Skip to main content

Að deila og drottna

UmræðanThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.14. júlí 2025

Forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, skrifaði sjálfa sig í sögubækurnar fyrir helgi þegar henni, fyrst forsætisráðherra í 66 ár, mistókst að miðla málum - og það í skattamáli. Fordæmið sem hún setti mun vofa yfir öllum þingstörfum um ókomna tíð.


Leikritið sem sett var á svið til þess að réttlæta aðför meirihlutans að lýðræðinu var vel skrifað og því vel leikstýrt. Í dag blasir auðvitað við það sem okkur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins hafði lengi grunað: Að svona átti þetta alltaf að fara.

Fagleg vinna í þinginu, lögbundið samráð við hagsmunaaðila og samtal við minnihluta þóttu lengi, og þar til fyrir mjög stuttu, sjálfsagðar reglur í þinginu. Forverar Kristrúnar Frostadóttur síðastliðin 66 ár byggðu á þessum reglum þegar þau komu öllum þingmálum í gegnum þingið frá 1959. Nú voru þessar reglur hafðar að engu, og skattahækkun Kristrúnar Frostadóttur lamin í gegn.

Meirihlutinn talar um réttlæti. Hann segir að búið sé að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir og þetta muni ekki hafa nein áhrif á sveitarfélögin í landinu.

Tölum þá bara um tölurnar eins og þær eru. Meðalstór útgerð á Patreksfirði eins og Oddi mun sjá á eftir 75-80% af rekstrarafkomu í opinber gjöld. Hraðfrystihús Gunnvarar á Ísafirði mun greiða um 91% af afkomu fyrirtækisins í opinber gjöld.

Fyrirtæki í Fjarðabyggð munu greiða þrjá milljarða aukalega í skatt. Þetta eru fyrirtæki sem fjárfest hafa fyrir tugi milljarða í heimabyggð undanfarin ár. Nú er þeim sagt að betur færi á að opinberir starfsmenn á höfuðborgarsvæðinu ráðstafi því fé.

Þetta sama fólk heldur því fram, gegn betri vitund vona ég, að þetta muni engin áhrif hafa á samfélagið á Patreksfirði, á Ísafirði, heima í Fjarðabyggð og í sjávarþorpum um allt land.

Kristrún, Þorgerður og Inga voru tilbúnar til þess að taka lýðræðið úr sambandi til að hækka skatta á sjávarútveginn. Framundan eru skattahækkanir á ferðaþjónustuna, útsvarshækkanir, hækkun tryggingagjalds og afnám samsköttunar hjóna svo eitthvað sé nefnt.

Í dag var það sjávarútvegurinn. Hver er næstur?

Höfundur er þingmaður Norðausturkjördæmis