Skip to main content

Að standa við stóru orðin

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.02. júlí 2025

Ár er liðið síðan Isavia (innanlandsflugvellir ehf.) hóf að innheimta bílastæðagjöld á flugvöllum í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Í aðdraganda gjaldheimtunnar voru stór orð látin falla um landsbyggðarskatt og efasemdum lýst um lögmæti gjaldheimtunnar. Á sveitarstjórnarfundi var velt upp hvort rétt væri að kjörnir fulltrúar létu reyna á það. Annar gekk svo langt utan fundar að tala um að láta handtaka sig.


En eins og fyrirspurn Ingibjargar Isaksen á Alþingi sýnir þá koðnuðu þessar athugasemdir niður. Engin stærri kærumál hafa borist, hvað þá handtökur. Kvartanir bárust til einhverra embætta. Umboðsmaður Alþingis taldi sig ekki hafa heimildir og Persónuvernd gerði ekki athugasemdir. Kvartanir til Neytendastofu skiluðu þó árangri, þar með talið sekt, sem sýnir að Isavia var síður en svo með allt sitt á hreinu.

Þetta er ekki bundið við kjörna fulltrúa. Íbúar stofnuðu skutlhóp á Facebook sem dó strax drottni sínum.

Múlaþing átti krók á móti bragði sem var að hjálpa íbúum sínum með að koma upp strætóstoppistöð við flugvöllinn. Það tók nærri ár en hún er samt nærri jafn ófinnanleg og fjærri flugvellinum og í Keflavík. Íbúum á Egilsstöðum og í Fellabæ er annars lítil vorkunn að því að redda sér á völlinn – verra er með þá sem þurfa að koma lengra að. Almenningssamgöngur eru þó ágætar frá mörgum byggðum en í þeim eru göt.

Hvar hefur Isavia rétt fyrir sér?


Á vissan hátt hefur Isavia (innanlandsflugvellir ehf.) haft rétt fyrir sér. Aðgerðunum var að hluta til ætlað að stemma stigu við að fólk geymdi bíla, jafnvel númerslausa, á stæðunum. Í það minnsta hreinsuðust stæðin á Egilsstöðum. Á móti kann það, sem og lenging gjaldfrjálsa tímans, að grafa undan þeim áætlunum sem gerðar voru í upphafi.

Orð um landsbyggðarskattinn eru ekki jafn traust miðað við tölurnar sem komu fram í svari innviðaráðherra, við fyrirspurn Ingibjargar, um að 80% gjaldanna komi frá Reykjavíkurflugvelli. Að því gefnu að allt fari í einn pott munu gjöld úr Reykjavík síðar borga framkvæmdir á Egilsstöðum og Akureyri.

Enn sama drullan


Ástæðulaust er samt að skera Isavia (innanlandsflugvell ehf.) úr snörunni. Fyrir utan sekt Neytendastofu, þá eru fyrirætlanir fyrirtækisins um nýtingu gjaldsins jafn ógagnsæjar og áður. Það er ólíðandi að ríkisfélag skelli á gjaldheimtu sem þessari án þess að leggja fram tímasettar áætlanir um framkvæmdir. Drullupollarnir á malarstæðunum á Egilsstöðum eru hinir sömu og í fyrra. Ferðaupplifunin hefur ekkert batnað, nema síður sé fyrir auka gjald á þegar dýran farmiða. Eftir þau þvættingsummæli kusu stjórnendur félagsins að tjá sig sem minnst um gjöldin. Í þingsvarinu kemur heldur ekki fram hver margir reikningar voru ranglega gefnir út, sem er slæmt upp á að geta sannreynt orðið á götunni.

Þá er óútskýrt af hverju vanskilagjald af ógreiddum reikningi fyrir stæði er þrefalt hærra heldur en af því að borga ekki veggjaldið í Vaðlaheiðargöngunum.

Af hálfu kjörinna fulltrúa má Samband sveitarfélaga á Austurlandi eiga það að hafa haldið áfram að vekja athygli á gjaldinu. Þetta er landsbyggðarskattur því hann leggst ofan á fargjald þeirra sem þurfa nauðsynlega að sækja þjónustu langt frá heimili sínu. Eina leið Austfirðinga til að vinna þessa baráttu er að halda áfram að minna á sig og vonast til að dropinn holi steininn.