Ábyrgð fylgir orðum

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar um gildi gagnrýnnar hugsunar:  

 

Í samfélaginu þar sem ég á heima, á Fáskrúðsfirði, býr fólk af ólíkum uppruna. Sumir eru fæddir og uppaldir á Fáskrúðsfirði en hér býr líka fólk frá Brasilíu, Djúpavogi, Litháen, Hornafirði, Bosníu, Stöðvarfirði, Danmörku, Akranesi, Þýskalandi, Grindavík, Bandaríkjunum, Breiðdalsvík, Svíþjóð, Reykjavík, Færeyjum, Borgarfirði eystra, Hollandi, Akureyri, Tælandi, Eskifirði, Póllandi og meiri segja ofan af Héraði. Eflaust er uppruni fólksins hérna enn fjölbreyttari. Tæplega 25% nemenda grunnskólans tala tvö tungumál í einhverju mæli á hverjum degi. Dags daglega búum við öll í sátt og samlyndi, vinnum saman, förum í íþróttahúsið, skiptumst á skoðunum og njótum dagsins. Við erum ánægð með okkar fjölþjóðlega samfélag og finnst það sjálfsagt án þess að leiða hugann sérstaklega að því.

En því miður heyrast stundum setningar eins þessar: ,,Farðu heim nasistinn þinn,” - ,,Farðu heim og talaðu dönsku þar,”- ,,Þú ert eins og kelling á fótboltavellinum” eða að veggmynd af Páli Óskari sem hangir þar sem margir ganga um er ítrekað  rifin ,,Af því hann er svo ömurlegur.”

Hvaðan koma fordómar af þessu tagi og hvað eru fordómar? Á vefsíðu Rauða krossins segir: ,,Fordómar eru, samkvæmt orðanna hljóðan, það að dæma aðra fyrirfram. Með fordómum er alhæft um hegðun fólks eða hugarfar, oftast á neikvæðan hátt.” Yfirleitt eru fordómar eins og þessir hér að ofan settir fram í algjöru hugsunarleysi. Oftar en ekki eru þetta orð eða gerðir sem viðkomandi fullorðinn, barn eða unglingur étur hugsunarlaust upp úr umhverfi sínu. Orð eru slitin úr samhengi og notuð meðvitað eða ómeðvitað til að gera lítið úr öðrum.

  Gagnrýnin hugsun  

Við þekkjum öll þá staðreynd að fræðsla er mikilvægasta forvörnin gegn fordómum.  Fræðsla um mismunandi viðhorf, trúarbrögð, menningarheima, þjóðir og þjóðfélagshópa. En á síðustu mánuðum hefur æ oftar komið upp í huga minn hversu miklu máli það skiptir að við beitum ,,gagnrýnni hugsun.” Við þurfum þjálfun og sjálfstraust til að hugsa fordómalaust, sjálfstætt og gagnrýnið með hjálp upplýsinga.  Apa ekki allt eftir öðrum, hvort sem það eru fjölmiðlar eða næsti maður.

Páll Skúlason fyrrverandi rektor Háskóla Íslands og heimspekingur hefur sett fram eftirfarandi skilgreiningu á gagnrýnni hugsun: ,,Gagnrýnin er sú hugsun sem felst ekki á neina skoðun nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni." Vissulega getur verið erfitt að fara eftir þessari skilgreiningu í daglega lífinu, en við gætum öll haft mikilvægi gagnrýnnar hugsunar að leiðarljósi þegar við myndum okkur skoðanir.

Eltum ekki það sem næsti maður segir umhugsunarlaust. Étum ekki orð og setningar upp eftir öðrum án þess að velta fyrir okkur merkingu þeirra. Endurtökum ekki klisjur fjölmiðlanna án nánari skoðunar.  Myndum okkur skoðun út frá upplýsingum sem við öflum sjálf og því sem við vitum og kunnum.

  Þjóðfélag án fordóma  

Eitt af því sem íslenskt þjóðfélag hefur greinilega skort síðustu misserin er gagnrýnin hugsun. Eltum við ekki flest útrásargleðina á einhvern hátt?  Jafnvel þó við vissum innst inni að dæmið gekk ekki upp. Borið hefur á svipaðri tilhneigingu hjá sumum mótmælendum að elta það sem næsti maður segir, án samhengis og umhugsunar.

Ég vil búa í þjóðfélagi án fordóma, þar sem mismunandi skoðanir njóta virðingar og samfélagið stuðlar að sjálfstæðri myndun skoðana í stað mötunar. Það er sérstaklega  mikilvægt að stjórnmálamenn beiti ,,gagnrýnni hugsun” og séu málefnalegir. Þeir tímar sem við lifum núna eru á margan hátt afar spennandi og við þurfum öll að taka þátt í breytingum næstu mánaða og ára.  Gagnrýnin hugsun er lykillinn að því lýðræðissamfélagi sem við þurfum á að halda.

Umfram allt verum bjartsýn, njótum samfélagsins við fólkið í kringum okkur og gæða náttúru Austurlands.

(Samfélagsspegill Austurgluggans 5. febrúar sl.)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.