„Ef þú getur ekki verið kurteis, verð ég að biðja þig um að fara“

Í kjölfar af Alþjóðlega baráttudegi kvenna sem haldinn var 8. mars síðastliðinn fannst mér kjörið að setja saman nokkur orð og datt mér þá í hug grein sem Jón Gnarr ritaði fyrir nokkrum árum um freka karlinn. Þar tókst honum að fanga vel þá ofbeldismenningu sem felst í því að hjóla í manneskjuna en ekki málefnin, sýna mátt sinn og megin með einvörðu sína skoðun að vopni og gera lítið úr þeim sem eru ósammála. Svo ég vitni í orð Jóns:

„Í hans augum eru allir sem eru ekki sammála honum eintóm fífl og fávitar. Sérstaklega konur. Það gilda ein lög fyrir hann en önnur fyrir alla aðra, enda fann hann þau upp. Hann sýnir vandlætingu sína með svipbrigðum og orðum. Hann er alltaf í fullum rétti. Hann veit allt betur en allir aðrir og hefur alltaf rétt fyrir sér. Hann fær aldrei nóg, ekki einu sinni af sjálfum sér. Hann kann ekki að skammast sín, veit ekkert hvað það er. En hann er fyrstur til að segja öðrum að skammast sín.“

Sögu freka karlsins má vafalítið rekja til menningar fyrri tíma og ástæða þess að hann lifir enn góðu lífi er sú að við höfum ekki verið nógu dugleg að setja honum mörk. Þar með veit freki karlinn ekki alltaf hvaða áhrif hann hefur á umhverfi sitt, kannski kýs hann líka að sjá það ekki.

Ég, sem er kona með sterkar skoðanir, hef oft hitt freka karlinn. Freki karlinn er ekki af baki dottinn, hann er víðsvegar. Hann er ólseigur og hefur því miður enga burði til þess að skilja að hann sé sannarlega freki kallinn. Hann veður áfram með yfirgangi, dónaskap og niðrandi tali, fussar og sveiar.

Á undanförnum árum hef ég oft leitað í grein Jóns mér til huggunar, til að leita skilnings og til að samsvara mér með einhverjum.

„Það eru fáir sem þora að andmæla honum eða standa í vegi fyrir honum, hvað þá að standa uppí hárinu á honum. Því hver vill lenda í honum? Hver vill sjá stingandi augnaráðið beinast að sér, heyra háðsglósurnar og hótanirnar? Hans réttlæti er óréttlæti. Hver vill vera óvinur hans og finna fyrir reiði hans? Ákaflega fáir.“

Fullkomni meðvirknihringurinn

Fyrsta skref er alltaf að gera sér grein fyrir vandanum. Næst er að benda á óæskilega framkomu og leiðrétta hana. Við þurfum að skrifa handrit, eiga í handraðanum nokkrar setningar. Setningar sem við getum slengt framan í freka karlinn svo við þurfum ekki að standa orðlaus gagnvart honum. Við erum því miður enn svo mikið á valdi freka karlsins að taugakerfið okkur bregst ósjálfrátt við, minningum um fyrri samskipti við freka kallinn þyrmir yfir okkur og við föllum beint í gryfju meðvirkninnar og í þöggun veður freki karlinn áfram.

Við getum gert betur og við eigum að gera betur.

Við þig kæri freki karl segi ég, hingað og ekki lengra. Þú munt ekki vaða yfir mig lengur, þinn tími er liðinn. Ég lofa því héðan af að standa með sjálfri mér og öðrum gagnvart þér. Ég mun stöðva óæskilega hegðun og framkomu með því að setja mörk. Ég mun ekki vera meðvirk lengur. Því er lokið.

„Ef þú getur ekki verið kurteis, verð ég að biðja þig um að fara!“

Höfundur er kona og forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.