Af atkvæðaveiðum og öfugmælaþvælu

Þar sem ekki var í boði vettvangur nema í mýflugumynd þar sem framboð gátu rökrætt stefnumál sín innbyrðis þessa kosningabaráttuna í Múlaþingi og eftir sit ég með ósögð orð langar mig að velta fyrir mér hlutum sem mér finnast skrýtnir þessa kosningabaráttuna.

Ég velti fyrir mér hvort ég sé að bjóða mig fram til sömu sveitastjórnar og sum framboð. Á atkvæðaveiðum leyfa sum framboð sér að nefna afslátt á leikskólagjöldum eða jafnvel gjaldfrjálsan leikskóla. Í sveitarfélagi þar sem ekki er framkvæmdur nokkur skapaður hlutur án þess að taka lán fyrir því og A-hluti (skólarnir og önnur starfsemi sveitarfélags sem fjármögnuð er að hluta eða að öllu leyti með skattheimtu) var rekinn með 287 milljóna króna halla og skuldahlutfall sveitarfélagsins stefnir nú þegar í lögbundið hámark 150%.

Allir á Austurlistanum vilja hafa leikskólagjöld sem lægst og mögulegt er en treysta sér ekki til að tala með svo galgopalegum hætti. Ekki síst þegar fyrirséð eru gríðarstór verkefni sem Austurlistinn vill ráðast í þegar kemur að uppbyggingu skólahúsnæðis en þar má telja stækkun grunnskóla Seyðisfjarðar og Djúpavogs, leikskóli á suðursvæði á Egilsstöðum og lausn á húsnæðisvanda frístundar og tónlistarskólans á Egilsstöðum. Allir íbúar Múlaþings tapa ef auka á taprekstur A-hluta og fjármagna hann með lántökum. Austurlistinn vill að sinni frekar leggja áherslu á að auka hlutfall starfsfólks með fagþekkingu innan skólanna skólastarfinu til góðs.

Varðandi húsnæðismál getur maður tekið því fagnandi að öll framboð daðri við skandinavískan sósíalisma í þeim efnum. Ekki nema von þar sem það hefur bersýnilega sýnt sig að sú húrrandi hægri stefna með sínum nýfrjálshyggjublæ sem ríkir hjá sveitarfélögum og bönkum þessa lands mun eiga minnstan þátt í því að leysa húsnæðisvanda landsbyggðarinnar. Undirritaður þekkir dæmi þess að Landsbanki allra landsmanna (á suðvesturhorninu) hafi farið fram á 50 – 75 % eigið fjármagn þegar einstaklingar ætla að reyna byggja í Múlaþingi. Jákvæð teikn eru þó á lofti sums staðar í Múlaþingi í þessum efnum þó það eigi eftir að koma í ljós hvort þau raungerist.

Fólkið á Austurlistanum er þeirrar skoðunar að ef ekki úr rætist eigi að skoða aðrar leiðir. Ein leið er lækkun gatnagerðargjalda en það myndum við aldrei leggja til fyrr en búið væri að kostnaðarmeta slíkt loforð og greina hvaðan mætti taka slíkar fjárhæðir. Þar fyrir utan má spyrja hvort verktakar sem byggja á stöðum þar sem það svarar kostnaði að byggja hús séu þeir sem eigi frekar að fá slíka meðgjöf en óbreyttir íbúar.

Nauðsynlegt er að auka fjölbreytileika lóða í öllum kjörnum Múlaþings og horfa til samstarfs við óhagnaðardrifin leigufélög s.s. Bjarg, Bríet og Brák. Að auki þarf að setja þrýsting á ríkisvaldið um að fara reka almennilega byggðastefnu í húsnæðismálum og þróa aðferðir sem virka á landsbyggðinni skylt við stofnframlög.

Framboðin virðast flest eiga erfitt með fiskeldismálin og þar er Austurlistinn engin undantekning svo talað sé af hreinskilni. Austurlistinn vill ekki lofa neinu í þeim efnum sem ekki er hægt að standa við eða vekur upp spurningar hvort standist lög. Það sem Austurlistinn mun gera í þessu máli fáum við til þess umboð er að leiða fram vilja íbúa með óyggjandi hætti og eftir atvikum setja þrýsting á þar til bær yfirvöld um að leyfa íbúum að ráða sinni framtíð sjálfir. Að auki teljum við skynsamlegt í ljósi umræðunnar að ráðist verði í greiningu á áhrifum eldisins á siglingaleiðir og aðra atvinnuvegi.

Að síðustu er ekki hægt annað en að taka því fagnandi að flokkar, sem barist hafa með kjafti og klóm gegn strandveiðikerfinu, séu farnir að mæra það og verja.

Kjósandi góður. Nýttu kosningaréttinn hvort sem þú vilt kjósa mig eða einhvern annan. Ég vona að þér beri gæfa til að velja framboð sem hefur ábyrga og skýra sýn á framtíð Múlaþings. Flokk sem treystir ungu fólki með reynslu til forystu. X-L

Höfundur skipar 2. sæti Austurlistans

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.