Skip to main content

Farþegum innanlandsflugs til Egilsstaða fækkar um 15%

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.06. janúar 2009

Farþegum í innanlandsflugi milli Reykjavíkur og Egilsstaða fækkaði um 15% árið 2008 og voru um hundrað og fjórtán þúsund talsins. Flugfélag Íslands segir þá fækkun hafa verið nokkuð fyrirséða, vegna loka á virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka.
420.000 farþegar flugu með Flugfélagi Íslands í fyrra og er það annað stærsta ár félagsins frá upphafi.

flugvl.jpg

Fjöldi farþega Flugfélags Íslands dróst saman um 2% á árinu 2008 miðað við árið 2007. Heildarfjöldi farþega í áætlunarflugi var um 420 þúsund þar af voru um 22 þúsund farþegar í millilandaflugi til Færeyja og Grænlands.

Flogið var til fjögurra áfangastaða innanlands frá Reykjavík, til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og til Vestmannaeyja. Millilandaáfangastaðir félagsins eru á Grænlandi, Kulusuk, Constable Pynt, Narsarsuaq og Nuuk, jafnframt var líkt og áður boðið upp á flug til Færeyja.

Hlutfallslega mesta aukning farþega var á leiðinni milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja eða um 26% og flugu um 29 þúsund farþegar á þeirri flugleið með félaginu, á leiðinni til Ísafjarðar og Akureyrar stóð farþegafjöldinn nánast í stað á milli ára, var um 47 þúsund á Ísafjörð og tæplega 200 þúsund á Akureyri.

Til Egilsstaða var nokkur fækkun farþega eða um 15% og var það nokkuð fyrirséð vegna loka á virkjunarframkvæmdum, farþegafjöldi á þeirri leið var um 114 þúsund á síðasta ári.

Flugfélag Íslands mun á árinu 2009 halda áfram að stækka leiðakerfi sitt og býður í fyrsta skiptið uppá áætlunarflug til Ilulissat á vesturströnd Grænlands og mun með því halda úti áætlunarflugi á 5 áfangastaði á Grænlandi næsta sumar og hafa þeir aldrei verið fleiri.