120 ára afmæli Rótarý og 60 ára afmæli klúbbsins í Neskaupstað
Umræðan • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • 21. febrúar 2025
Rótarýdagurinn er haldinn hátíðlegur þann 23. febrúar í ár. Þessi dagur markar 120 ára afmæli Rótarýstarfs í heiminum, því að fyrsti Rótarýfundurinn var haldinn að frumkvæði Paul Harris þennan dag árið 1905.Jafnframt er þetta stórt ár fyrir Rótarýklúbbinn í Neskaupstað, sem hefur á þessu ári starfað í sex áratugi.
Hvað er Rótarý?
Rótarý er alþjóðleg mannúðarhreyfing sem byggir á gildum um samfélagsþjónustu, siðferði, fagmennsku og alþjóðlega vináttu. Á Íslandi hefur Rótarý starfað síðan 1934 og hefur klúbbum hér á landi tekist að gera mikið gagn með ýmsum samfélagsverkefnum, bæði innanlands og á alþjóðavísu.
Rótarýklúbburinn í Neskaupstað – 60 ár af öflugu starfi
Að starfa innan Rótarý er fræðandi og skemmtilegt. Klúbburinn í Neskaupstað heldur að jafnaði um og yfir 30 fundi á ári, þar sem félagar koma saman til að hlýða á fjölbreytt erindi frá einstaklingum sem koma úr ýmsum áttum, bæði innan klúbbsins og utan. Fundarefnin eru ólík og snerta margvísleg svið, enda virðist aldrei skorta áhugaverð efni til umræðu.
Dæmi um erindi sem hafa verið flutt á þessum vetri eru kynning á starfsemi Auðnast, á verkefninu Næringarráðgjöf – Litlu bragðlaukarnir, Kvikmyndaskóla Íslands sögu og starfsemi, Stapi lífeyrissjóður umfjöllun um lífeyrismál á mannamáli, fræðsla um varmadælur, SÚN, framkvæmdir við Múlann, Eyglóar verkefnið, hákarlsverkun, bókakynningar og kynning á Kalak, vináttufélagi Grænlands og Íslands. Þá hefur einnig verið fræðsla um gervigreind, heimsókn frá Gísla Einarssyni fjölmiðlamanni og kynning á Skorrahestum, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess eru á hverjum fundi flutt þriggja mínútna innslög frá félögum, sem styrkja tengsl og efla samtalið innan klúbbsins.
Rótarý á landsvísu og í alþjóðlegu samhengi
Á Íslandi hefur Rótarý staðið fyrir fjölmörgum samfélagsverkefnum, meðal annars á sviði menntunar, heilbrigðis og umhverfismála. Á alþjóðavettvangi hefur hreyfingin verið leiðandi í verkefnum eins og End Polio Now, sem hefur stuðlað að útrýmingu lömunarveiki (pólíó) í heiminum.
Með sex áratugi að baki hefur Rótarýklúbburinn í Neskaupstað sýnt hversu mikilvægt það er að eiga sterkan vettvang í félagsstarfi. Afmælisárið gefur tækifæri til að horfa fram á veginn og halda áfram að efla samkennd, fræðslu og góðverk bæði heima og að heiman.
Virðing, samkennd og vinátta einkennir starf innan Rótarý