Mismunun og umburðarlyndi í ljósi sögu

Nýlega kom út hjá Edizioni Plus í Písa ritið Discrimination and Tolerance in Historical Perspective í ritstjórn Guðmundar Hálfdanarsonar prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands. Í bókinni eru 22 greinar eftir 40 höfunda frá 16 löndum, en allir höfundarnir eru þátttakendur í öndvegisnetinu CLIOHRES.net, sem er styrkt af vísindaáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið er til fimm ára og er skipulagt af 45 háskólum með þátttöku 180 fræðimanna frá 31 landi úr mismunandi fræðigreinum; sagnfræði, landafræði, listasögu, málvísindum, guðfræði, félagsfræði og heimspeki.

discrim_toleration.jpg

 

Viðfangsefni bókarinnar, mismunun og umburðarlyndi, á mikið erindi við samfélag okkar í dag, enda eru átök sem tengjast mismunun vegna þátta eins og þjóðernis, útlits, trúarbragða, kynferðis og efnahagslegrar stöðu félagslegt vandamál um allan heim. Í ritinu eru dæmi um hvernig þessi hugtök birtast í sögu ýmissa landa Evrópu allt frá Grikklandi til forna til nútímans, en einnig litið til Ameríku og Suður Afríku til samanburðar.

Helstu niðurstöður bókarinnar eru þær að í fyrsta lagi hafa „mismunun“ og „umburðarlyndi“ einkennt mannleg samfélög allt frá upphafi vega, þótt nútímaskilningur hugtaksins umburðarlyndi komi fyrst fram í heimspekiritum frá 16. og 17. öld. Ástæðan er sú að öll samfélög greinast í hópa sem takast á eða reyna leita leiða til að lifa í sæmilegri sátt. Í öðru lagi, ef við skoðum sögu hugtakanna, þá er tæplega hægt að líta á þau sem algerar andstæður eins og oftast er gert nú á tímum. Alþjóðlegu heitin yfir þessi hugtök eru dregin af latneskum sögnum sem þýddu að „umbera“ (tolero) og „aðgreina“ (discrimino). Í reynd er aðgreining (discrimination) ákveðin forsenda umburðarlyndis (tolerance) frekar en andstæða, því að hópur sem er umborinn af öðrum er álitinn frávik frá ríkjandi reglu – hann er því afmarkaður eða aðgreindur frá þeim ráða í samfélaginu, þótt hann sé umborinn. Eins leiðir umburðarlyndi ekki sjálfkrafa til jafnréttis eða fullrar viðurkenningar ríkjandi hópa gagnvart þeim sem eru umbornir. Því er nauðsynlegt að hafa í huga að þótt lýðræðissamfélög nútímans séu að ýmsu leyti umburðarlyndari en samfélög fyrri tíma gagnvart minnihlutahópum þá fer því fjarri að mismunun heyri sögunni til.

Einstaka kafla bókarinnar má nálgast á rafrænu formi á vef CLIOHRES.net http://www.cliohres.net/books3/books.php?book=7

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar