Bókarkafli: Þegar Syneta sökk
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 17. desember 2024
Bókaútgáfan Hólar gefur í ár út bókina „Til taks – Þyrlusaga Landhelgisgæslu Íslands fyrstu 40 árin.“ Sagt er frá baráttunni fyrir því að fá björgunarþyrlu til landsins, en þær hafa verið nokkrar í gegnum tíðina og æði misjafnar, viðamestu verkefnum þyrlnanna og sviplegum atburðum í rekstri þeirra.
Bókina skrifuðu þeir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson, tveir af reyndustu þyrluflugmönnum gæslunnar, ásamt Júlíusi Ó. Einarssyni, þjóðfræðingi og fyrrum lögreglumanni. Fjöldamargar myndir prýða bókina. Hér á eftir fer kafli um aðkomu þyrlunnar að því þegar Syneta sökk í Fáskrúðsfirði árið 1986.
„Framan af var björgunarþyrla Landhelgisgæslunnar jafnvel ekki kvödd á vettvang stórslysa þrátt fyrir að augljóst hafi mátt vera að hún kynni að hafa yfirburði yfir önnur tiltæk björgunarúrræði. Sem dæmi um það má nefna sjóslysið þegar breska tankskipið Syneta strandaði við klettinn Skrúð í mynni Fáskrúðsfjarðar rétt fyrir miðnætti á jólanótt árið 1986.
Skipverjum tókst að senda út neyðarkall og óskuðu þeir eftir tafarlausri aðstoð. Skipum og bátum var óðara stefnt á vettvang til björgunar. Starfsmaður í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hringdi í vakthafandi flugstjóra upp úr miðnætti til að segja honum frá atburðum en sagði að samkvæmt mati þyrlusveitar varnarliðs Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli væri ekki flugveður. Hafði þá verið haft samband við þyrlusveitina um leið og vitneskja barst um slysið.
Það þykknaði í Benóný vegna þessa, hann kallaði saman áhöfnina og hélt strax af stað austur, enda hamlaði veður ekki ferð. Þetta tilvik endurspeglar það hve trúin á getu flugdeildar til þyrlubjörgunar var lítil á þessum tíma, jafnvel innan stofnunarinnar sjálfrar.
Það er af aðgerðinni að segja að byrjað var að fljúga yfir skipinu sem lá og veltist um á boða rétt við Skrúð en engan mann var þar að sjá og stöðugt braut yfir flakið. Tólf skip voru við leit en þau höfðu ekki komist þar nærri vegna aðstæðna. Einn maður fannst með lífsmarki og honum hafði verið bjargað um borð í bát. Þaðan var hann hífður upp í TF-SIF, í lóðréttri stöðu eins og venjan var. Maðurinn lést fljótlega um borð í þyrlunni og talið að blóðþurrð í höfði vegna hífingarinnar mætti um kenna. Eftir þetta var farið að æfa hífingar með sjúkling í láréttri stöðu í börum.“