Bókarkafli: Sögurnar hans Reynis
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 20. desember 2024
Út er komin bókin Sögurnar hans Reynis, en í henni eru frásagnir Reynis Zoëga (1920-2016) frá ýmsu sem hann upplifði um ævina. Reynir var vel þekktur á Austfjörðum, borinn og barnfæddur Norðfirðingur og tók virkan þátt í félagsstörfum í fjórðungnum.
Reynir Zoëga var einstakur sögumaður sem hafði lag á að sjá kómíska hlið á hversdagslegum hlutum. Fjórtán ára gamall var hann laumufarþegi í Esjunni til Eskifjarðar og þurfti að fara yfir Oddsskarð í niðamyrkri. Í stríðinu hélt breski herinn að hann væri njósnari, en sá sem átti að fylgjast með Reyni varð svo góður vinur hans. Reynir segir frá ævintýrum sem fylgdu siglingum til Englands á stríðsárunum. Hann vann líka það afrek að hjóla kringum landið á 55 árum. Sögurnar spanna allt frá barnæsku á Norðfirði fram yfir nírætt eða tæpa öld.
Reynir Zoëga byrjaði að skrifa hjá sér frásagnir af ýmsu sem hann upplifði á ævinni þegar hann var kominn undir áttrætt. Þó að hann hafi komið víða við sögu í opinberu lífi sem bæjarstjórnarmaður, formaður í Sparisjóði Norðfjarðar, í Björgunarsveitinni og sóknarnefndinni einbeitir hann sér mest að minningum sem tengjast lífinu utan vinnunnar. Hann segir frá siglingum um Norðfjörð sem strákur, svaðilför eftir peningum til Eskifjarðar, fjallgöngum að vetri og sumri.
„Lika stark som Svartadöden.“ Smásaga um áríðandi sendiferð
Ég held það hafi verið haustið 1937 eða `38, að Mummi á Akri kom til mín eitt laugardagskvöld og bað mig að koma með sér í Viðfjörð, ef hægt væri að fá lánaðan bát. Á þessum árum voru mikil samskipti með okkur því hann var að kenna mér á bíl, en ég ók svo fyrir hann á kvöldin, þegar hann var upptekinn við annað. Þá var lögreglan ekki að amast við því að unglingar ækju bíl á kvöldin ef gagn var að, þótt bæði vantaði próf og aldur til þess. Auk þessa vorum við stundum í fjallgöngum.
En höldum nú áfram sögunni. Okkur vantaði bát sem hentaði í þessa ferð, og það var farið að dimma og einhver rigningarúði var líka og heldur hráslagalegt veður. Ég lagði nú til að við færum til Guðmundar Sigfússonar og reyndum að fá lystibát hans léðan. Þessi bátur var um þrjú tonn, yfirbyggður að framan en opinn aftan, með gafli. Þunnur að framan og rennilegur, með 16 hesta Kelvin-vél og ganggóður. Ég hafði áður fengið bátinn lánaðan hjá Guðmundi og skilað honum heilum aftur, svo ég hélt það gæti tekist einu sinni enn. Og það tókst. Báturinn var okkur heimill en Guðmundur hélt að lítið benzín væri á tanknum í honum. Úr því var auðvelt að bæta. Ég var afgreiðslumaður hjá Shell.
Við Mummi sóttum nú benzín á brúsa og leystum bátinn, sem var vogbundinn í Sigfúsarbryggjunni og lögðum af stað út í rökkrið með stefnu til Viðfjarðar.
Ég vissi að erindi okkar í Viðfjörð var að hitta Hjelm. Hann var Svíi, stór og myndarlegur múrari. Líklega hefur hann kynnst Siggu, konu sinni, í Viðfirði þegar hann var að múra í steinhúsinu sem þar var byggt upp úr 1930, og þar ílentist hann.
En hvert erindið við Hjelm var vissi ég ekki fyrr en við vorum komnir áleiðis í Viðfjörð. Þá sagði Mummi mér að hann væri að hitta hann fyrir Jónas Guðmundsson að fá leyfi til að leysa út póstkröfu, sem Hjelm ætti á pósthúsinu heima. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá var alltaf átt við brothættan pakka frá Áfengisverslun ríkisins, ef talað var um „póstkröfu“ eða „kröfu“, án frekari útskýringa. Þess ber að geta að ekki var sími í Viðfirði og því ekki önnur ráð til þess að fá leyfið.
