Skip to main content

Er líf eftir krabbamein?

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.25. apríl 2025

Að greinast með krabbamein er gríðarlegt áfall og biðin sem fylgir í kringum greiningarferlið og meðan verið er að finna út hvaða leið verður farin í framhaldinu er næstum óbærileg. Orðið krabbamein er stórt og gildishlaðið orð og má það rekja að hluta til þess að hér áður fyrr voru horfurnar ekki eins góðar og í dag. Veruleikinn í kjölfar krabbameinsgreiningar hefur þó breyst hratt undanfarin ár en stórstígar framfarir hafa orðið í meðferð og lækningu.


Í dag greinist þriðji hver Íslendingur með krabbamein á lífsleiðinni en þrjú af fjórum lifa, sem eru tvisvar sinnum fleiri en fyrir 50 árum. Gert er ráð fyrir að lífslíkur muni enn aukast í framtíðinni með snemmtækum greiningum og nýjum meðferðum.

Á Íslandi eru nú um 18.500 manns á Íslandi sem hafa lifað af krabbamein og hópurinn verður sífellt fjölmennari. Þakklætið sem fylgir því að læknast af krabbameini er ólýsanlegt en lítið er þó vitað um líf fólks sem lokið hefur meðferð og nauðsynlegt er að öðlast frekari vitneskju. Erlendar rannsóknir sýna að allt að 50-60 % þeirra sem læknast glíma við langvinnar og síðbúnar aukaverkanir eftir meðferð. Aukaverkanir geta háð fólki til langs tíma og sumir þurfa að búa við þær alla ævi og geta þær haft mikil áhrif á lífsgæði fólks og verið mikil áskorun fyrir bæði krabbameinsgreinda og aðstandendur. Við vitum að hérlendis eru margir að kljást við aukaverkanir og mörg hver þurfa betri stuðning en býðst í dag. Með réttum úrræðum geta fleiri notið lífsins og samfélagið notið krafta þeirra.

Hrefna Eyþórsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða segir að margir sem leiti til félagsins glími við aukaverkanir og finnst þær kannski vera smávægilegar ef horft er til þess að viðkomandi hafi læknast af krabbameini, en á sama tíma eru þær að skerða lífsgæði fólks verulega. Fólk er kannski ekki að leita sér aðstoðar vegna þessara einkenna, þar sem fólk er útskrifað úr sinni krabbameinsmeðferð.

Dæmi um aukaverkanir eru krabbameinstengd þreyta, svefntruflanir, kvíði og þunglyndi, ótti við endurkomu krabbameins, vitrænar áskoranir, meltingarvandamál, úttaugaskaði, sogæðabjúgur, vandamál tengd kynlífi og frjósemi, snemmbúin tíðahvörf og skert munn- og tannheilsa. En sem betur fer eru til leiðir til að draga úr áhrifum flestra þessara aukaverkana ef fólk er upplýst og meðvitað.

Betra líf eftir greiningu krabbameins, tímamótarannsókn sem vísar veginn


Krabbameinsfélagið stendur nú fyrir yfirgripsmikilli rannsókn á lífsgæðum eftir krabbamein sem unnin er í samstarfi við Landspítala, Háskóla Íslands og alþjóðlegan samstarfsaðila þar sem 16.000 manns hefur verið boðið að taka þátt. Um er að ræða stærstu rannsókn sinnar tegundar hér á landi þar sem borin verða saman lífsgæði og heilsa fólks sem hefur greinst með krabbamein og fólks sem aldrei hefur greinst með krabbamein.

Niðurstöðurnar munu auka þekkingu á áhrifum krabbameins og krabbameinsmeðferðar á líðan og lífsgæði og leggja til mikilvægar upplýsingar til að þróa nauðsynlega heilbrigðisþjónustu svo hægt sé að bjóða úrræði og aðstoð sem bætir líf fólks.

Forsenda þess að rannsóknin geti haft raunveruleg áhrif og bætt líf þeirra sem búa við langvinn og síðbúin áhrif krabbameins er að þátttaka í rannsókninni verði sem allra best, bæði meðal þeirra sem fengið hafa krabbamein og þeirra sem ekki hafa fengið mein.

Við hjá Krabbameinsfélagi Austfjarða skorum á íbúa Austurlands sem og aðra landsmenn sem hafa fengið boð um að taka þátt í þessari rannsókn til þess að svara og með því leggja sitt á vogarskálarnar við að bæta lífsgæði þeirra sem læknast af krabbameini en lifa með aukaverkanir.

Nánari upplýsingar um rannsóknina https://www.krabb.is/rannsoknir/lifsgaedi

Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða hafa samband í síma 835-6119.