Þetta fólk hefur stolið verðmætum Íslands

Image „Við heimtum kosningar í vor og ég krefst þess af þjóð minni að hún standi upp og geri sig gildandi í umræðunni nú þegar; að hún fari þær leiðir sem færar eru til að knýja fram nauðsynlegar breytingar. Tökum til, við erum þjóðin og við eigum heimtingu á réttlæti og siðbót, annars verður aldrei til nýtt Ísland,“ sagði Björgvin Valur Guðmundsson á mótmælafundi á Egilsstöðum í dag.


Um níutíu manns mættu á fundinn, þar sem mótmælt var aðgerðaleysi stjórnvalda í yfirstandandi efnahagshruni og kosninga krafist. Mótmælin fóru friðsamlega fram, í þungri logndrífu, sem skipuleggjendur fundarins sögðu vera í boði Sjálfstæðisflokksins.  

Frummælendur á fundinum voru þau Björgvin Valur Guðmundsson og Ingunn Snædal.    

„Okkur þyrstir í réttlæti og siðbót,“ sagði Björgvin Valur og rifjaði upp nýlegar fréttir af því að peningar sem greiddir voru fyrir hlut í gamla Kaupþingi, 24 milljarðar króna, hefðu verið sendir rakleiðis inn á leynireikning á Caymaneyjum í Karíbahafi og þar séu þeir enn á ónafngreindum leynireikningum fyrrum eigenda bankans. „Þeir sem grunaður eru um þennan gjörning, að selja hlut í Kaupþingi og koma peningunum undan, ganga að því er ég best veit enn lausir og teljast til fínu-manna þessa lands, en við borgum skuldir þeirra. Í gær fréttum við að Straumur, fjárfestingarbanki Björgólfanna, brjóti lög með því að skila ekki gjaldeyri til landsins. Lífsnauðsynlegum gjaldeyri inn í máttvana þjóðarbú. Við þurfum að halda áfram að standa skil á okkar og rúmlega það og óreiðunni líka. Björgólfarnir sýna okkur þannig upprétta löngutöng og ganga lausir en vei þeim alþýðumanni sem reyndi eitthvað viðlíka. Var ekki útigangsmaður dæmdur í mánaðarfangelsi fyrir að stela vodkapela í ríkinu í Hveragerði í fyrra?“  

Björgvin Valur sagði að í gegnum stjórnmálin ætti fólkið í landinu farveg til áhrifa og jafnvel valda. „Við erum lýðurinn sem lýðræðið heitir eftir og höfum lánað stjórnmálamönnunum valdið sem við eigum öll jafnt. Nú er kominn tími til að við tökum það af þeim og felum það nýju fólki sem ekki er snert af sukkinu og spillingunni, sem hefur viðgengist hér allt of lengi.“   Hann brýndi fólk til að ganga í stjórnmálaflokkana, yfirtaka flokksfélögin og setja af þá sem ráða. Þá sé hægt að gera þær breytingar á pólitíska kerfinu sem fólkið vill, að því gefnu að samstaða náist um grundvallaratriðin, réttlæti og siðbót, sem Björgvin sagðist telja að hefði nú náðst meðal alþýðu manna.   

Image „Hafa áunnið sér gegnheila fyrirlitningu mína“  

„Ég er hér til að mótmæla því að ríkisstjórn Íslands sitji sem fastast og krefst þess að ráðherrar hennar segi af sér og láti þjóðinni í té vald til að kjósa sér nýja leiðtoga,“ sagði Ingunn Snædal í ávarpi sínu. „Ég vil losa mig við þetta ónýta kerfi sem orðið er dragbítur á okkur öll. Ingibjörg Sólrún hefur sagt í fréttum að aðalhlutverk ríkisstjórnarinnar sé að afla sér fylgis. Ekkert með að taka skynsamlega á málum, axla ábyrgð á ástandinu, vinna í samvinnu við aðra, heldur afla sér meira fylgis. Áfram ráða menn vini sína til verka, áfram sitja þau öll og nú verður okkur án efa boðið upp á einhver sýndarmennskuhrossakaup á vordögum til að friða skrílinn, sem Geir kallaði okkur svo eftirminnilega. Spilltir pólitíkusar hafa sætaskipti og þeim eru skenkt ný embætti  og pöpullinn þagnar. Þannig sjá þau þetta eflaust fyrir sér. ... Sá sem viðurkennir mistök, viðurkennir veikleika og dregur niður flokkinn. Það má jú ekki gerast.“

Ég treysti ekki þessu fólki sem nú ver stólana sína svo ákaft, fyrir framtíð minni eða míns fólks. Þetta fólk hefur stolið verðmætum Íslands og gefið vinum og kunningjum. Þetta fólk hefur áunnið sér gegnheila fyrirlitningu og skömm mína og eini möguleikinn sem stendur þeim opinn, hverjum einstaklingi sem vill vera heiðarlegur og grandvar maður, er að segja af sér,“ sagði Ingunn á mótmælafundinum.


Boðað var til mótmælafundar á sama stað og tíma næstkomandi laugardag.

Ljósmyndir: GG  

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.