Mér varð nú ljóst að þetta var veigamikil ferð, því það fylgdi líka sögunni að samkvæmi væri þegar hafið í kjallara í húsi við Hólsgötu og þar vantaði ekkert nema drykkjarföngin, sem auðvitað voru aðalatriðið.
Ég bætti nú aðeins við ferðina og fljótlega vorum við komnir á áfangastað og þar bundum við bátinn við bryggju og gengum í húminu heim að bænum. Við knúðum dyra og fljótlega kom Hjelm sjálfur út. Hann bauð okkur í bæinn og bar Mummi nú upp erindið. Reyndi hann að gera honum sem ljósast hvað það væri og hóf mál sitt með því að segja að Hjelm ætti kröfu á pósthúsinu á Norðfirði, sem Jónas vildi fá að leysa út. Hvort hann gæfi sitt leyfi til þess. Hjelm kvaðst vita að hann ætti póstkröfu, en hann gæti leyst hana út sjálfur. Mummi sagði nú að Jónas myndi panta það sama í staðinn, sem hann gæti svo fengið þegar þar að kæmi. Ekki áttaði Hjelm sig á til hvers allar þessar kúnstir væru. Hann væri búinn að panta það sem hann þyrfti og gæti sjálfur leyst það út þegar hann kæmi næst til Norðfjarðar, án aðstoðar.
Augljóst var að þeim mun betur sem Mummi skýrði málið, varð það flóknara fyrir Hjelm. En nú bauð hann okkur til stofu og sagðist eiga „Fjellgrasöl“ sem hann sagði vera „lika stark som Svartadöden“ og vildi láta okkur njóta þess með sér. Sigga breiddi nú dúk á borð og kom með diska, glös og alls konar kökur og krásir ásamt tveggja potta könnu fullri af mjólk ætlaðri mér, en Hjelm kom með aðra könnu með „Fjellgrasölinu“ handa þeim samningamönnum. Ég gerði mér gott af kökunum og mjólkinni, en þeir héldu sig við ölið. Var nú stíft drukkið um stund og glösin fyllt jafnótt og þau tæmdust. Fór ég að verða uppþembdur af mjólkinni og kökum, en ölið rann enn ljúft niður og hafði undraverð áhrif, einkum á Mumma.
Það fór að rifjast upp fyrir honum norska sem hann hafði lært þegar hann vann í „Gúanóinu“ á árum fyrr og nú fór Hjelm loks að skilja um hvað málið snerist. Gengu nú samningarnir eins og í sögu, já eins og í ævintýri réttara sagt því nú vildi Hjelm koma með okkur til Norðfjarðar og hafa Siggu með!
Ekki leist Siggu of vel á þessa hugmynd, en lét til leiðast eftir að Mummi var búinn að lýsa fyrir henni hvað báturinn væri góður og snilli minni við stjórn á honum, hvernig sem léti, og auðvitað þrábeiðni húsbóndans.
Sigga og Hjelm fóru í sitt fínasta púss, því þau ætluðu í „partýið“ sem reyndar var á heimili Gunnu frá Viðfirði og manns hennar Sigurðar, þótt Jónas stæði fyrir því, en Gunna var systir Siggu. Það var nú komið myrkur og hálf hryssingslegt veður er við paufuðumst frá bænum út á bryggjuna og út í bátinn sem þar lá. Ég setti vélina í gang og leysti landfestar, en fólkið settist undir þiljur á bekki sem þar voru á bæði borð.
Vélin var í kassa inni í húsinu á milli bekkjanna. Venjulega var þar lok á, sem notað var sem borð, en nú var það í viðgerð og kassinn var því opinn.
Þetta var bagalegt, bæði vegna hávaða og einnig þess að háspennuleiðslurnar sem lágu að kertunum voru efst í kassanum og því auðvelt að reka sig í þær, sem ekki er mjög notalegt. Ekki haggaðist Hjelm mikið við það, en Mummi var næmari.
