Egilsstaðir – fráveita og umhverfi.

Þessi grein er skrifuð í framhaldi af annarri grein um sama mál, sem birtist í Morgunblaðinu í upphafi ársins og í framhaldi af fallegum litprentuðum bæklingi sem barst íbúum frá Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) nú nýverið um veitumál og þar með skólphreinsun á Egilsstöðum.

Árin 2002, 2003 og 2007 voru gerðir samningar um leigu á fimm hreinsivirkjum fyrir skólp til 20 ára með milligöngu Bólholts ehf, sem einnig þjónustar búnaðinn. Þrjár þeirra eru staðsettar við Eyvindará og eitt í Fellabæ og eitt á Hallormsstað. Það er hinsvegar brýnt að klára stóra útrás við Egilstaðabýlið, en þar er einungis gamaldags rotþró í dag.

Í viðmiðunarreglum umhverfisstofnunar er miðað við að skólpvatn frá hverjum íbúa (Persónueining) sé 200 lítrar á sólarhring. Á heimasíðu HEF segir að afkastageta hreinsivirkja Bólholts séu 17,3 lítrar/sek sem jafngildir þá 1.494.720 lítrum á sólarhring (17,3 x 60x60x24) eða sem nemur 7.474 persónueiningum (1.494.720 / 200) .

Það þýðir að núverandi hreinsivirki gætu annað 7000 manna byggðarlagi ein og sér ef líkamsstarfsemi Egilsstaðabúa er eitthvað svipuð og gengur og gerist og miðað sé við staðla Umhverfisstofnunar. Þess má geta að íbúafjöldi á Egilstöðum og í Fellabæ er um 2800 íbúar og er afkastageta hreinsivirkja Bólholts miðuð við fjölda persónueininga á viðkomandi útrás, auk 25% umframgetu eða sem nemur 250 ltr á sólarhring á persónuseiningu.

Auðvitað er mér ljóst að mikið kemur af regnvatni og hitaveituvatni í kerfið sem mengast af skólpi og því nauðsynlegt að anna meira magni en viðmiðun UST segir til um. Fyrir liggur að Bólholt getur útvegað hreinsivirki fyrir 5.500 persónueiningar á 400 millj. og þá væri afkastageta allra hreinsivirkja orðin fyrir 13.000 manna byggð samkvæmt viðmiðun Umhverfisstofnunar. HEF leggur til að frekari notkun á hreinsivirkjum Bólholts verði hætt en í þess stað byggð ein miðlæg skólpstöð sem myndi anna 200 lítrum/sek, 17.280.000 lítrum á sólarhring eða sem nemur hreinsun á skólpi fyrir 84.200 manna byggð, samkvæmt viðmiðun Umhverfisstofnunar og dæla svo öllu í Lagarfljót.

Ja fyrr má nú rota en dauðrota.

Samanburður á leiðum

En hvað er ég að væla þó HEF byggi miðlæga stöð sem annar öllu þessu magni. Þá þarf ekki að skilja regnvatn og hitaveituvatn frá og við erum trygg til langrar framtíðar, er þetta þá ekki bara gott og blessað. NEI aldeilis ekki. Við skulum bera saman hreinsivirki Bólholts annars vegar og LSD leið HEF hinsvegar.

1. þrep: Báðar aðgerðir hreinsa rusl, túrtappa, eyrnapinna og annað „ólöglegt niðurhal“ frá´ ,eins og segir í skemmtilegum auglýsingum frá HEF. Fastefnið, seyran, er botnfelld svo eftir verður skólpvatn, hreint svo langt sem það nær. Þetta er sammerkt með báðum leiðum og dugar til að koma í veg fyrir sjónmengun og lyktarmengun að mestu, en þar skilur á milli aðferðanna. Í áætlun HEF er þetta fyrsti áfangi skólpstöðvar þeirra og kostar samkvæmt áætlun 550 milljónir.

2. þrep, eingöngu í hreinsivirkjum Bólholts: Líffræðilegar aðferðir þar sem súrefni er blandað í skólpið með rafknúinni tromlu sem kemur af stað og flýtir fyrir náttúrulegu niðurbroti. Skólpvatni er þannig velt marga hringi með endurtekinni súrefnisblöndun til að ná sem mestu niðurbroti.

3. þrep, eingöngu í hreinsivirkjum Bólholts: Köfnunarefni, ammoníak og allskyns jukk er fjarlægt með einhverju ferli sem ég kann ekki skil á, en virkar afskaplega vel samkvæmt sýnatökum sem teknar eru af Heilbrigðiseftirliti Austurlands og greindar á rannsóknarstofu Matís.

4. þrep, eingöngu í hreinsivirkjum Bólholts: Síðast en ekki síst er frárennslið geislað með geislunarlömpum sem drepa þá gerla sem enn eru tórandi. Svo við setjum þetta í samhengi þá hafa verið gerðar rannsóknir á svokölluðu hráskólpi og þar hafa tölur verið á bilinu 8-12 milljónir saurkólígerla í hverjum 100 ml. Reglugerð leyfir einungis 100 saurkóligerla í 100 ml, með frávikum vegna stórrigninga og annarra aðstæðna í ákveðinn tíma í viðkvæma viðtaka. Lagarfljót er viðkvæmur viðtaki samkvæmt reglugerð, þannig að fyrirhuguð skólpstöð stenst engan veginn lög og reglur miðað við milljónirnar hér að framan.

