Sögusýning á Höfn í Hornafirði um Svavar Guðnason listmálara

svavar_gudna.jpgSögusýningin „Bandamaður náttúrukraftanna“ um Svavar Guðnason listmálara opnar laugardaginn 4. september í „Kaupfélagshúsinu“ eða öðru nafni Kaupmannshúsi Ottós Tuliniusar á Höfn í Hornafirði. Sýningin er unnin af Huldu Rós Sigurðardóttur menningar- og listfræðingi en hún hefur undanfarið unnið að meistaraverkefni sínu um listamanninn.

 

Á sýningunni gefur að líta æviágrip, heimildakvikmynd, kvikmyndaverk og fræðslu um líf og list Svavars úr ýmsum áttum. Hluti af sýningunni fjallar um uppruna Svavars sem tengist sögu Hafnar. Með sýningunni er leitað eftir því að kynna Svavar fyrir ferðamönnum á litríkan, lifandi og skemmtilegan hátt.

Hulda Rós er samhliða sýningunni að skrifa lokaritgerð um Svavar í meistaranámi sínu í hagnýtri menningarmiðlun. Í verkefninu fjallar hún meðal annars um það hvernig má nýta menningararf til miðlunar og uppbyggingar á Hornafirði. Fjallað er um uppruna Svavars og þá staðreynd að hann talaði um náttúru Hornafjarðar með sérstaka áherslu á Vatnajökul í viðtölum allan sinn feril. Hann var listamaður „úr ríki Vatnajökuls“ ekki síst vegna þess að einstök náttúrutilfinning hans birtist endurtekið í málverkinu, í viðtölum og allri umræðu um listamanninn.

Það er rétt eins og að í huganum hafi Svavar tekið með sér náttúrufegurðina á æskuslóðunum hvert sem hann fór. Þó svo að ekki sé öllum einleikið að sjá náttúru Svavars í málverkum hans, liggja fjölmörg tækifæri í því að vinna úr þessum hugmyndum sem hafa mikinn samhljóm við núverandi ferðaþjónustuuppbyggingu á svæðinu. Á sýningunni í „Kaupfélagshúsinu“ má sjá þessa hugsjón birtast í umfjöllun um listamanninn.

Sýningin verður opin laugardaga og sunnudaga í september frá 13:00-16:00. Einnig er hægt að hafa samband í síma 8668675 og kíkja á sýninguna eftir samkomulagi. Hulda Rós býður Austfirðinga velkomna á sýninguna vonast til að sjá sem flesta.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.