Eftir storminn

Íbúar Fjarðabyggð voru svo sannarlega minntir á hve öflug náttúruöflin geta verið þegar aftakaveður gekk yfir Austfirði sl. sunnudag. Veðrið hófst á snemma á sunnudag og gekk það ekki almenninlega niður fyrr en á mánudagskvöld.

Það er ljóst að tjónið er mikið hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélagsins. Það gefur augaleið að þarna hafa miklir kraftar verið á ferð, og veður sem við þurfum sem betur fer ekki oft að takast á við. Einna mest er tjónið á Reyðarfirði, en einnig víðar um sveitarfélagið, en fyrir liggur að einhvern tíma mun taka að átta sig endanlega á umfangi þess en vinna við það er í fullum gangi.

Starfsmenn Fjarðabyggðar hófust síðan handa strax á þriðjudagsmorgun við að hreinsa til eftir óveðrið og hafa unnið að því hörðum höndum síðan, en ljóst er að sú vinna mun taka einhvern tíma enda verkefnið ærið. Fjarðabyggð mun verða íbúum innan handar við að fjarlægja brotin tré úr görðum sínum, en miklar skemmdir urðu á trjám mjög víða. Á heimasíðu Fjarðabyggðar má finna allar upplýsingar um það hvernig íbúar snúa sér í því að fá þá aðstoð.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra hafði síðan samband við mig nýlega og bar fyrir góðar kveðjur til allra íbúa Fjarðabyggðar og boðaði jafnframt komu sína til okkar í næstu viku til að skoða aðstæður. Þá sótti Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra okkur heim seinnipartinn mánudags, skoðaði aðstæður og fundaði með kjörnum fulltrúum í kjölfar þess. Góðar kveðjur hafa auk þess borist víða að til okkar, og gott að finna samhuginn í kjölfar þessara atburða.

Atburðir eins og þeir sem hér áttu sér stað minna okkur einnig á mikilvægi þess fórnfúsa starfs sem björgunarsveitinar okkar vinna. Þar erum við íbúar Fjarðabyggðar heppnir að búa að öflugum sveitum í öllum byggðakjörnum sem svo sannarlega sýndu enn og aftur úr hverju þær eru gerðar. Fjöldi verkefna sem þær sinntu voru vel á annað hundrað og ég er sannfærður um að án snarræðis þeirra hefði tjónið orðið mun meira.

Þá er rétt að koma á framfæri þökkum til starfsmanna Fjarðabyggðar sem einnig voru á ferðinni meðan stormurinn gekk yfir og lögð drjúga hönd á plóg við að bjarga verðmætum um allt sveitarfélagið. Auk þess er ánægjulegt að sjá hve vel íbúar brugðust við ákalli í aðdraganda veðursins um að tryggja lausa muni á lóðum sínum, og undirbúa sig sem best fyrir þennan hvell.

Næstu dagar og vikur fara í hreinsunarstarf og uppbyggingu á því sem skemmdist í veðrinu. Fyrirtæki og stofnanir sem urðu fyrir tjóni hófu uppbyggingu og lagfæringar um leið og veður slotaði og hafa unnið hörðum höndum að því að koma starfsemi sinni á réttan kjöl að nýju. Íbúar tóku líka fljótt til óspiltra málanna við hreinsun í nær umhverfi sínu og smám saman mun allt komast í samt horf að nýju. Ég veit að við verðum ekki í vandræðum með að leysa þetta verkefni, íbúar Fjarðabyggðar munu saman ljúka því með sóma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.