Áskorun til sveitarstjórnar Múlaþings

Við undirrituð, félagar í VÁ – félag um vernd fjarðar, óskum þess að sveitarstjórn Múlaþings hafni tillögu heimastjórnar Seyðisfjarðar sem lögð var fram á 39. Fundi stjórnarinnar þann 11.10.2023 og hljóðar svona:

„Sveitarstjórn Múlaþings samþykkir að fela sveitarstjóra að fara þess á leit við Matvælastofnun að afgreiðsla rekstarleyfisumsóknar vegna fyrirhugaðs laxeldis í Seyðisfirði verði sett í forgang.“


Reyndar hefur einn heimastjórnarmaður dregið stuðning sinn við tillöguna til baka.

Á vef Múlaþings stendur um heimastjórnir: „Markmið heimastjórna er að tryggja áhrif og aðkomu heimamanna á hverjum stað að ákvörðunum sem varða þeirra nærumhverfi.”

Hér er ekki einungis um ósmekklega íhlutun heimastjórnar varðandi störf nýskipaðrar samráðsnefndar að ræða. Nefndar sem enn hefur ekki hafið störf en hefur það hlutverk að greina stöðu atvinnulífs í Seyðisfirði og að skoða hugmyndir um sjálfbær tækifæri til atvinnusköpunar. Þetta er einnig grafalvarleg íhlutun í mikilvægu ferli varðandi umsókn Fiskeldis Austfjarða.

VÁ - félag um vernd fjarðar hvetur sveitarstjórn Múlaþings (sem hingað til hefur ekki viljað vera með íhlutun varðandi umsókn Fiskeldis Austfjarða á nokkurn hátt) að hafna tillögu heimastjórnar Seyðisfjarðar. Við köllum eftir því að sveitarstjórn beiti sér frekar fyrir því að tryggt verði að vandað verði til verka hjá MAST varðandi afgreiðslu leyfisumsóknar Fiskeldis Austfjarða. Eins og margoft hefur komið fram þá er fiskeldi í opnum sjókvíum afar umdeildur iðnaður. Þar á ofan er leyfisumsókn Fiskeldis Austfjarða meingölluð og þarfnast vel ígrundaðrar skoðunar, en ekki flýtimeðferðar eða forgangs eins og heimastjórn Seyðisfjarðar leggur til.

Það getur vart talist íbúum til hagsældar að framtíð atvinnulífs eigi að byggjast á laxeldi í opnum sjókvíum. Ekki er hægt að túlka beiðni heimastjórnar á annan veg en að þau telji fiskeldi í opnum kvíum virkilega koma sterklega til greina sem lausn á atvinnuvanda sem brottför Síldarvinnslunnar hefur í för með sér. Ekki er heldur hægt að túlka bókun heimastjórnar á annan veg en að tilnefndur fulltrúi heimastjórnar í samráðshópinn eigi að tryggja að því sé komið til skila. Það er alvarlegt ef afgreiðsla leyfis til Fiskeldis Austfjarða standi ein og sér í vegi fyrir því að samráðsnefndin geti hafið störf, að mati heimastjórnar. Sú afgreiðsla þarf að hafa sinn gang, er á ábyrgð MAST, UST og Fiskeldis Austfjarða óháð því hvað kemur út úr vinnu samráðsnefndarinnar, eða hvað?

Seyðfirðingar þurfa að fá uppbyggilegar og traustar lausnir til framtíðar byggðar á því sem fyrir er, sjálfbærar og í sátt við samfélagið. Vart þarf að minna á það að í skoðanakönnun sem sveitarfélagið stóð sjálft fyrir í byrjun árs höfnuðu 75% íbúa Seyðisfjarðar laxeldi í opnum sjókvíum.

Færð hafa verið mörg, góð og gild rök fyrir því, að sjókvíaeldi kemst ekki fyrir í Seyðisfirði. Þau eru öll til skoðunar hjá MAST og umboðsmanni Alþingis. Umsókn Fiskeldis Austfjarða hefur fengið met fjölda alvarlegra athugasemda, falleinkunn hjá Skipulagsstofnun og svo mætti lengi telja. Til dæmis fara siglingaöryggi og sjókvíaeldi ekki saman í Seyðisfirði. „Að mati Samgöngustofu ber siglingaröryggi að hafa forgang við skipulagsgerð,“ segir í bréfi undirrituðu af deildarstjóra og lögfræðingi stofnunarinnar.

Við biðjum einfaldlega um að hér verði umfram allt vandað til verka svo að allur vafi verði tekin af um hvort umsókn Fiskeldis Austfjarða sé tæk, að lög og reglur séu virtar og að starfsemin standist öll viðmið.

Fyrir hönd Vá - félags um vernd fjarðar
Sigfinnur, Benedikta, Magnús, Anna Dóra og Þóra

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.