimili og njóta þar viðeigandi þjónustu. Heimaþjónusta er víðast á vegum sveitarfélaga, heimahjúkrun á vegum heilbrigðisumdæma og hjúkrunarheimila, ýmist á vegum heilbrigðisstofnana, sveitarfélaga eða hlutafélaga. Mikilvægt er að efla samvinnu aðila í öldrunarþjónustu með það fyrir augum að samþætta og gera hana skilvirkari og betri. Þjónustan, mannauðurinn og þekkingin er öll til staðar, aukin samþætting og samvinna getur útvíkkað starfsemina, kynnst þjónustuþegum betur, aukið hagkvæmni, stigið nauðsynleg skref í fjarheilbrigðisþjónustu og gerir öldruðum kleift á að búa lengur í heimahúsi.

Þörf á Grettistaki í dagdvalarþjónustu


Fjarðabyggð er eftirbátur annarra samfélaga varðandi dagdvalarþjónustu og úr því verður að bæta. Af 833 dagdvalarrýmum á landinu árið 2020 voru einungis sex í Fjarðabyggð (fimm í Breiðdalsvík og eitt í Neskaupstað). Hér verður að lyfta Grettistaki. En á sama tíma er þetta sóknarfæri fyrir samfélagið.

Dagdvalarþjónusta er úrræði fyrir eldra fólks sem hefur gefið góða raun. Úrræðið er persónubundið þar sem einstaklingur getur fengið þjónustu ákveðna daga vikunnar allt eftir þörfum viðkomandi.

Heilsuefling eldri borgara


Undanfarin ár hefur Fjarðabyggð tekið þátt í verkefninu, „Fjölþætt heilsuefling“, fyrir eldra fólk. Janus Heilsuefling heldur utan um það í samstarfi við sveitarfélagið hefur gefið góða raun. Þátttaka í verkefninu langt umfram björtustu væntingar og mikil ánægja. Búið er að framlengja samninginn við Janus Heilsueflingu enda hefur verkefnið bætt heilsu og líðan eldra fólks.

Aukin samskipti kynslóðanna

Um leið og við beinum kastljósi stjórnmálanna að fjölgun í hópi eldra fólks eigum við hvetja til aukins samgangs og samskipta milli kynslóða. Þannig miðlum við best þekkingu, menningu og þjóðararfi á milli kynslóða. Drögum um leið úr félagslegri einangrun eldra fólks sem á að vera mikilvægt markmið. – Þannig verður gott að eldast í Fjarðabyggð

Höfundur er formaður fjölskyldunefndar Fjarðabyggðar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.