Aðeins um leiðarval og glötuð tækifæri Miðflokksins

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var leiðarval og veglína að Fjarðarheiðargöngum Héraðsmegin eitt af kosningamálunum í Múlaþingi. Að öðrum ólöstuðum gáfu fá framboð þessu máli eins mikinn gaum og Miðflokkurinn sem hafði þetta sem sitt aðalmál en þeirra sjónarmið var að heldur ætti að skoða svonefnda norðurleið en fara að tillögu Vegagerðarinnar um það sem nefnt hefur verið suðurleið. Um er að ræða stóra ákvörðun og ljóst að ekki yrðu allir á eitt sáttir um leiðarvalið. Niðurstaða sveitarstjórnar er sú að fara suðurleið en ég hef áður fjallað um þá ákvörðun, sjá hér.

Þannig vill til að oddviti Miðflokksins var vanhæfur til að taka þátt í afgreiðslu málsins vegna vensla. Ákvörðun sveitarstjórnar um vanhæfi hans við meðferð málsins hefur sannarlega vakið upp sterkar tilfinningar hjá sveitarstjórnarfulltrúanum og hefur hann reynt að fá þeirri ákvörðun snúið með því að skjóta málinu til innviðaráðuneytisins. Niðurstaða ráðuneytisins í málinu er skýr, sjá hér, en í áliti ráðuneytisins kemur þetta meðal annars fram:

„Ekki eru gerðar athugasemdir við ákvörðun sveitarstjórnar og byggðaráðs sveitarfélagsins Múlaþings um að venslamaður sveitarstjórnarfulltrúans hafi átt sérstakra eða verulegra hagsmuna að gæta umfram aðra vegna mála sem voru til afgreiðslu sveitarstjórnar í tengslum við val á tengileiðum vegna Fjarðarheiðaganga.“

Við fyrstu afgreiðslu málsins í sveitarstjórn var varamaður Miðflokksins klár og tók sæti þegar sveitarstjórnarfulltrúinn vék af fundi undir umræðum um málið. Varamaðurinn hélt góða og málefnalega tölu, málstað framboðsins haldið á lofti og umræður voru góðar.

Það sem hins vegar vakti furðu var að þegar málið kom fyrir sveitarstjórn í annað sinn var ekki kallaður til varamaður hjá Miðflokknum. Þá var búið að upplýsa bæði oddvita sem og fyrsta varamann hans um að sú staða gæti komið upp að hann yrði talinn vanhæfur og framboðið hvatt til þess að hafa varamann tilbúinn til að ræða málið á sveitarstjórnarfundinum. Það kaus framboðið að gera ekki og fyrirgera því rétti sínum til að koma efnislegum athugasemdum þeirra um leiðarvalið á framfæri á þeim stað og þeirri stund sem mest vægi hefur, á sveitarstjórnarfundi.

Í framhaldinu var umrædd skipulagstillaga auglýst og óskað eftir umsögnum eins og lögbundinn ferill segir til um. Við afgreiðslu málsins í umhverfis- og framkvæmdaráði í vikunni kom í ljós að áheyrnarfulltrúi Miðflokksins í umhverfis- og framkvæmdaráði hafði sent inn umsögn um málið. Þetta gaf tilefni til þess að kalla eftir lögfræðiliti um áhrif þess á hæfi viðkomandi fulltrúa til að taka þátt í afgreiðslu málsins. Það er skemmst frá því að segja að álit lögmanns var afgerandi á þá leið að aðili sem sendir inn athugasemd í slíku ferli verði vanhæfur til að taka þátt í afgreiðslu málsins, sem felur meðal annars í sér að svara fram komnum athugasemdum. Með hliðsjón af þessu lögfræðiáliti taldi umhverfis- og framkvæmdaráð því áheyrnarfulltrúa Miðflokksins vanhæfan til umfjöllunar um sína eigin athugasemd sem og aðrar umsagnir sem taka til þeirra meginatriða sem fram koma í hans umsögn. Nánar er fjallað um svona vanhæfi í úrskurði innviðaráðuneytisins vegna áþekks álitamáls hjá Hvalfjarðarsveit, sjá nánar hér.

Í þeim úrskurði kemur meðal annars fram:

„Þegar sveitarstjórn fjallar um skipulagsáætlanir verður að telja það meginreglu að sveitarstjórnarmaður verði einungis talinn vanhæfur til þess að taka þátt í undirbúningi og afgreiðslu þess varði skipulagsáætlun hann sérstaklega umfram aðra þá sem af því eru bundnir (sjá til hliðsjónar Páll Hreinsson, Hæfisreglur stjórnsýslulaga, 2005, bls. 299). Sem dæmi um slíkt má nefna að skipulagið varði með sérstökum og beinum hætti fasteign eða fasteignir sem sveitarstjórnarmaður eða nánir venslamenn hans eiga á því svæði sem skipulagið nær til… Hins vegar verður að telja undantekningu á framangreindri meginreglu þegar sveitarstjórnarmaður eða náinn venslamaður hans í skilningi 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga beitir sér gegn skipulagsáætlun í skjóli andmælaréttar skipulagslaga, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 31. gr. laga nr. 123/2010.“

Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs bókaði áheyrnarfulltrúinn að um pólitískt ofbeldi væri að ræða. Því er ég með öllu ósammála, það er ekki pólitískt ofbeldi að tryggja örugga og sanngjarna afgreiðslu mála þegar um íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir er að ræða líkt og hér er.

Það má segja að Miðflokkurinn hafi nokkrum sinnum farið á mis við tækifæri til að ræða þetta mál efnislega, eingöngu fyrir eigin ákvarðanir sem ekki er hægt að kenna nokkrum öðrum um. Með þessu velur Miðflokkurinn að afleiðavega umræðuna í stað þess að taka þátt í henni málefnalega og virðist kjósa að snúa þessu mikilvæga máli upp í tilgangslausar málalengingar, brigsl og svívirðingar sem enginn fótur er fyrir. Framganga fulltrúa Miðflokksins, þar sem hjólað er í manninn frekar en að ræða málefnið, er áhyggjuefni og hvorki sveitarstjórn né flokknum sem slíkum til framdráttar.

Höfundur er oddviti Framsóknar og forseti sveitarstjórnar í Múlaþingi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.