Orkumálinn 2024

Af hverju á ég að hafa skoðun á fráveitu?

Það er von að þú spyrjir! En nýjustu fréttir vekja spurningar; annars vegar um ástand Eyvindarár sem viðtaka fyrir skólp og hins vegar áætlanir Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) um að hætta að nýta Eyvindará sem viðtaka en safna þess í stað öllu fráveituvatni frá þéttbýlinu saman við Melshorn.

Þar verði reist ein stór hreinsistöð, nægjanlega öflug til að anna því vatnsmagni (200 ltr/s, svokallað 99% rennsli, samkvæmt mælingum Eflu) sem kemur úr fráveitukerfinu. Samtals 17.280.000 lítrar á sólarhring; sautján milljónir tvöhundruð og áttatíuþúsund lítrar.

Nú gætu einhverjir haldið að þar með væri málið leyst en málið er því miður aðeins flóknara. Þessi stóra öfluga hreinsistöð og lagnir að og frá henni, sem áætlað er að muni kosta um 550 milljónir króna, mun aðeins sinna fyrsta þreps hreinsun á skólpi áður en því er veitt út í Lagarfljót og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Samkvæmt lögum eiga sveitarfélög sem skila þurfa fráveituvatni í viðkvæma viðtaka* að vera með tveggja þrepa hreinsun á öllu skólpi sem frá því fer. HEF gerir vissulega ráð fyrir því að bygging hreinsistöðvarinnar nú sé aðeins fyrsta skrefið í því að svara þeim kröfum sem lög og reglugerðir gera til sveitarfélaga í fráveitumálum. Gallinn er hins vegar sá að ekki er ljóst hvenær ráðist verður í næsta skref framkvæmdarinnar, þ.e. annars þreps hreinsun á skólpi.

Stóra vandamálið í fráveitumálum Fljótsdalshéraðs í dag er að það er alltof mikið af hreinu vatni sem fer inn í fráveitulagnir. Já, þið lásuð rétt, hreinu vatni (heitt vatn, grunnvatn, yfirborðsvatn). Í stað þess að reisa eina öfluga stóra hreinsistöð til að taka við öllu þessu (hreina) vatni, vill Héraðslistinn leggja áherslu á kerfisbundna leit að því hvar hreint vatn lekur inn í fráveitukerfið svo hægt sé að koma hámarksrennsli niður fyrir 100 lítra á sekúndu. Því ef það næst, dugar að fara í stækkun núverandi hreinsivirkis við Melshorn til að ná að hreinsa fráveitu frá suðurhluta Egilsstaða, þ.m.t. það sem nú fer í rotþró í Egilsstaðavík með losun út í Lagarfljót. Auk þess stækkun hreinsivirkis í Smárahvammi fyrir Fellabæ og hreinsivirkis á Hallormsstað til að ná utan um aukningu þar. Þessi hreinsivirki bjóða upp á meira en tveggja þrepa hreinsun og myndu ráða við að hreinsa vatnsmagn í þessu magni, öfugt við það sem gerist í dag vegna reglulegra flóðtoppa í fráveitukerfinu.

Stofnkostnaður við þessa leið er að mati Héraðslistans svipaður og núverandi tillaga HEF gerir ráð fyrir en slíkt kerfi yrði talsvert dýrara í rekstri. Gert er ráð fyrir að hluta framkvæmdanna geti þurft að fjármagna með lántöku, m.a. vegna stækkunarinnar við Melshorn. Það er hins vegar ljóst að hér verða hagsmunir umhverfisins að njóta vafans.

Því niðurstaðan yrði sú að sveitarfélagið verður komið með fullkomna hreinsun fráveitu til framtíðar sem stenst kröfur íslenskra laga, gildandi aðalskipulags Fljótsdalshéraðs og Staðardagskrár 21. Og Eyvindaránni yrði borgið! Í framtíðarsýn og stefnu Fljótsdalshéraðs kemur fram að árið 2027 verði sveitarfélagið samfélag þar sem virðing fyrir umhverfi og samfélagi er einkennandi meðal íbúanna og auðlindanotkun er í takt við hringrás náttúrunnar. Fráveitu- og úrgangsmál byggja á umhverfisvænum lausnum sem skipa því í fremstu röð á þessu sviði.

Sú leið sem Héraðslistinn leggur til mun tryggja að þessi framtíðarsýn verði að veruleika.

*Bæði Eyvindará og Lagarfljót teljast viðkvæmir viðtakar.

Steinar Ingi Þorsteinsson, Kristjana Sigurðardóttir og Björg Björnsdóttir skipa þrjú efstu sætin á Héraðslistanum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.