Vinsamleg tilmæli til forystu bæjarstjórnar í Fjarðabyggð: Hættið að leggja Fjarðarheiðargöngin í einelti

thorvaldur johannsson juni15Sveitarfélagið Fjarðabyggð á Mið-Austurlandi er fjölmennasta og öflugasta sveitarfélagið í landshlutanum. Á sl tveim áratugum hefur það styrkt sig í sessi með sameiningum nærliggjandi sveitarfélaga og dyggum stuðningi annarra sveitarfélaga í landshlutanum við stórfellda atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu.

Þar ber hæst sú barátta áranna 1998-2006, sem SSA leiddi fyrir Fjarðarbyggð og sveitafélögin á Austurlandi um að virkja skyldi á hálendinu og nýta orkuna í álver á Reyðarfirði. Sú barátta var ekki átakalaus heima fyrir eða á landsvísu. Þá voru samþykktir og stuðningur sveitarfélaganna í SSA lykilatriðið og nánast guðlast talið að ganga gegn þeim að mati margra heimamanna.

Nú í dag er álver Alcoa í sveitarfélaginu með 900 mannns stafandi á álverssvæðinu. Sjávarútvegur er öflugur í Fjarðarbyggð ( Síldarvinnslan-Eskja –Loðnuvinnslan) og saman er útflutningur Fjarðabyggðahafna, af áli og sjávarútvegi, um 25% af útflutningstekjum þjóðarinnar. Fullyrt er að öflug samstaða forystusveitar SSA, sveitarfélaganna og heimamanna á þeim tíma hafi ráðið úrslitum um að álver Alcoa með tengdum framkvæmdum í Fjarðabyggð er nú staðreynd.

Á síðustu 15 árum hefur langstærstur hluti alls „opinbers" fjármagns sem komið hefur í landshlutann farið í að byggja upp innviði eins og samgöngur og fleira til stuðnings við að taka á móti svo risastóru verkefni í sveitarfélagið. Fáskrúðsfjarðargöng opnuð 2006 og nú Norðfjarðargöng sem vonandi verða opnuð fyrir umferð á næsta ári.

Seyðisfirðingar og bæjarstjórn þeirra hefur allan þennan tíma staðið þétt að baki þessum stóru verkefnum enda hafa þau tvímælalaust styrkt allt Mið-Austurland. Nú er því sannarlega kominn tími til að horfa í aðrar áttir á svæðinu t.d. til bráðnauðsynlegra framkvæmda sem beðið hafa í áratugi en þola nú ekki lengri bið. Stuðningur Fjarðabyggðar og allra annarra sveitarfélaga á Austurlandi, sem þegar liggur fyrir, er nauðsynlegur.

Stuðningur við Fjarðarheiðargöng

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur síðustu ár unnið að því að Fjarðarheiðargöngin verði tilbúin til útboðs þegar Norðfjarðargöngum lýkur. Í samvinnu við þingmenn kjördæmisins ,Vegagerðina, fjárveitingavaldið og sveitarfélögin (SSA) hefur verið unnið að því að fá rannsóknarfé. Frekari rannsóknir hófust á síðasta ári Í samgönguáætlun, sem innanríkisráðherra lagði fram á Alþingi í júní sl., er gert ráð fyrir 280 milljónum í rannsóknir við göngin árin 2015-2018.

Þingmenn kjördæmisins hafa allir lýst yfir fullum stuðningi við að Fjarðarheiðargöngin verði næstu göng á Austurlandi (2.okt.sl.). Aðalfundur SSA árin 2012-2013-2014 og nú síðast 2015 (2.okt. sl.) leggur áherslu á og styður Fjarðarheiðargöng sem forgangsverkefni.

Það hljómar þvi undarlega þegar talað er um að „heimamenn" verði að ná samstöðu um næstu gangaleið eins og fram kemur í viðtali ( Austurglugginn 2.okt.sl.) við innanríkisráðherra ,eftir að hún hafði meðal annars setið opinn fund Sjálfstæðismanna á Eskifirði.

Það hefur að vísu legið fyrir að núverandi forysta bæjaryfirvalda í Fjarðabyggð og fleiri á þeim bænum hafa lýst því yfir að þeir vilji að næstu göng verði frá Fannardal í Norðfirði yfir í Mjóafjörð og þaðan til Seyðisfjarðar.

Fjarðarheiðin á samkvæmt því enn að standa sem 10 km langur fjallvegur í 600 metra hæð. Þegar hún lokast á vetrum þá lengist akstursleiðin frá Seyðisfirði/Seyðisfjarðarhöfn í Egilsstaði, sem fjölmennasti hópur akandi ( 85%) velur sem næsta áfangastað, fram og til baka um ca 80 km (40 km hvora leið).

Sumir þeirra hafa farið mikinn og vilja nú ráða Seyðfirðingum og stuðningsmönnum Fjarðarheiðarganga heilt, þvert á allar samþykktir og stuðning sem unnið er eftir.

Óskað hefur verið eftir því opinberlega að Fjarðabyggð láti af andstöðu við Fjarðarheiðargöngin m.a. til þess að skemma ekki, frekar en orðið er, fyrir vinnu og undirbúningi við áframhaldandi jarðgangagerð á Austurlandi sem er síðan að ljúka hringtengingu Mið-Austurlands með göngum úr Fannardal (Norðfirði) í Mjóafjörð og til Seyðisfjarðar.

Er nú ekki mál að linni ágætu félagar í Fjarðabyggð?

Seyðisfjarðarhöfn hefur verið og er viðurkennd bílferju- og skemmtiferðaskipahöfn Austurlands. Norræna og ört vaxandi fjöldi skemmtiferðaskipa (29 sl. sumar) færa tugi þúsunda ferðamanna inn og út úr landinu ár hvert. Egilsstaðir, miðstöð verslunar, þjónustu og samganga á Austurlandi með Egilsstaðaflugvöll, er aðeins í 28 km fjarlægð . Yfir erfiðan fjallveg Fjarðarheiðina er að fara.

Allmikið samstarf er þegar á milli nágranna sveitarfélaganna og vaxandi áhugi er nú fyrir sameiningu þeirra. Oddsskarðið heyrir nú bráðlega sögunni til. Innilega til hamingju með það. Þökk sé m.a stuðningi allra sveitarfélaganna á Austurlandi . Nú bíða Fjarðarheiðargöng sem næsta stóra verkefni.

Einhvern tíman hefði það þótt sjálfsögð kurteisi að þakka vel fyrir sig og gjalda stoltur greiðann.

Höfundur er fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði og framkvæmdastjóri SSA á árunum 1998-2010.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar