Af jörðu ertu kominn

Árið 1997 birti ung náttúruvísindakona niðurstöður rannsókna sinna í tímaritinu Nature. Grein hennar reyndist verða tímamótagrein í náttúruvísindum, hún varpaði nýju ljósi á vistkerfi skóga og opnaði leið inn á nýtt rannsóknarsvið sem nú hefur umbylt rannsóknaraðferðum og skilningi á vistkerfum jarðar.

Ráðgátan sem Susan Simard stóð frammi fyrir við upphaf rannsókna sinna snéri að spurningunni um hvers vegna illa gekk að koma græðlingum Douglas-furu á legg þrátt fyrir að búið væri að ryðja svæði og búa í haginn fyrir vöxt þeirra. Með hugvitsamlegum aðferðum sýndi Susan fram á að tré hafa samskipti sín á milli. Og að þau samskipti felast ekki einvörðungu í að miðla upplýsingum um magn næringarefna og aðra afkomutengda þætti, þau felast líka í virku samstarfi á milli trjáa burtséð frá tegund.

Hvernig eiga þessi samskipti sér stað? Í gegnum sveppaþræði sem umvefja rætur trjánna og teygja anga sína um allan skógarbotninn. Sveppaþræðirnir flytja ekki einvörðungu upplýsingar heldur einnig nauðsynleg næringarefni og lofttegundir. Vaxi tré á stað þar sem afkoma er erfið getur það fengið senda næringu frá öðrum trjám sem betur eru stödd. Og öfugt. Sveppaþræðirnir nærast síðan á efnum sem falla til við flutninginn. Orsökin á slæmri afkomu Douglas-furunnar reyndist vera röskun á jarðvegi og felling birkitrjáa á vaxtarsvæðum furunnar. Þetta samskiptanet gengur nú undir heitinu The Wood Wide Web (sbr. The World Wide Web eða Internetið).

Í kjölfarið vann Susan fleiri rannsóknir sem sýndu m.a. fram á að tré hafa vitund um önnur tré, þau hjálpa ungviði að vaxa (ekki bara eigin afkomendum, þó stuðningur við eigin afkomendur sé meiri en við ótengda græðlinga), þau sinna veikum trjám með því að beina til þeirra næringu og nauðsynlegum efnum. Loks, að til eru svokölluð móðurtré, elstu trén í þyrpingunni. Þegar móðurtrén nálgast endalok æviskeiðs síns dæla þau frá sér forðabúri sínu sem þá gagnast öðrum trjám og græðlingum. Þau tæma sig af slíkum efnum svo þau megi nýtast vexti og viðgangs annars gróðurs. Allt það sem lýst er hér að ofan gerist fyrir tilstuðlan sveppa og sveppaþráða sem lifa í ósnortnum jarðvegi. Um rannsókir Susan Simard má lesa á netinu og í bók hennar Finding the Mother Tree.

Samskonar samstarf og samskipti á sér stað hjá öðrum jarðargróðri, sama hvaða nafni hann nefnist. Þetta hafa rannsóknir sem komu í kjölfar rannsókna Susan leitt í ljós. Ekkert vex að ástæðulausu né fyrir tilviljun á þeim stað sem það vex. Hver einasta lífvera hefur hlutverki að gegna í vistkerfinu og starfar fyrir heildina (ó, að okkur mannfólkinu gæti lánast slík viska). Í hvert sinn sem þú stígur niður fæti á grasflötina, lesandi góður, í lyngmóann eða hvar sem leið þín liggur utan malbiks, stendur þú á iðandi lífríki sem nær djúpt ofan í jarðveginn og vinnur öllum stundum að því að efla og styrkja vistkerfið.

Á Eiðum í Eiðaþinghá er viða(r)mikill kjarrskógur, ásamt öðrum trjágróðri. Birkikjarrskógur sem er að miklu leyti sjálfsprottinn því einmitt þar eru aðstæður góðar, sem og samvinna á milli tegunda sem styðja hver aðra. Þarna eru tjarnir og vötn þar sem lífríki er ríkt og mikið, líklega vegna kjöraðstæðna þar sem nauðsynleg fæða og lífefni streyma fram og til baka frá jarðvegi í vatn og öfugt. Ríkulegt fuglalíf er á svæðinu og fuglar láta til sín taka í lífkeðjunni, frjóvga jafnt og að taka til sín, og skila frá sér, næringu. Þeir sem áhuga hafa á að kynna sér einstakt náttúrufar og lífríki Eiða geta flett upp í 51. tölublaði Glettings frá 2010 þar sem finna má gagnmerka grein Helga Hallgrímssonar náttúrufræðings um svæðið.

Nú stendur til að ryðja kjarrskóginn að hluta til að koma fyrir golfvelli og 160 frístundahúsum. Nauðsynlegt er því að leggja vegir um svæðið þvert og endilangt en auk þess þarf hvert og eitt þessara húsa aðkeyrslur, bílastæði, fráveitur, raf-, vatns- og netleiðslur og meira til. Það er ljóst að ekki bara tegundir heldur vistkerfið í heild sinni mun hljóta mikið tjón af og mun sá skaði ná lengra en yfir svæðið eitt, ef lausn á fráveitumálum er að veita öllu gúmmelaðinu í Lagarfljót. Áformum þessum er ætlað að auka á náttúruupplifun við náttúrudvöl ferðamanna en allir sjá að mótsögn er fólgin í því að ætla að rústa lífríki og vistkerfi svo hægt sé að njóta náttúrunnar.

Í dag er umrætt svæði skilgreint sem útivistar og náttúruskoðunarsvæði í aðalskipulagi og sem slíkt opið almenningi. 160 frístundahús, hvert með ½ hektara svæðis innan hins afmarkaða 204 hektara skipulagssvæðis, mun að líkindum takmarka mjög aðgengi almennings að útivist og náttúruskoðun.

Og þá vaknar sú spurning hvort vilyrði um aðalskipulagsbreytingu þessa hafi legið fyrir þegar Eiða voru nýverið seldir og þá, hvort kaupskilmálar endurspegli þann hagnað sem hafa má af því að hluta landið í sundur og selja í stykkjatali sem og þá skerðingu á útivist og náttúruskoðun sem nú stendur íbúum og gestum til boða. En hvernig svo sem því er háttað má öllum vera ljóst að lífríki og vistkerfi þessa hluta Eiðalandsins mun bíða alvarlegt tjón af fyrirhuguðum framkvæmdum.

Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.