Að gera heiminn betri – Grænfánaverkefnið til valdeflingar nemenda

Þegar nemendur í grunnskóla Borgarfjarðar Eystri voru spurðir hver tilgangurinn með grænfánaverkefninu væri svaraði einn nemandi að bragði: „Til að gera heiminn betri“. Grunn- og leikskólinn á Borgarfirði Eystri er einn þeirra tæplega 200 skóla á öllum skólastigum um land allt sem taka þátt í grænfánaverkefninu.

Grænfáninn er viðurkenning fyrir skóla sem standa sig vel í menntun til sjálfbærni og eru með árangursríka umhverfisstefnu. Það er útbreiddasta viðurkenning sinnar tegundar í heiminum og taka um 59 þúsund skólar í 74 löndum þátt í verkefninu. Á Íslandi hefur Landvernd rekið verkefnið í rúmlega 20 ár.

Menntun til sjálfbærni í framkvæmd


Bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi er krafa um að skólar byggi námið sitt á menntun til sjálfbærni til að efla getu einstaklinga til að stuðla að sjálfbærri þróun innan samfélaga. Grænfánaverkefnið hefur sannað sig því Sameinuðu þjóðirnar telja það vera eina bestu leiðina í heiminum til að innleiða menntun til sjálfbærni í skólum. Hér heima hefur reynslan einnig sannað gildi verkefnisins. Þannig er menntun til sjálfbærni hluti af daglegu skólastarfi í grænfánaskólum og komin er á nokkurskonar sjálfstýring.

Það er yfirleitt auðsjáanlegt þegar komið er í grænfánaskóla að hann starfar eftir gildum þess og hægt er að finna fyrir áhuga og meðvitund um umhverfis- og sjálfbærnimál. Grænfánastarfið endurspeglast í bæði menntun og beinum aðgerðum. Í grænfánastarfi er nemandinn í brennidepli, góð tenging er við nærsamfélagið og unnið er að þverfaglegum verkefnum með fjölbreyttum aðferðum og með hnattrænni vitund. Hér eru örfá dæmi um það hvernig grænfánaskólar á Austurlandi vinna með þessar áherslur.

Dæmi frá skólum á Austurlandi


Grænfáninn er nemendastýrt verkefni og þegar komið er inn í Brúarásskóla er strax hægt að finna hvað nemendalýðræði er hátt skrifað þar. Nemendur þar eru duglegir að koma með hugmyndir til betrumbæta og fara í aðgerðir.

Bein tenging er við nærsamfélagið í grænfánastarfi og hafa útikennsla og vettvangsferðir þar mikið vægi eins og t.d. hjá leikskólanum Hádegishöfða í Fellabæ. Mikilvægt er að efla vitund barna fyrir nærumhverfinu því það eykur virðingu þeirra fyrir náttúrunni og eflir að auki lýðheilsu.

Eitt af skrefum grænfánastarfsins er að upplýsa og fá aðra með til að hafa áhrif víða. Leikskólabörnin í Brekkubæ á Vopnafirði höfðu t.d. frumkvæði á því að hengt var upp skilti til að minna fullorðna á að drepa á bílum sínum. Nemendur í grunnskóla Reyðarfjarðar kynntu stöðu plastmengunar fyrir öllum samnemendum. Nemendur í Verkmenntaskóla Austurlands fóru í samstarf við nemendur í Nesskóla og haldnir voru sérstakar Umhverfisdagar sem voru opnir fyrir almenningi m.a. með klinktorgi og reddingarkaffi.

Grænfánaverkefnið er valdeflandi og eykur getu til aðgerða sem nemendur í grunnskóla Borgarfjarðar Eystri sýndu m.a. með því að vera í samskiptum við heimastjórn sveitarfélagsins.

Menntun til sjálfbærni þarf að nálgast á þverfaglegan hátt með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Í leikskólanum Bjarkatúni á Djúpavogi lærðu nemendur mikið af því að hafa bæði einn rafmagnslausan dag og einn sérstakan rafmagnsdag. Nemendur í Brúarásskóla brugðu sér í hlutverkaleik um réttarhöld um loftslagsmál. Og nemandi í Menntaskólanum á Egilsstöðum vann í fyrra þriðju verðlaun í innanlandskeppni Umhverfisfréttafólks með vefsíðu um matarsóun.

Strax frá unga aldri er hægt að efla hnattræna vitund og samkennd eins og nemendur í leikskólanum Brekkubæ á Vopnafirði gera með því að styrkja og vera í tengslum við barn í SOS barnaþorpi og með verkefni um mismunandi lönd sem tengjast börnunum í skólanum.

Þessi fáu dæmi af fjölbreyttu grænfánastarfi í skólum á Austurlandi sýna að unnið er svo sannarlega að því að auka hæfni nemenda á mörgum sviðum og tengja saman mismunandi málefni í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Grænfánaverkefnið er umbreytandi afl sem er svo sannarlega að taka þátt í að gera heiminn betri, rétt eins og nemandi í grunnskóla Borgarfjarðar Eystri orðaði það.

Hvatning


Sérfræðingur menntateymis Landverndar er staðsettur á Egilsstöðum og ávallt tilbúinn til að aðstoða, veita fræðslu og hvetja skóla áfram, bæði núverandi þátttökuskóla eða skóla sem vilja hefja sína vegferð sem grænfánaskóli. Verið velkomin að hafa samband: Guðrún Schmidt, s: 847-2939, netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.