Ennþá verra var þetta nú vegna myrkurs, en ekkert ljós var á bátnum. Mummi og Hjelm voru alla leiðina í hrókasamræðum sem þurftu að yfirgnæfa mótorinn og fylgdu miklar handahreyfingar til áherslu. Var þá stundum slegið í borðið, sem oftast lenti á kertaleiðslunum sem var bölvað. Sérstaklega var slæmt fyrir mig ef höggið lenti á aftari leiðslunni, en þar vantaði róna á kertið svo leiðslan vildi fara af og þá þurfti ég að sleppa stýrinu og fara inn í húsið til að baksa við það í myrkrinu að smeygja lykkjunni á aftur, blautur á höndum. En Sigga sat allan tímann hljóð frammi í stafni í sparifötunum og lét sér fátt um finnast.
Báturinn skreið drjúgt þrátt fyrir þessar smátruflanir sem hlutust af ræðuhöldunum og brátt lagði ég honum að palli, sem var austan við Bæjarbryggjuna. Það gekk vel að koma farþegunum í land og þetta var rétt neðan við veislustaðinn. Ég fylgdi Siggu þangað, en Mummi og Hjelm fóru á pósthúsið að sækja „kröfuna“ þótt komið væri að miðnætti. Á þessum árum voru „áríðandi“ pakkar afgreiddir á hvaða tíma sólarhringsins sem var – án alls aukaplokks sem nú tíðkast og kallast á fínu máli „afgreiðslugjald“ eða „þóknun“.
Þegar Sigga sló okkur bræðrum við í veiðinni
Þegar þetta gerðist árið 1977 vorum við Sigga í laxveiði í Miðfjarðará á Langanesströnd með Guðrúnu og Jóhannesi. Þau höfðu boðið okkur með sér í veiði þangað á hverju sumri frá 1973. Við komum norður á þriðjudegi, en nú var komið að síðasta veiðidegi í þetta sinn, föstudaginn 22. júlí.
Við skiptumst á veiðisvæðum og við Sigga vorum innfrá þennan dag. Ég var búinn að reyna þar sem mér þótti líklegast um veiði, en ekkert orðið var og við vorum nú komin út undir brot í Skrúð. Jóhannes hafði sagt mér um morguninn, að hann ætlaði inn í Fálkafoss, svona rétt í lokin og reyna þar ef tregt væri útfrá.
Ég taldi vonlaust um veiði, en spurði Siggu hvort hún vildi ekki reyna svolítið meðan ég færi inn að Fálkafossi að hitta Jóhannes. Hún játaði því og tók nú við veiðiskapnum, en ég klifraði upp úr gilinu, sem er bæði djúpt og bratt.
Æði langt var inneftir og þar hitti ég Jóhannes. Hann hafði ekkert veitt og okkur kom saman um að fara að halda heim í kofa, enda komið að lokum. Ég fór nú aftur út að Skrúð, en þegar ég kom fram á gilbarminn fyrir ofan hylinn sé ég að Sigga er með lax á. Ég brölti nú eins hratt og aðstæður leyfðu niður að ánni og sá að ekki mátti tæpara standa að bjarga veiðinni, því Sigga var óvön að landa laxi hjálparlaust.
Ég tók nú sem oft áður til við að gefa leiðbeiningar af mikilli festu: „Slaka, slaka, ætlarðu að slíta úr honum! Hífðu inn manneskja, lyftu stönginni, láttu hann ekki æða um allan hylinn! Hífðu inn rólega, nei gefðu eftir, hífðu, reyndu að koma honum nær.“ Og af snarræði tókst mér að háfa hann.
„Þú varst svei mér heppin að ég kom, annars hefðirðu misst hann!“
„Já“, sagði Sigga af sinni alkunnu hógværð, „en mér gekk svo ágætlega með hinn.“
„Hvaða hinn?“ spurði ég.
„Hann liggur þarna ofan við steininn.“
Og mikið rétt, þarna lá annar lax öllu stærri. Sá sem ég bjargaði reyndist 4 pund en sá fyrri 6½ pund.
Ætli þeir litlu séu ekki erfiðari?
Þegar við fórum í veiði eftir þetta hætti Sigga að biðja mig að lofa sér að reyna, þegar mér tókst ekki að fá þá til að bíta. Hún rétti bara höndina í áttina að stönginni og ég lét hana þá af hendi umyrðalaust.