Er ekki bara best að kjósa Framsókn?
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 29. nóvember 2024
Það er margt sem þarf að huga að þegar kemur að kosningum og ákvörðun um hvert á að greiða atkvæði. Ég hef skoðað ýmsa möguleika, borið saman helstu stefnur og velt fyrir mér fólkinu sem skipar listana. Eftir að hafa metið þetta, kemst ég að þeirri niðurstöðu að það er einfaldlega best að kjósa Framsókn!
Fólkið sem skipar lista Framsóknar er til fyrirmyndar. Þingmennirnir tveir sem sækjast eftir endurkjöri hafa staðið sig vel á liðnu kjörtímabili. Það er ekki oft sem þetta er sérstaklega nefnt, en það er vert að minnast á það núna: Þau hafa mætt í vinnuna.
Ég treysti Framsóknarfólki, Þórarni og Ingibjörgu, til að starfa af heilindum fyrir fólkið í landinu og ekki síst fyrir kjördæmið okkar. Framsókn hefur sýnt að hún ber hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti, þar sem hún er einn af örfáum flokkum sem hugsar útfyrir höfuðborgarsvæðið í stóra samhenginu. Hugmyndir eins og að færa opinber störf út á land, útvíkka loftbrúna og bæta í ferðajöfnunarsjóð ÍSÍ – allt þetta skiptir miklu máli fyrir landsbyggðina. Einnig hefur Framsóknarflokkurinn beitt sér fyrir að bæta vegakerfi landsins á liðnu kjörtímabili og mun svo sannarlega halda því áfram.
Vextir, verðbólga og húsnæðismál eru einnig stór kosningamál. Þar eru stefnur flokkanna svipaðar og allir vilja bæta ástandið. Þó að ástandið hafi ekki verið auðvelt, þá eru hlutirnir nú á réttri leið og ég tel að ekki sé ástæða til að tala um algjört óefni, eins og sumir vilja. Það þarf ekki nýtt upphaf – við þurfum einfaldlega að halda áfram á þeirri braut sem við erum komin á. Efnahagsstaðan er ágæt, miðað við heimsfaraldur og eldgos á Reykjanesskaga.
Þá er það ESB. Stefna Framsóknar í þessum málum er skýr – Framsókn vill ekki inngöngu í ESB. Flokkurinn telur að hagsmunum Íslendinga sé betur borgið utan ESB. Ég er sammála þeirri stefnu. Það er mikilvægt að verja auðlindir okkar, og í ljósi þess að atvinnuleysi er lítið og hagvöxtur sterkur hér, er engin ástæða til að ganga til viðræðna um aðild að ESB á næstu fjórum árum með tilheyrandi kostnað og óvissu.
Loks eru það verndartollarnir á innflutt matvæli. Það að sumir flokkar vilji afnema þá er ótrúlegt. Landbúnaður í nágrannaríkjum okkar er nánast allstaðar ríkisstyrktur og nauðsynlegur. Vilji flokkar afnema tolla á innflutt matvæli mun það ganga af íslenskum landbúnaði í óbreyttri mynd dauðum. Ekki tel ég það eftirsóknarvert hér í Norðaustur kjördæmi.
Framsókn hefur einnig skorið sig úr með því að setja barna-, mennta- og íþróttamál á dagskrá í aðdraganda kosninganna, og það er einnig ein af ástæðunum fyrir því að ég tel það best að kjósa Framsókn.
Höfundur er mikill áhugamaður um velsæld þjóðarinnar og flokksbundinn Framsóknarmaður.