Skip to main content

Bókarkafli: Fólk og flakk

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.18. desember 2024

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum þingmaður Norðausturkjördæmis, sendi núverið frá sér bók sem kallast „Fólk og flakk.“ Í henni eru frásagnir af ferðum hans og samferðafólki. Nokkrar sögur tengjast Austurlandi. Hér eru tvær þeirra.

Hákarlabeita sem gleymdist


Á kjörtímabilinu 2013-16 slógum við okkur oft saman í bíl þingmenn þáverandi stjórnarandstöðu, við Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Kristján Möller og Brynhildur Pétursdóttir. Ég kom eitt árið frá Gunnarsstöðum á bíl sem við svo sameinuðumst í á Egilsstöðum til að hefja kjördæmayfirreið. Fljótlega fóru þær Bjarkey og Brynhildur í aftursætinu að kvarta undan lykt í bílnum en við Kristján urðum ekkert varir við neitt slíkt í framsætum og eyddum talinu.

Á leiðinni til Vopnafjarðar á öðrum degi var þó farið að kveða nokkuð rammt að lyktinni og þá rifjaðist upp fyrir mér að hákarlsbeita sem mér hafði áskotnaðist kynni að hafa gleymst aftur í bílnum. Það reyndist vera tilfellið en beitan kom að góðu gagni því á Hótel Tanga, þar sem snæddur var kvöldverður og gist, fór ég með hana fram í eldhús og hún var þar skorin í bita og notuð í eftirrétt.

Svefnlaus á Hótel Tanga


Eitt sinn á árunum eftir 1991 var það afráðið að þingmenn Norðurlands eystra og Austurland færu ásamt fulltrúum Vegagerðarinnar í mikla vettvangsferð um norðausturhornið og allt til Egilsstaða. Markmiðið var meðal annars að spá í vegstæði milli Öxarfjarðar g Þistilfjarðar sem leysa skyldi sumarveginn um Öxarfjarðarheiði af hólmi og stytta veginn fyrir Sléttu. Löng varð reyndar biðin eftir þeim vegi en hann kom að lokum, um tveimur áratugum síðar, mikil samgöngubót og leiðin kennd við Hófaskarð.

Í Þistilfirði kom oddviti sveitarfélagsins frá bæ sínum upp á þjóðveg til móts við rútuna færandi hendi, sem sagt með koníaksflösku. Glaðnaði þá yfir mannskapnum. Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps boðaði okkur til sín upp í brekkur Hellisheiðar eystri að vestan og veitti þar harðfisk, hákarl og brennivín. Kvöldinu lauk með veislu á Hótel Tanga og gerðist þar gleði mikil og söngur sem stóð vel inn í nóttina.

Ég sat að mestu hjá og gekk snemma til rekkju því ég þurfti fyrir allar aldir til Egilsstaða, ná þaðan flug til Reykjavikur og áfram um Kaupmannahöfn til Parísar. Þar var sendinefnd frá Alþingi að hefja vikulanga heimsókn til franska þingsins undir forustu forseta Alþingis, Salóme Þorkelsdóttur. Það fór ekkert fram há mér, þar sem ég reyndi að festa svefn á Hótel Tanga, að þar ríkti gleði og glaumur.

Hjörleifi Guttormssyni sagðist síðar svo frá að þetta væri næst versta nótt sem hann hefði átt á hóteli. Aðspurður um verstu nóttina sagði hann það hafa verið að lenda einn með grænlenskri togaraáhöfn í gistingu á ónefndum stað á Austfjörðum.