Orkumálinn 2024

Bændur bíta í skjaldarrendur

Rúnar Ingi Hjartarson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Austurlands, segir bændur á félagssvæði sambandsins halda að sér höndum og sjá hvernig rætist úr efnahagslægðinni sem Ísland er í.

 

Búnaðarsambandið er í samstarfi við Bændasamtök Íslands um ráðgjöf til bænda vegna efnahagsþrenginga. Rúnar segir bændur geta valið um hvort þeir komi beint til BsA eða BÍ en hann segist ekki vita til að austfirskir bændur hafi nýtt sér þjónustuna. Þau bú sem hafa tekið lán vegna fjárfestinga í mestum vanda vegna lausafjárstöðu, einkum þau sem fengu lánað í erlendri mynt.

„Það sem hefur gerst nú á síðustu vikum og mánuðum hefur í sumum tilfellum hugsanlega hækkað greiðslubyrði lána um hundruð þúsunda á mánuði og það má vera ansi góð velta til að þola það til skamms tíma og líklega ómögulegt í mörgum tilfellum til lengri tíma litið nema til komi einhvers konar breytingar, annað hvort á ytri aðstæðum eða á lánasafninu.“

Rúnar segir að bændur bíði og haldi að sér höndum þar til ró færist yfir markaði og hægt verði að gera áætlanir sem haldi til lengri tíma.
„Ég held að margir séu einfaldlega að bíða þess að eitthvað festist í hendi í ytra umhverfi okkar, til dæmis að gengisskráning nái einhverjum stöðugleika, banka og lánastarfssemi komist í skorður, að niðurstaða fáist í hugsanlegar verðhækkanir á afurðum, mjólkin var til dæmis hækkuð í vikunni, áður en farið er að huga að náinni framtíð. Eins og staðan er í augnablikinu er afar erfitt að móta áætlanir af nokkru viti til lengri tíma en vissulega er strax hægt að vinna stöðugreiningu og það ættu menn að huga að sem fyrst. Mér sýnist því að í augnablikinu bíti bændur einfaldlega í skjaldarrendur hér fyrir austan.“

Á undanförnum árum hefur Búnaðarsambandið veitt austfirskum bændum aðstoð um gerð fjárhagsáætlana. Rúnar telur að þær styðji við bakið á einhverjum bændum í dag.
„BsA hefur á liðnum árum veitt rekstrarráðgjöf og unnið áætlanir fyrir bændur, oft í sambandi við fjárfestingar eða endurfjármögnun. Lánastofnanir hafa gjarnan farið fram á þessar áætlanir frá okkur áður en þeir hafa tekið ákvarðanir um fjármögnun búa. Við höfum einnig um árabil keyrt ákveðið verkefni þar sem hópur bænda hefur fengið fjárhagsgreiningu á sínum rekstri ásamt ýmis konar áætlanagerð tengda búskapnum árvisst. Þetta verkefni tengist ekki beinlínis þeim sérhæfðu rekstrarráðgjöf sem BÍ stendur fyrir núna en búast má við að þær hafi þó stutt við bakið á einhverjum bændum að takast á við ástandið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.