Snyrtilegur klæðnaður

ingiborg thordardottir vg 03042013Í kvöld fer fram hið árlega Fjarðaball sem er haldið fyrir krakka í 8.-10. bekk í öllum grunnskólum á Austurlandi. Þetta er skemmtileg hefð og ungilngurinn á mínu heimili er afar spenntur.

Í vikunni fengu við foreldrarnir bréf frá skólanum þar sem farið var yfir tímasetningar, kostnað og slíkt og svo koma reglur um klæðaburð. Í þeim kemur fram að snyrtilegur klæðnaður sé nauðsynlegur. Svo fylgja skilgreiningar á því hvað felst í snyrtilegum klæðnaði. Þetta eru einkum reglur ætlaðar stúlkum.

Þær skulu ekki klæðast kjól eða pilsi sem nær ekki niður fyrir hné nema þær séu í lituðum sokkabuxum eða leggings undir sem ná niður á ökkla. Sérstaklega er tekið fram að það sé ekki nóg að vera í hjólabuxum innan undir. Einnig er tekið fram að þær skuli ekki klæðast of flegnum bolum eða kjólum.

Drengirnir mega ekki vera í fráhnepptum skyrtum eða berir að ofan. Ég er ekki að sjá þessar reglur í fyrsta sinn og þetta sló mig mjög þegar eldra barn mitt fékk þessar reglur sendar heim fyrir nokkrum árum. Ég skil þessar reglur samt ekki. Hver er tilgangur þeirra?

Töluvert hefur farið fyrir umræðu um að við verðum að breyta því viðhorfi að konur sendi frá sér ákveðin skilaboð með klæðaburði. Þegar kona er beitt kynferðislegu ofbeldi er hún gjarnan spurð hvort hún hafi ögrað eða boðið upp á ofbeldið t.d. með klæðaburði. Þessu viðhorfi hefur verið harðlega mótmælt, t.d. með druslugöngunni sem farin er ár hvert.

Mér finnst það skjóta skökku við að á sama tíma og við berjumst fyrir rétti allra til að vera eins og þeir vilja þá er börnum kennt að ákveðin klæðaburður sé óviðeigandi. Ef tilgangur reglnanna er að vinna gegn þeirri klámvæðingu sem gegnsýrir samfélagið þá tel ég að sú barátta eigi að fara fram á öðrum vettvangi, ekki er rétt að gera unglingsstúlkur ábyrgar fyrir slíku. Ætli hin „snyrtilega" klæddu börn muni kannski í kvöld dansa við lög eins og Blurred Lines með Robin Thicke og Booty með Jennifer Lopez?

Að mínu mati eru þessar reglur ekki einungis óþarfar heldur beinlínis skaðlegar. Hvað er athugavert við bera leggi? Fullorðnar konur fara út að skemmta sér í stuttum kjólum, litlar stelpur fara í stutta kjóla í afmæli en unglingsstúlkur skulu hylja leggi sína, nema á fermingardaginn. Þetta eru vægast sagt vafasöm skilaboð sem ungum stúlkum eru send.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.