Áfram veginn - Fjarðarheiðargöng í útboð í haust

Umbætur á samgöngukerfinu hafa verið forgangsverkefni Framsóknarfólks á Austurlandi, ekki síst á Seyðisfirði, mörg undanfarin ár.

Í byrjun apríl sl. voru kynntar tillögur Vegagerðarinnar um leiðarval frá göngunum að þéttbýlinu beggja vegna Fjarðarheiðar og mikilvægt er að áfram verði unnið markvisst að nauðsynlegum undirbúningi og skipulagsvinnu þannig að verkið sjálft geti hafist sem fyrst og að verkið fari í útboð á þessu ári.

Af öðrum samgöngubótum sem barist hefur verið fyrir má nefna að það styttist í að framkvæmdir hefjist við Axarveg og framkvæmdir standa yfir við Borgarfjarðarveg. Allar þessar framkvæmdir voru mikilvægar meginforsendur í sameiningu sveitarfélaganna sem nú mynda Múlaþing, að þeim hefur verið unnið sleitulaust og slagkraftur hins sameinaða sveitarfélags nýttur til eftirfylgni. Einnig hefur verið fundað með Vegagerðinni um ýmsar úrbætur og uppbyggingu annarra vega um víðfeðmt sveitarfélag, þar með leiða að og á milli vinsælla áfangastaða.

Framsóknarfólk vill setja aukinn þunga í uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar sem fyrst sem millilandaflugvallar og einnig það brýna verkefni að jafna aðstöðumun við Keflavíkurflugvöll með jöfnun á verði á flugvélaeldsneyti. Í áætlunum Múlaþings er síðan gert ráð fyrir verulegum framkvæmdum í höfnunum á Borgarfirði, Djúpavogi og Seyðisfirði. Hafnirnar eru lífæðar byggðanna með ströndinni í atvinnulegu tilliti og mun frekari uppbygging þeirra hafa jákvæð áhrif og auka möguleika til fjölbreyttrar uppbyggingar.

Það eru tækifæri í Múlaþingi

Með þeim miklu umbótum sem leiða af uppbyggingu samgönguinnviða verður til sterkara atvinnusvæði með fleiri og fjölbreyttari störfum, aukinni nýsköpun ásamt bættu aðgengi til þjónustu og viðskipta. Framsókn hefur farið með formennsku í umhverfis- og framkvæmdaráði sveitarfélagsins og á vegum þess hefur verið markvisst unnið að auknu framboði lóða og þar liggja í dag veruleg tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki til uppbyggingar og framkvæmda. Auk fyrirhugaðra framkvæmda í höfnum sveitarfélagsins er unnið að uppbyggingu annarra mikilvægra innviða eins og fráveitu og vatnsveitu, uppbygging ljósleiðara um dreifbýli er langt komin og yfirstandandi er leit eftir meira heitu vatni. Þá hefur einnig verið unnið að því sem ætíð hlýtur að vera í forgrunni og snýr að börnum og ungmennum. Byggingu nýs leikskóla í Fellabæ er nær lokið og unnið að þarfagreiningu vegna skólahúsnæðis í byggðakjörnum sveitarfélagsins, til að forgangsraða nýframkvæmdum og nauðsynlegum úrbótum.

Aukin tækifæri til menntunar í nærsamfélagi skipta miklu máli og mikilvægt að fylgja eftir þeim tækifærum til háskólanáms sem unnið hefur verið að af sveitarstjórn. Áhugaverðar hugmyndir hafa komið frá íþróttafélögum um þeirra framtíðarsýn fyrir aðstöðu sem hafa þarf til hliðsjónar við skipulagsgerð. Framkvæmdum við menningarhúsið Sláturhúsið miðar vel og gert er ráð fyrir að ráðast í löngu tímabærar framkvæmdir við safnahúsið á Egilsstöðum í framhaldinu eins og skuldbindingar standa til.

Framtíðin ræðst á miðjunni

Traustur fjárhagur og ábyrgur rekstur sveitarfélaga er grunnur undir öfluga þjónustu og uppbyggingu mikilvægra innviða. Þrátt fyrir ágjöf vegna heimsfaraldurs hefur ekki verið slegið af hvað varðar framboð þjónustu. Reyndar hefur heldur verið bætt í og sama gildir um fjárfestingar í mikilvægum innviðum eins og lagt var upp með í áætlunum við sameiningu sveitarfélaganna. Í fjárhagsáætlun Múlaþings 2022-2025 er gert ráð fyrir góðu jafnvægi þrátt fyrir umtalsverðar fjárfestingar. Afrakstur þeirra fjárfestinga eru mikilvægir innviðir sem munu styðja við vöxt og lífsgæði íbúa í Múlaþingi ef áfram verður rétt á málum haldið.

Höfundur er sveitarstjórnarfulltrúi og formaður heimastjórnar Fljótsdalshéraðs

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.