Niðurstaða mín er sú að stóra skólpstöðin tekur vissulega á sjónmengun en ekkert á hinni raunverulegu mengun sem eru saurkólígerlar, entorokokkar, COD og fleira jukk. Nú segja sumir að allir þessir gerlar séu náttúrulegir og því ekki vandamál, en vandamálið verður einmitt til við að safna jukkinu saman í eina útrás í Lagarfljótið allan ársins hring. Samkvæmt bæklingi um fráveitumál, sem út kom hjá Umhverfisstofnun í september 2017 eru einingis 5% af skólpi á Íslandi hreinsað meira en sem nemur tveggja þrepa hreinsun og þar munar langmest um hreinsivirki Bólholts á Egilsstöðum og hjá Alcoa Fjarðaráli við Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði.

Hver er kostnaðurinn?

Og þá aðeins að kostnaðinum, en heildarkostnaður árið 2017 var 49 millj. við hreinsivirki Bólholts, að sögn HEF. Það segir ekki nema hálfa söguna því leigusamningar kveða á um að í lok leigutíma geti Fljótsdalshérað keypt búnaðinn fyrir 10% af upphaflegu leiguverði. Það má því segja að nálægt 90% af þessum „kostnaði“ séu kaup á búnaðinum. Á sama hátt segir HEF að með hreinsistöð í Egilsstaðavík væri kostnaðurinn kominn í 150 millj. og eru þá að gleyma 90% eins og áður.

Það er umhugsunarvert af hverju menn setja fram svona bull því það er kristaltært að þegar leigutíma lýkur á hreinsivirkjunum og Fljótdalshérað hefur keypt þau upp þá verður rekstrarkostnaður virkjanna svipaður og við fyrirhugaða skólpstöð. Upphaflegt leiguverð á samningstíma voru 400 millj. og því verður búið að borga 360 millj. á samningstíma ásamt verðbótum í stofnkostnað og HEF er ekki blankt að geta hent slíkri fjárfestingu nánast með einu pennastriki.

Ráðgjafinn sem lagði til þessa nýju stöð HEF kemur frá verkfræðistofu sem sérhæft sig hefur í gerð fráveitumannvirkja um allt land, en þær leiðir hafa kallað á mikla verkfræðivinnu . Til dæmis hönnun á skólpmannvirkjum, ræsum, útrásum og vinnu við skýrslugerðir og rennslismælingar. Slíkur kostnaður er varla undir 20% af heildarkostnaði við slíka uppbyggingu og því um verulega fjármuni að tefla fyrir ráðgjafafyrirtækið, sem gerir það tæplega að hlutlausum ráðgjafa í fráveitumálum. Reyndar má segja ráðgjafanum það til hróss að hafa strax bent á að hann væri á móti hreinsivirkjaleið Bólholts ehf og hefði það átt að hringja einhverjum bjöllum um að ekki yrði um hlutlausa ráðgjöf að ræða.

Ekki of seint að snúa við

Auðvitað eigum við að fullklára þá leið sem hafin var 2003 um að fullhreinsa skólp á Egilsstöðum. Sá kostnaður sem tæki að klára tvöföldun á stórum hluta bæjarins er stórlega ýktur og reyndar sýnir það áhugaleysi ákveðinna aðila að það hafi verið fyrst árið 2017 sem affall sundlaugarinnar og Tjarnargarðsins var flutt af hreinsivirki við Einbúablá og það hefur ekki verið haft fyrir því að leggja útrásir frá lögnum í hverfum sem nú þegar eru með tvöföldu lagnakerfi.

Ég lít á þessar tillögur sem mistök og það er ekki nýtt að frekar sé hlustað á tungulipra sérfræðinga að sunnan en sérfræðinga í heimabyggð. Ég tel einfaldlega að stjórnarmenn HEF hafi látið teyma sig útí ófæruna og það er bara mannlegt að gera mistök, en það er stórmannlegt að viðurkenna þau og leiðrétta. Og ef Efla verkfræðistofa og Bólholt tækju sig saman í fráveitulausnum fyrir sveitarfélög þá gæti enginn keppt við það hvorki hér á landi né þó víðar væri leitað, en það er önnur saga.

Hitaveita Egilstaða og Fella er frábært fyrirtæki og Guðmundur Davíðsson, sem brátt hættir störfum, hefur unnið kraftaverk í öflun vatns fyrir okkur íbúa þéttbýlisins. Má nefna nýtt neysluvatnsból á Fagradal og nýja gjöfula heitavatnsborholu í Urriðavatni, sem gefur okkur eina heita vatnið á landinu sem vottað er til matvælaframleiðslu, og það var ekki síst fyrir þrákelkni Guðmundar að æðin fannst. Guðmundar getur einnig orðið minnst sem eina fráveitustjóra landsins sem fullhreinsar skólp og setur hann þar með á stall með framsýnustu mönnum í umhverfisgæðum. Ég trúi því að svo verði og þessu afturhvarfi til fortíðar verði hætt, annað væri dapurlegt.

Nýlega voru kynntar metnaðarfullar tillögur um baðstað við Urriðavatn og hann á eftir að verða lyftistöng fyrir svæðið og stóefla áhuga annarra fjárfesta á frekari nýtingu vatnsins okkar, til dæmis á Barrasvæðinu. Fljótsdalshérað hefur alla burði til að verða metnaðarfyllsta sveitarfélag landsins í umhverfis- og náttúrugæðum, en þá verðum við líka að þora að nýta þau gæði og tækfæri.

Mér hefur oft fundist umræða um náttúru- og umhverfismál einkennast af trúarhita og hræsni, bæði þeirra sem vilja vera á móti öllu og stinga höfðinu í sandinn, en ekki síður hinna sem telja sig sjálfskipaða varðhunda náttúrunnar og með ofsa sínum og þröngsýni koma í veg fyrir eðlilega framþróun í nýtingu landsins gæða. Við verðum að hugsa stórt og nýta þau gæði sem við höfum á skynsamlegan hátt. Kannski meira um það síðar.

Virðingarfyllst,
Sigurður Ragnarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.