Edda hættir sem stöðvarstjóri, Ásgrímur Ingi tekur við.

Ásgrímur Ingi Arngrímsson tekur við stjórn Ríkisútvarpsins á Austurlandi á mánudag. Edda Óttarsdóttir, sem stýrt hefur stöðinni, sagði upp í kjölfar niðurskurðar á RÚV í sumar.

Image„Staðreyndin er sú að tveir eiga að vinna þriggja manna vinnu og það voru vinnuskilyrði sem ég sætti mig ekki við,“ segir Edda en seinasti vinnudagur hennar er í dag. Tilkynnt var um niðurskurðinn vegna hagræðingar í rekstri. Fækkað var um tuttugu stöðugildi vegna þess. Ekki stendur til að leggja niður eða fækka útsendingum Svæðisútvarpsins eða fréttum unnum á Egilsstöðum. „Ég er mjög glöð yfir að skerðingin skuli ekki að bitna á útsendingum svæðisútvarpsins. Mér þykir miður að skorið skuli niður eftir þennan mikla fréttatíma í fjórðungnum. Þrátt fyrir að stóriðjuframkvæmdum sé lokið hefur RÚVAust skilað fleiri fréttum inn í útvarp og sjónvarp en fyrri ár. En þetta er niðurskurður sem bitnar á öllum deildum og við verðum að bíta í það súra epli líka.“
Jóni Knúti Ásmundssyni, fréttamanni, var upphaflega sagt upp en hann tók til starfa hjá RÚVAust í fyrrahaust. Hann og Berglind Häsler, sem var ráðin í afleysingar í sumar, deila með sér einu stöðugildi. Berglind hefur flust búferlum ásamt fjölskyldu sinni frá Reykjavík til Seyðisfjarðar.  Edda segist ekki yfirgefa RÚV alfarið, hún verði viðloðandi dagskrárgerð fyrir Rás 1. „Ég fer með fjölskyldunni til Ítalíu eftir miðjan september og við verðum þar fram í desember. Ég veit ekki hvað bíður handan næsta horns en hugur minn hefur lengi stefnt til framhaldsnáms.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.