Bókarkafli: Stafróf knattspyrnunnar
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 19. desember 2024
Guðjón Ingi Eiríksson frá Eskifirði er maðurinn að baki Bókaútgáfunni Hólum. Auk útgáfunnar skrifar hann bækur fyrir forlagið, oft um hans helsta áhuga mál sem er knattspyrna.
Guðjón, sem einnig þjálfaði Hött á Egilsstöðum sumrin 1981 og 82, hefur skrifað bókina „Stafróf knattspyrnunnar“ Hún inniheldur ekki bara skemmtisögur um fótbolta heldur er líka skrifuð á lipru máli sem hentar vel til lestrarþjálfunar fyrir börn sem geta sjálf lesið sér til gagns.
Hér á eftir fylgir kafli úr bókinni um Heimi Hallgrímsson, fyrrum þjálfara karlalandsliðs Íslands en fyrst og fremst þjálfara kvennaliðs Hattar sumarið 1993.
Heimir Hallgrímsson — Pítsa pöntuð á varamannabekkinn
Heimir Hallgrímsson er Vestmannaeyingur í húð og hár og lék sem miðvörður með ÍBV frá 1986 til 1992 og svo aftur á árunum 1994 til 1996. Í seinna skiptið þurfti hann reyndar oft að verma varamannabekkinn, enda var hann þá ekki einsléttur á sér og í það fyrra.
Atli Eðvaldsson þjálfaði ÍBV 1995 og 1996. Í einum leiknum í höfuðborginni, þegar Heimir var á bekknum, ásamt þremur félögum sínum í bumbugenginu, sem þeir kölluðu svo, tók hann upp farsíma og pantaði pítsu fyrir gengið. Ekki vegna þess að meðlimir þess væru svangir, heldur fannst þeim þetta einungis vera fyndin hugdetta. Þar af leiðandi var henni hrint í framkvæmd. Þetta var auðvitað gert án þess að þjálfarinn tæki eftir því, en tuttugu mínútum seinna birtist pítsasendill þarna hjá og kallaði: „Var einhver hér að panta pítsu?“
Atla var ekki skemmt og sendi pítsasendilinn umsvifalaust til baka og það með óopnaðan pítsakassann á milli handanna. Síðan var bumbugenginu skipað að hita upp og það eins langt frá bekknum og mögulegt væri. Þjálfarinn kærði sig ekkert um nærveru þeirra þessa stundina og vildi sem minnst af þeim vita.
Af Heimi er það svo að segja að hann hafði nýlokið tannlæknanámi þegar að þessu uppátæki kom, en hann átti síðar eftir að standa í sporum Atla sem þjálfari ÍBV og reyndar einnig íslenska karlalandsliðsins. Þar vann hann það þrekvirki að koma Íslandi á Evrópumótið 2016, ásamt Svíanum Lars Lagerbäck, og ennfremur Heimsmeistaramótið 2018, þá einn við stýrið.
Nokkru eftir að Heimir hætti með íslenska landsliðið tók hann við þjálfun liðsins Al-Arabi í Katar. Haustið 2022 gerðist hann svo öðru sinni landsliðsþjálfari, nú hjá Jamæka. Þar hætti hann um mánaðamótin júní/júlí 2024, en skömmu síðar beið hans þriðja starfið af þessum toga —hjá Írlandi.
Ekki er hægt að skilja við þennan víðförula knattspyrnuþjálfara án þess að láta eftirfarandi sögu fljóta hér með: Sumarið 2016 áttust við í Vestmannaeyjum kvennalið ÍBV og Fylkis í A-deildinni. Heimir, landsliðsþjálfari Íslands á þessum tíma og jafnframt starfandi tannlæknir í heimabæ sínum þegar færi gafst, var á meðal áhorfenda og eins gott, því undir lok leiksins missti leikmaður Fylkis, Rut Kristjánsdóttir, framtönn eftir olnbogaskot. Um leið og ljóst var hvað hefði gerst beið Heimir ekki boðanna, dreif hana rakleitt í tannlæknastólinn og kom tönninni fyrir á sínum stað.