Skip to main content

Enn skorin flís af horuðu HSA

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.22. nóvember 2008

Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur barist í bökkum í rekstri sínum síðustu árin. Þjónustuaukning vegna virkjunar- og álversframkvæmda vógu þungt og lítil mótframlög fengust frá ríkinu þrátt fyrir mjög aukið álag á HSA. Nú á enn að skera niður.

heilbrigisrherra.jpg

Sem dæmi um ástandið á HSA hlaupa starfsmenn í þvottahúsi í að sauma til dæmis smekki upp úr gömlum handklæðum, hjúkrunarfræðingar velja vandlega ódýrustu tegund af plastsprautum í hvert sinn sem sprauta þarf sjúkling, tæki sem bila, eins og þvottavélar, hafa verið endurnýjuð fyrir gjafafé og álag á starfsfólk almennt fer hraðvaxandi. Áætlað fjármagn til sjúkraþjálfunar á Egilsstöðum er uppurið og halli á rekstri stofnunarinnar er yfir þrjúhundruð milljónir króna. Í sumar lokuðu nokkrir byrgjar á frekari reikningsúttektir og frægt varð þegar loka átti fyrir rafmagnið í haust vegna vangoldinna rafmagnsreikninga. Stofnunin fékk þá verðbætur vegna launa sem gerði kleyft að borga allra brýnustu útgjaldaliðina í bili.

Undanfarið hefur yfirstjórn HSA unnið samkvæmt ósk heilbrigðisráðherra að áætlun um hvernig skera megi útgjöld stofnunarinnar niður um 10%, en slíkt þurfa heilbrigðisstofnanir um allt land að gera. HSA hefur nú skilað tillögum um lækkun launakostnaðar og tilfærslu starfa milli fólks og staða. Um er að ræða niðurskurð á rekstrarkostnaði um 5%, sem þýðir rúmlega hundrað milljónir króna. Ljóst er að þjónustan skerðist við þessar aðgerðir en þó gera tillögurnar ekki ráð fyrir að loka þurfi deildum, heldur niðurskurði á vinnu, yfirvinnu og breytingum á störfum innan HSA.

Einar Rafn Haraldsson, framkvæmdastjóri HSA, segist vonast til að framlag komi frá ríkinu á fjáraukalögum svo stofnunin geti greitt skuldir sínar.

 

 

 

 

Ljósmynd:

Einar Rafn Haraldsson, framkvæmdastjóri HSA, ræðir við Guðlaug Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra.

Mynd/Steinunn Ásmundsdóttir