Er betra að veifa röngu tré en öngvu?

Er betra að veifa röngu tré en öngvu?

Dr. Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor ritar sitt lokasvar til Smára Geirssonar og Þorvaldar Jóhannssonar varðandi aðdraganda efnahagshrunsins á Íslandi.
---
Sjá áður birtar greinar: Frá velsæld til vesældar, Miklir glæpamenn erum vér, Fullar hendur smjörs? og Smjörklípumeistara svarað.

Upp úr miðjum nóvember bað ritstjóri Austurgluggans mig að skýra mína sýn á orsökum efnahagshrunsins fyrir lesendum blaðs síns.  Mér var bæði ljúft og skylt að verða við bón hennar.  Ég komst ekki hjá því að benda á þátt stæsta fjárfestingarverkefnis Íslandssögunnar í því að hrinda þeirra atburðarás af stað sem endaði með hruni bankanna í 
október síðastliðnum. 

Smári Geirsson og Þorvaldur Jóhannsson eru ekki sammála mér í þessu efni og hafa nú endurtekið þá skoðun sína í pistli á vef Austurgluggans sem birtist 7. janúar 2009.  Þeir undirstrika að þeir ríghaldi í þá skoðun að risaframkvæmdirnar við Kárahnjúka og í 
Reyðarfirði hafi ekkert að gera með efnahagshrunið.


Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn þurfti sem kunnugt er að kafa djúpt ofan í rekstur íslenska þjóðarbúsins í sambandi við undirbúning að komu sinni að endurreisn þess.  Meðal þess sem úttektarmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðins skoða er aðdragandi þenslu, bólumyndunar og 
hruns.  Eins og lesendur Austurgluggans vita þá komust þeir að svipaðri niðurstöðu og ég hvað varðar þátt umræddra framkvæmda í hruninu.  Þeir Smári og Þorvaldur gefa lítið fyrir þessa skoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ætla sér þá dul að kenna þeirri ágætu 
stofnun að reikna!  Ég vona að mér fyrirgefist þó ég ráðleggi lesendum Austurgluggans að trúa frekar útreikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en útreikningum Smára Geirssonar og Þorvaldar Jóhannssonar.


Þeir félagar dylgja um “(Þórólfs) gömulu góðu pólitísku sannfæringu” án þess að gera grein fyrir hvað þeir eiga við.  Þeir snúa út úr orðum Göran Perssons sem sagði á fyrirlestri við Háskóla Íslands, sem ég átti þess kost að sækja, að það væri ofmat að halda að menn þyrftu að 
vera hagfræðingar til að skilja að það þurfi að spara til að borga niður skuldir.  Undir þau orð Perssons tek ég heilshugar.  Það hefur verið leikur margra stjórnmálamanna að búa draumum sínum hagfræðilegan búning.  Þessir stjórnmálamenn hafa talið sér trú um að með þeim hætti 
gæti svart orðið hvítt og hvítt svart, en vaknað upp við að þensla endar stundum sem samdráttur og stundum sem efnahagshrun.  Að hruninu afstöðnu farnast þeim þjóðum best sem eiga stjórnmálamenn sem eru tilbúnir til að horfast í augu við vandann og segja þegnunum að 
skuldir lækki ekki með því að taka meiri lán.  Þegar Svíar lentu í sínum hremmingum í upphafi 10. áratugs síðustu aldar stóð Göran Persson upp og sagði löndum sínum þennan sannleika.  Hér á landi eru það fyrst og fremst úthrópaðir hagfræðingar sem hafa tekið það 
hlutverk að sér með takmörkuðum árangri enn sem komið er.

Ég lít á þetta innlegg sem lokaframlag mitt til þessara deilu.

Þórólfur Matthíasson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.