Egilsstaðir - Fráveita og umhverfi – að lokum.

Ég er búinn að skrifa nokkuð um fráveitumál á Egilsstöðum og því kannski að bera í bakkafullan lækinn með einni enn, en mér er málið hjartans mál. Það að hætta fullnaðarhreinsun skólps á Egilsstöðum og byggja nýja skólpstöð sem eingöngu síar vatnið , en tekur ekkert á gerlamengun, og treysta á að reglugerðum verði breytt er fráleitt. Enda eigum við að fullklára þá leið sem valin var og berja okkur á brjóst yfir árangrinum, í stað þess að rífa niður það sem vel er gert og við getum verið stolt af.

Meðfylgjandi mynd er tekin uppúr skýrslu Umhverfisstofnunar frá sepember 2017 um stöðu fráveitumála og er Austurland eina svæði landsins sem er með meira en tveggja þrepa hreinsun, þ.e. gerir meira en sía vatnið og láta það svo gossa. Þarna er um að ræða hreinsivirki frá Bólholti á Egilsstöðum og hjá Alcoa Fjarðaáli í Mjóeyrarhöfn.

Það hefur verið bent á að umhverfisvernd sé alltof dýr og því eigi menn að ströggla á móti eins og hægt er og fullnægja einungis lágmarkskröfum. Að mínum dómi verður slíkt einungis rándýr millileikur, og svo finnst mér um þessa leið HEF. Ég tók saman að gamni kostnað við báðar leiðir í töflu hér að neðan.

Leið 1 gerir ráð fyrir að HEF kaupi nýtt 5.500 persónueininga hreinsivirki til fullnaðarhreinsunar og kaupi svo upp öll hin hreinsivirkin á 10% af leiguverði að leigutíma loknum. Þá eiga hreinsivirkin öll að anna 13.000 manna bæ, miðað við eðlilegt skólpmagn. Allar stærðir í þessarri leið eru þekktar, en ég geri að auki ráð fyrir 100 milljónum í minnkun á regnvatni og affallsvatni hitaveitu í þessu dæmi. Ekki til að tvöfalda í öllu kerfinu heldur einungis til að útbúa útrásir fyrir þau hverfi sem þegar er með tvöföldu lagnakerfi og taka þar með kúfinn af umframvatni sem ekki þarf að fara í gegnum hreinsivirki.

Leið 2 gerir ráð fyrir að HEF byggi nýja skólpstöð fyrir 550 milljónir (áætluð tala HEF) fyrir grófsíun og svo frekari viðbót uppá 300 milljónir (áætluð tala HEF) en nýti sér ekki uppkaup á þeim búnaði sem nú er í notkun. (Reyndar er eitt hreinsivirkið á Hallormsstað). Síðan set ég inn 600 milljónir í frekari hreinsun, gerlahreinsun, því mér finnst ekki líklegt að fáist undanþágur í þessu efni. Þetta er reyndar mjög varleg áætlun.

Þessir útreikningar sýna að þó slegið verði af kröfum þá er leiðin sem HEF er að áætla dýrari en að fullklára núverandi leið. Mér var sagt að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessu því það væri nógur tími til stefnu og ekkert í gangi nema það ætti að byrja að grafa fyrir útrásinni í Lagarfljót ??

Það er einmitt eini hluti þessarrar framkvæmdar sem EKKERT nýtist Bólholtsleiðinni, og því algjörlega galið.
Mér er ekki ljóst hvort búið sé að kaupa land eða leigja undir útrásina, en ég trúi því að Gunnar Jónsson stjórnarformaður HEF geti þá náð samningum við Gunnar Jónsson landeiganda um riftun slíks samnings.

Það er skylda sveitarstjórnarmanna og fulltrúa þeirra að fara alltaf bestu og skynsamlegustu leiðina, en þá verður líka að skoða allar hliðar, en ekki einblína á eina lausn. Ég geri mér alveg ljóst að verktakar fengju álitlega vinnu við þessa framkvæmd HEF, auk hagsmuna Eflu af þessu verki, en ég hef ALDREI vitað til þess að sveitarfélög eigi erfitt með að eyða sínu rekstrarfé og ég veit um mörg verkefni sem ég hefði viljað fá Eflu og aðrar verkfræðistofur og verktaka til að vinna í stað þessarrar framkvæmdar.

Ég hef fengið að heyra að ég gangi bara erinda Bólholts, en ég þykist vita að Bólholt fengi mun meira verkefni útúr leið HEF þegar finna þyrfti útúr gerlahreinsun aftan við stöðina. Ég dáist hinsvegar að öllum fyrirtækjum sem eru að ná árangri í sínu starfi og vil sannarlega að þau njóti ávaxta sinna og fái viðurkenningu fyrir, það á við Bólholt eins og öll önnur fyrirtæki.

Það er enginn vafi á því í mínum huga að bæði framkvæmdastjóri HEF og allir stjórnarmenn vilja og töldu sig vera að gera sitt besta í þessu máli, mistökin hafi einfaldlega verið að draga ekki fram öll sjónarmið og allar leiðir í upphafi ferilsins og láta teyma sig útí ófæruna. Ekki gera neitt í bráðræði sem valdið gæti umhverfinu tjóni og sveitarfélaginu verulegum álitshnekki .

Að þessu loknu er skrifum mínum um fráveitumál lokið, sumir verða sjálfsagt fegnir.

Virðingarfyllst,
Sigurður Ragnarsson.

fraveita kostnadartafla siddi 20180515

fraveita landsstada siddi 20180515

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar